05.03.1970
Sameinað þing: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í D-deild Alþingistíðinda. (3793)

103. mál, hafnarmálefni

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það er orðið langt um liðið síðan Alþ. samþykkti að skora á ríkisstj. að láta fram fara þær athuganir á hafnarstæðum við suðurströndina, sem hér er verið að spyrjast fyrir um árangur af. Og af því að hæstv. ráðh, varð það að ætla fyrri fyrirspyrjanda, að hann teldi, að lítið hefði verið aðhafzt í þessu, þá skal ég gangast við því, að þegar ég spurðist seinast fyrir um þetta mál, þ.e.a.s. hafnarstæðið við Dyrhólaey, — það hefur líklega verið fyrir einum 7–8 árum, — þá fékk ég þau svör, að þær framkvæmdir, sem taldar voru eiga að miða í þá átt að komast einhverju nær um raunveruleikann í málinu, voru nánast þess eðlis, að ég ályktaði, að ekkert hefði verið gert. Það á ekki við núna. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf, séu þess eðlis, að ekkert hafi verið gert. Nú gegnir hér sem sagt allt öðru máli heldur en þá var.

Það er augljóst mál, að þótt rannsóknirnar, sem ráðh. greindi hér frá, séu ekki mjög ýtarlegar, þá er hér um svo dýrar framkvæmdir að ræða, að hlutverk hafna á þessum stöðum yrði að vera ærið mikið, til þess að réttlætanlegt væri, eins og ráðh. reyndar drap á, að leggja þetta fé í hafnargerð á þessum stöðum. Það skal ég fúslega viðurkenna.

Þótt ráðh. beindi nú að vísu ekki til mín þeirri fsp., sem hann lagði fyrir fyrra flm. fsp., hvora höfnina hann teldi að ætti fremur að byggja að fengnum þeim upplýsingum, sem ráðh. lagði fyrir, hvernig sem menn meta nú traustleika þeirra, þá vildi ég gjarnan svara þessu máli að mínu leyti. Ég tel, að næsta stigið í hafnarmálum Sunnlendinga ætti ekki að vera að ákveða hafnargerð við Dyrhólaey eða í Þykkvabæ á þeim forsendum, sem rannsóknirnar hafa beinzt að. Ég tel, og flutti enda ásamt hv. 4. þm. Sunnl. till. á síðasta þingi um að skora á ríkisstj. að hefja rannsókn á þriðja möguleikanum, sem mér býður í grun að muni taka þessum tveimur möguleikum fram. Úr því koma rannsóknir væntanlega til með að skera. Ég ætlaði að endurflytja og mun að þessum upplýsingum fengnum standa að því að flytja þessa till. að nýju. Hún er um að skora á ríkisstj. að láta fram fara athugun á hafnargerð í Þjórsárósi. En eins og við allir könnumst við, eru uppi miklar hugmyndir um þessar mundir um að auka vatnsmagn Þjórsár með því að veita í hana öðrum ám og stórum, sem nú falla til sjávar í öðrum landshlutum, jafnvel öðrum landsfjórðungum. Ég er þess vitandi, að ýmsar af stærstu höfnum í Evrópu, á vesturströnd Evrópu, eru ýmist í ármynnum eða uppi í ám. Ef teknar eru sem dæmi hafnir eins og Antwerpen í Belgíu eða Rotterdam í Hollandi, þá eru þetta hafnir, sem standa við sendnar strendur og brimasamar, en vatnsmagn þeirra fljóta, sem þær standa við, virðist hreinlega vinna bug á úthafsöldunni allflesta daga árs og sömuleiðis hafa áhrif á sandburð við þessar strendur, með því að straumur þeirra er það sterkur, að vandamálið verður ekki eins stórkostlegt á þessum svæðum og þar sem annaðhvort minni eða alls engar ár falla til sjávar. Ég er þeirrar skoðunar, að næsta verkefnið í hafnarmálum Suðurlands sé að kanna það af gaumgæfni, hvers konar hafnarstæði sé hugsanlegt í mynni Þjórsár, og allra frekast með tilliti til þess, hvað það mundi bæta hafnarskilyrðin, ef vatnsmagn Þjórsár yrði aukið verulega.

Ég vil sem sagt láta þetta koma fram og það, að till., sem hér var flutt í fyrra, um rannsókn á hafnarstæði í Þjórsármynni, er ekki komin fram, er beinlínis vegna þess, að við flm. biðum eftir því að fá upplýsingar um það, hvað rannsóknir, sem gerðar hafa verið á þessum tveimur svæðum, sem hér hafa verið til umr., eru langt komnar og hversu álitlegar þær væru. Að þessum upplýsingum fengnum verð ég að segja, að upplýsingarnar, sem fyrir liggja, eru ekki jákvæðari en svo, að ég tel, að það eigi að ráðast í þriðju rannsóknina af mikilli alvöru.