05.03.1970
Sameinað þing: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í D-deild Alþingistíðinda. (3794)

103. mál, hafnarmálefni

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, en alls ekki til þess að gera aths. við það, sem hv. fyrirspyrjendur hafa sagt. Þegar hv. 6. þm. Sunnl. talar um Þjórsárós, þá er það út af fyrir sig alveg eðlilegt, að honum detti hann í hug. En ég vil minna á, að þegar verið var að rannsaka hafnarstæðið í Þykkvabæ 1950, þá fór rannsóknin fram á svæðinu frá Holtsósi til Þjórsáróss, rannsóknin beinist þarna að allri strandlengjunni. Og ég minnist þess, að það voru amerískir hermenn þarna, — þeir héldu til á Hellu um þetta leyti. Þeir sögðu vera alveg eins úti í Þjórsárós eins og austur í Rangárós.

Ég get lýst því yfir í tilefni af því, sem hv. 6. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að ég mun skrifa vitamálastjóra og beina því til hans, að sú rannsókn, sem fer fram í sambandi við hafnargerð í Þykkvabæ, verði jafnframt látin fara fram í Þjórsárósnum, ef það skyldi reynast betra hafnarstæði. Þetta er sem sagt alveg á sama stað, og það hefur ekki verið markaður neinn bás fyrir þessa hafnargerð a.m.k. á svæðinu frá Rangárósi til Þjórsáróss. Hvort þetta nægir eða ekki, það verður hv. 6. þm. Sunnl. að meta. Að sjálfsögðu flytur hann till., ef hann telur það henta, en ég vil nota tækifærið og láta hv. þm. vita af því, að ég mun skrifa vitamálastjóra og leggja fyrir hann að beina rannsókninni að Þjórsárósi um leið og Þykkvabæjarhöfninni.