11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í D-deild Alþingistíðinda. (3798)

919. mál, veiðiréttindi útlendinga

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leitast við að svara þessum fsp., sem hér eru fram komnar, þótt það sé ekki auðvelt með stuttum fyrirvara.

Ég vil í byrjun minna á, að samkv. 1. gr. laga nr. 19 frá 6. apríl 1966 þarf leyfi ráðh., til þess að erlendir ríkisborgarar megi leigja veiðiréttindi í ám og vötnum. Þó þarf eigi leyfi til leigu veiðiréttinda um þriggja ára tímabil eða ef uppsögn er áskilin með eigi lengri en eins árs fyrirvara.

Á undanförnum þremur árum hefur aðeins ein beiðni borizt um leyfi til að leigja erlendum aðila stangaveiði í íslenzkum veiðivötnum. Í októbermánuði 1967 óskaði veiðifélag Hofsár í Vopnafirði leyfis rn. til að gera samning við brezkan mann, McDonald að nafni, til 7 ára um alla stangaveiði í Hofsá og Sunnudalsá. Áður hafði veiðifélagið auglýst eftir tilboðum í veiði í þessum ám. Veiðifélaginu barst eitt tilboð frá nefndum McDonald. Samningsuppkastið var sent veiðimálanefnd og veiðimálastjóra til athugunar, og mæltu þessir aðilar með samningsgerðinni. Eins og málsatvikum var háttað, leyfði rn. veiðifélagi Hofsár að gera framangreindan leigusamning.

Nokkrum árum áður hafði verið gerður leigusamningur við enskan mann um Vatnsdalsá, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda áðan.

Í sambandi við leiguna á Hofsá frétti ég það á s.l. sumri, að veiðin í Hofsá hefði minnkað mjög mikið að undanförnu og bændurnir þar eða veiðiréttareigendur þar eystra teldu sig heppna að hafa gert þennan leigusamning. Ég hef einnig heyrt, að veiðiréttareigendur við Vatnsdalsá séu mjög ánægðir með þá samninga, sem þeir hafa gert við þann enska mann, sem þar er. Seinna hefur svo verið boðið hátt verð í Laxá í Leirársveit, Þverá í Borgarfirði og Laxá í Kjós, en það eru innlendir aðilar, sem þar eru að verki. Þó má vel vera, að þeir hafi í huga að leigja erlendum stangaveiðimönnum út veiðileyfi. Því gæti ég vel trúað. Þá er náttúrlega spurningin, hvort það er eðlilegt miðað við okkar þjóðfélag, að menn taki á leigu heilar ár, borgi fyrir þær hátt verð og auglýsi svo veiðileyfi og selji þeim, sem vill hafa, á sem hæstu verði. Það er nokkuð, sem ábyggilega væri hægt að færa mörg rök með og sennilega einhver á móti, en út í það ætla ég ekki að fara. En ég vil til viðbótar þessu, sem ég nú hef sagt, lesa upp bréf frá veiðimálastjóra, sem er að nokkru leyti svar við þeim fsp., sem hér liggja fyrir. Bréfið er dags. 6. þ. m.:

„Í bréfi hins háa rn., dags. í gær, er óskað eftir umsögn um fsp. Jóns Ármanns Héðinssonar alþm., á þskj. 367, lið II, 1. og 2. spurningu. Svo sem kunnugt er, gera lög um lax- og silungsveiði ekki ráð fyrir, að veiðimálastjóri hafi afskipti af veiðileyfum, en slík viðskipti eru mál milli veiðieigenda og stangaveiðimanna. Upplýsingar um veiðileigur eru því litlar aðrar en þær, að vitað er oftast, hverjir hafa á leigu ár, sem veiðifélög starfa við. Er skrá yfir slíka leigutaka hirt í ferðahandbókinni, sem kemur út árlega. Tvær ár eru nú leigðar útlendingum. Eru það Vatnsdalsá og Hofsá í Vopnafirði. Við ár, þar sem veiðifélög starfa, er veiði langoftast leigð stangaveiðifélögum eða hópum stangaveiðimanna, sem framleigja veiðina einstaka daga. Í félögunum hafa félagsmenn forgangsrétt að veiðidögum, en það, sem umfram er af leyfum, en félagsmenn nota ekki, er selt hverjum sem hafa vill. Geta útlendingar keypt slík veiðileyfi. Sama er að segja um veiðidaga, sem einstakir bændur selja, hvort heldur er í ám eða stöðuvötnum.

Nú síðustu árin hefur áhugi leigueigenda og leigutaka aukizt á að leigja veiði til útlendinga, oftast nokkra daga í senn, og hafa þá leigutakar ýmist selt sjálfir veiðileyfin beint til útlendinganna eða fyrir milligöngu ferðaskrifstofanna. Upplýsingar um slík viðskipti eru ekki fyrir hendi í einstökum tilvikum.“

Þá þykir mér rétt að lesa hér bréf frá formanni Landssambands veiðifélaga. Það er dags. 9. þ. m.:

„Vegna fsp. yðar í dag til Landssambands veiðifélaga, þar sem spurt var í fyrsta lagi, hve margir útlendingar hefðu fengið veiðileyfi í laxám landsins árin 1967, 1968 og 1969, og í öðru lagi, með hvaða hætti leigan ætti sér aðallega stað, þá er því til að svara, að Landssamband veiðifélaga hefur ekki safnað skýrslum um þessi mál og getur því ekki svarað þessum spurningum svo að gagni sé.“

Að lokum liggur hér einnig fyrir bréf frá Seðlabanka Íslands varðandi þessi mál og gjaldeyrisskil og annað því líkt:

„Vér höfum móttekið bréf hins háa rn., dags. 4. þ. m., þar sem gerð er fsp. um gjaldeyristekjur vegna leigu á laxveiðiám og sölu veiðileyfa í laxám til útlendinga. Vér viljum láta þess getið, að gjaldeyristekjur af slíkri leigu hafa á undanförnum árum verið færðar með gjaldeyrisskilum frá ferðamönnum, enda í mörgum tilfellum erfitt að skilja á milli venjulegs ferðakostnaðar og annarrar eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi. Á s.l. ári sendum vér fsp. til þeirra aðila, sem vér höfum upplýsingar eða grun um að hefðu gjaldeyristekjur í sambandi við sölu laxveiðileyfa og leigu laxveiðiáa. Svör við þessum fsp. voru flest á þá leið, að þeir útlendingar, sem leigt höfðu einstaka daga eða stutt tímabil, hefðu greitt sín veiðileyfi með íslenzkum krónum og þar af leiðandi sjálfir selt erlendan gjaldeyri í bönkunum hér, en þau gjaldeyrisskil, sem beinlínis voru fyrir leigu á laxveiðiám og skilað var erlendum gjaldeyri fyrir árið 1969, námu um 10 þús. pundum og 25 þús. dollurum. Á árunum 1967 og 1968 munu þessar gjaldeyristekjur hafa verið miklu minni, þar sem færri ár voru þá leigðar útlendingum. En eins og áður er sagt, höfum við ekki aðgengilegar tölur þar að lútandi.“ Það er gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og undir það rita Davíð ólafsson og Björn Tryggvason, bankastjórar.

Það má vera, að hv. fyrirspyrjanda finnist þessar upplýsingar og þessi svör ekki fullnægjandi, en ég tel, að þau séu nokkuð tæmandi við þá þrjá liði, sem hér er rætt um.

Það, sem fyrirspyrjandi kom inn á áðan, var, að tryggja þyrfti að gerð væri grein fyrir gjaldeyristekjunum. Þessu er ég algerlega sammála. Það þarf vitanlega að tryggja það, að ekki geti átt sér stað gjaldeyrissvik í sambandi við þessa starfsemi frekar en aðra. Hv. fyrirspyrjandi minntist á reglugerð um gjaldeyrismál, og að þetta gæti farið í bága við hana. Um það skal ég ekkert segja, enda liggja engar sannanir fyrir um það, að gjaldeyrisskilin hafi ekki farið fram með eðlilegum hætti. Og sem betur fer er okkar gjaldeyrismálum nú þannig komið, að það er miklu minni freisting heldur en áður var að safna að sér erlendum gjaldeyri, geyma hann heima í handraða, í stað þess að skila honum í banka. Það, sem kallað hefur verið svartur markaður á erlendum gjaldeyri, er, vona ég, tæplega lengur fyrir hendi. En þrátt fyrir þetta er alveg nauðsynlegt að athuga það og girða fyrir það, eftir því sem mögulegt er, að þarna geti átt sér stað nokkuð það, sem kallað er að sniðganga lög. Ég ætla ekki við þetta tækifæri að fullyrða neitt um það, hvort gera þarf einhverjar ráðstafanir í sambandi við gjaldeyrislögin eða reglugerð um gjaldeyrismál í þessu sambandi eða auka eftirlit eða fyrirskipa nánari skýrslugerð í sambandi við þetta eða hvort það væri hægt að tryggja þessi mál að einhverju leyti með því að koma ákvæði inn í lög um lax- og silungsveiði. Þetta vil ég ekki fullyrða um, en mér finnst alveg sjálfsagt að athuga það. Ef það passaði að setja eitthvað inn í lög um lax- og silungsveiði, þá er tækifæri til þess, þar sem þessi lög eru nú til endurskoðunar hér í hv. Alþ. Þetta finnst mér að þurfi að athuga og þá einnig, hvernig það má fara sem bezt úr hendi, að allar upplýsingar fáist um það, hvað mikið er borgað hér fyrir veiðileyfi í erlendum gjaldeyri.

Nú eru allir sammála um, að það beri að stuðla að aukinni fiskrækt og að fylla árnar og vötnin af nytjafiski. Þetta erum við allir sammála um. Við erum einnig sammála um, að það beri að stuðla að því, að ferðamannastraumurinn aukist til landsins. Og við vitum það, að veiðin, bæði lax og silungur, heillar ferðamanninn. Hún hefur aðdráttarafl. Þannig hefur það verið í Noregi. Þannig hefur það verið í Kanada. Þannig hefur það verið í flestum þeim löndum, sem kölluð eru ferðamannalönd og hafa veiði að bjóða. Ég hygg, að veiðivötn okkar verði til þess að draga að erlenda ferðamenn, og að okkur þyki gott að geta selt útlendingum veiðileyfi og fengið gjaldeyristekjur fyrir og það verði það m.a., sem tryggi veiðiréttareigendum, bændunum, sem hv. fyrirspyrjandi nefndi hér áðan, að fá sem beztar tekjur fyrir veiðiréttinn. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um það, að mjög væri leitt og mjög slæmt, ef íslenzkir sportveiðimenn hefðu ekki lengur tækifæri til þess að renna öngli í vatn og stunda þessa skemmtilegu og hollu íþrótt að veiða lax og silung. Ég minntist á það hér í fyrradag, þegar frv. um lax- og silungsveiði var hér til umr., að ég kviði ekki svo mjög úrræðaleysi þessara manna, vegna þess að þeir hefðu þrátt fyrir samkeppni við útlendinga marga möguleika, sem ég veit að þeir munu nýta sér með því að taka á leigu bæði vötn og ár, sem enn eru kannske ekki svo góðar, ekki mikill fiskur í, og rækta þær upp. Þetta hafa stangaveiðimenn hér á landi gert með góðum árangri, og þetta eiga þeir eftir að gera í enn ríkara mæli en þeir hafa gert fram að þessu og tryggja sér þannig aðstöðu í íslenzkum veiðivötnum.