11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í D-deild Alþingistíðinda. (3802)

919. mál, veiðiréttindi útlendinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það var rétt, aðeins til þess að undirstrika það eða benda hæstv. ráðh. á það, að það sýnir aðeins mikinn ókunnugleika hjá hæstv. ráðh. á þessum málum, þegar hann heldur, að þeir útlendingar, sem tekið hafa árnar á leigu, hafi ekki endurleigt þær. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það, en þykist þekkja það þó nokkuð af eigin raun, hvernig þessu er fyrir komið. En hann skal ekki halda, að útlendingar taki stórar veiðiár hér á leigu eingöngu til þess að veiða í þeim sjálfir. Málin liggja ekki þannig fyrir. Hér er auðvitað um það að ræða, að þeir taka veiðlár á leigu og ákveða að endurleigja þær, eins og ég segi, ýmist Íslendingum eða útlendingum, og það er þessi starfsemi, sem er rekin nú í dag. Ég misskildi ekkert í þessum efnum. Mér er vel kunnugt um það, hvernig þessu er fyrir komið í vissum tilfellum. Það er auðvitað allt annað, þegar Íslendingar taka á leigu á, eins og hér hefur verið nefnt dæmi um, sennilega með það í huga að selja hana síðan á leigu mörgum útlendingum til stuttra veiðileyfa. Þar er um allt annað að ræða, og þar er málið aðallega undir því komið að fylgjast með þessum sérstaka atvinnurekstri þessara Íslendinga og að fram fari eðlileg gjaldeyrisskil.

Ég var hins vegar að vekja athygli hér á öðru. Það stefnir að því, og er þegar komið út á þá braut, að útlendingar taka á leigu veiðiár okkar og hefja síðan beinan eða óbeinan atvinnurekstur í framhaldi af því, og ég efast um, að þetta sé í samræmi við íslenzk lög og íslenzkar reglur, nema veitt hafi verið sérstök leyfi til þess, að slíkum rekstri væri uppi haldið.