11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í D-deild Alþingistíðinda. (3806)

918. mál, sjónvarpsmál

Fyrirspyrjandi (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 350, undir staflið 2, að beina svo hljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh. um sjónvarpsmál: „Hvenær má vænta þess, að sjónvarp nái til austustu hreppa Skagafjarðarsýslu, þannig að gagn sé að?“

Ég vil með örfáum orðum rökstyðja þessa fsp. eða skýra frá, hvers vegna hún er fram komin.

Íslenzka sjónvarpið hefur nú starfað í rúm 3 ár, og mun það vera álit flestra, að vel hafi til tekizt þessi byrjunarár. Engan, sem hefur fest kaup á sjónvarpi, mun fýsa að losa sig við það. Hitt er sönnu nær, að sjónvarpið hafi tekið sjónvarpsáhorfendur allföstum tökum. Verður það að teljast sjónvarpsdagskránni til gildis. En því miður njóta ekki allir landsmenn þess að horfa á sjónvarp, þar sem það sést enn ekki alls staðar á landinu. Meðal þeirra, sem ekki njóta sjónvarps, eru þeir, sem byggja austustu hluta Skagafjarðarsýslu, og þar á ég aðallega við búendur í Fljótum, þar sem sjónvarpið sést alls ekki. Þá vil ég upplýsa hér, að það sést illa í næstu hreppum vestan við Fljótin, eða í Fellshreppi a.m.k. ekki svo að gagn og ánægja sé af. Og ég get einnig upplýst, þó að það komi ekki fsp. við, að hljóðvarpið heyrist mjög illa á þessum stöðum, og vonandi verður úr því bætt fyrr en seinna.

Það hefur komið fram óánægja hjá fólkinu, sem þarna býr, af því að það sést ekki enn til sjónvarpsins, eftir að það hefur starfað í rúm 3 ár. Margir hverjir af bændum þar hafa fest kaup á sjónvarpstækjum, en þau hafa verið sett upp aðeins á einum stað eða tveimur í Fljótunum og gefa ekki svo góða raun, að fleiri hafi sett þau upp. Þess vegna beini ég þessari spurningu til hæstv. menntmrh. og vona, að hann gefi svör þar að lútandi.