11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í D-deild Alþingistíðinda. (3807)

918. mál, sjónvarpsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Endurvarpsstöðin í Hegranesi kemur að notum fyrir hluta af Viðvíkursveit, Hofsóshrepp og sunnanverðan Fellshrepp. Hluti af Viðvíkursveit, Hólahreppur og Fljótin eru enn þá nokkuð út undan. Upphaflega var gert ráð fyrir, að Siglufjörður þyrfti endurvarpsstöð frá Siglufjarðarskarði, og var þá þeirri stöð einnig ætlað að leysa vanda austurhluta Skagafjarðar. Ljóst var, að þessi stöð yrði alldýr, og síðar kom í ljós, að Siglufjörður gat haft not af Vaðlaheiðarstöðinni. Var þá hætt við fyrirhugaða stöð á Siglufjarðarskarði, því að hin lausnin var miklu ódýrari. En þessa dagana er verið að setja upp nýja endurvarpsstöð í Skagafirði, sem á að þjóna Viðvíkursveit og Hólahreppi að verulegu leyti. En að því er Fljótin varðar, þá er ætlunin að leysa vanda þeirra með Vaðlaheiðarstöðinni og tveimur nýjum endurvarpsstöðvum í Fljótunum. Hugsanlegt er, að báðar þessar stöðvar verði reistar á árinu 1971 og mundi þá leysast vandi hreppanna í austanverðum Skagafirði. Þó ber þess að gæta, að ávallt verður um einstaka bæi að ræða, sem eru þannig staðsettir, að erfitt verður fyrir þá að ná sjónvarpssendingum.