11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í D-deild Alþingistíðinda. (3820)

920. mál, stöðlun fiskiskipa

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar. Reyndar viðurkenndi hann í lokin, að nokkuð væri fram hjá fsp. farið að sumu leyti. Hitti hann þá sjálfan sig fyrir, miðað við þær aths., sem hann gerði við ræðu mína við fyrri fsp., þannig að ég þarf ekki að vera að bera kvíðboga fyrir því, að ég hafi farið sjálfur út fyrir efnið í fyrri þættinum í fsp.-forminu. Það, sem við sjáum eftir þetta svar, er það, að við erum harla litlu nær því að finna stöðlun á fiskiskipum, því að ég get upplýst hæstv. ráðh. um það, að þó að skipin séu skráð 105 tonn, þá er hvergi nærri um ákveðna stöðlun að ræða, því að það er ekki um sömu gerð fiskiskipa að ræða, þótt brúttótonnatalan sé eins. Það er öðru nær. Það er um mismunandi vélabúnað að ræða, það er um mismunandi tækjaútbúnað að ræða og innréttingu. Til þess að ná árangri hér í harðri samkeppni við útlendinga þýðir ekkert annað en taka skrefið til fulls og seríusmíða, af þeirri einföldu ástæðu, að það er gert erlendis. Það þýðir ekki að þjóna duttlungum eins og eins kaupanda. Þá drögumst við aftur úr í samkeppninni og skipin verða miklu dýrari.

Aðeins til fróðleiks hef ég í höndum tilboð frá Danmörku um smíði á 105 tonna bát. Þetta er togbátur, svipaður í útliti og gerð og verið er að smíða núna í Stálvík, og kostar innan við 14 millj. kr. með góðum vélarkrafti. Hins vegar kynni svo að vera, að íslenzkir útvegsmenn mundu heimta eitthvað til viðbótar, en við sjáum mismuninn, þegar Stálvík býður sams konar fleytu fyrir 22–24 millj. Og það viðurkenna þeir, sem í þessu standa, að það er vandamál, þegar lánveitandinn hér hefur ekki það bein í nefinu að segja við íslenzkan útvegsmann: Komið ykkur saman og gerið sameiginleg innkaup, en kaupið ekki hver fyrir sig. Starfið betur saman, að 3–5 skipum í einu, og náið árangrí, en ekki eftir þeim reglum, sem Fiskveiðasjóður samþykkti fyrir nokkru, ég veit ekki hve löngu, að hver maður yrði meira og minna að útvega sér erlent lán, ef tæki væru meira en 200 þús. kr. að verðmæti. Slíka ákvörðun tel ég fráleita, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. komi henni til stjórnar Fiskveiðasjóðs. Þegar um vandamál er að ræða í fjármögnun sjóðsins og til íslenzkrar skipasmiði, þá á sjóðsstjórnin auðvitað að taka lánið eða hæstv. ríkisstj. og gera sameiginleg innkaup og stuðla að hagkvæmni í smíðinni. Allt annað er kák frá mínu sjónarmiði.

Ef við ætlum að hafa smiðina hér innanlands eitthvað áfram, þá verðum við að byggja á því, að kaup þeirra manna, sem hér eru í smíðinni, sé ekki 6–8 kr. norskar, en erlendis 11–13 norskar krónur. Þar á móti vegum við upp, að hér eru skip smíðuð með allt að 25% lengri tímaeiningu. Það gengur ekki til lengdar. Íslenzkir iðnaðarmenn hafa sýnt, að þeir eru samkeppnishæfir í verki, en það kostar skipulag og fjármögnun og að forstjórar og stjórnendur þessara fyrirtækja þurfi ekki sífellt að hanga inni á biðstofum bankastjóranna. Þeir eiga að sinna sínu verkefni í sinni skipasmíðastöð. Við, sem viljum kaupa þessi skip og reka þessi skip, krefjumst þess, að þau séu ekki það dýr, að ekki sé hægt að gera út á þeim. Í dag er það ekki hægt. Það getur enginn sent frá sér slíkan rekstrarreikning, né staðið í skilum með þessi skip. Þau verða að fá styrk frá fiskvinnslunni í landinu. Þetta er svo alvarlegt mál, að það er ekki hægt að ganga fram hjá því.