01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í D-deild Alþingistíðinda. (3827)

144. mál, endurskoðun laga um þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 6. febr. s.l. skipaði ég 3 manna n. til þess að endurskoða lög og reglugerð Þjóðleikhússins. Í n. eiga sæti Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, formaður n., dr. Þórður Eyjólfsson fyrrv. hæstaréttardómari og Baldvin Tryggvason framkvæmdastjóri. N. hefur þegar tekið til starfa, og er mér kunnugt um, að hún ákvað á fyrsta fundi sínum að ræða við þjóðleikhúsráð, þjóðleikhússtjóra, Félag ísl. leikara, Félag ísl. tónlistarmanna, Félag ísl. listdansara, Leikfélag Reykjavíkur, Bandalag ísl. leikfélaga og aðra þá, sem eðlilegt þætti að leita samstarfs við um þetta verkefni. Er að því stefnt, að hægt verði að leggja frv. til nýrra laga um þjóðleikhús fyrir Alþ., er það kemur saman í haust.

Hv. fyrirspyrjandi spurðist fyrir um skoðanir mínar á tilteknum atriðum gildandi þjóðleikhúslaga, einkum þeim, sem alkunnugt er að eru umdeild, og þá sérstaklega gildandi lagareglur um skipun þjóðleikhússtjóra og skipun, störf og hlutverk þjóðleikhúsráðs. Ég tel ekki rétt á þessu stigi að ræða skoðanir mínar á þessu máli, — skoðun ríkisstj. get ég að sjálfsögðu ekki rætt, þar sem málið hefur ekki verið rætt þar, — heldur tel eðlilegust vinnubrögð að bíða niðurstöðu þeirrar n., sem nú hefur hafið starf sitt. Ég endurtek, að ég mun leggja á það áherzlu, að hægt verði að leggja frv. um þetta efni fyrir Alþ., er það kemur saman í haust. Það mun að sjálfsögðu að einhverju leyti fara eftir till. þeirrar n., er ég hef nefnt, hvert efni þess frv. mun verða, en áður en það liggur fyrir, get ég engu um það spáð, hvaða afstöðu ríkisstj. mun að endingu taka til efnisatriða málsins.

Þess má og geta, að 15. júní s.l. skipaði ég nefnd til þess að athuga möguleika á því að sameina leiklistarskóla þá, sem nú eru starfandi í Reykjavík, og verði skólinn t.d. rekinn á hliðstæðum grundvelli og Tónlistarskólinn er nú. N. lauk störfum í febr. s.l., og er álit hennar til athugunar í menntmrn.