01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í D-deild Alþingistíðinda. (3832)

153. mál, málefni Landssmiðjunnar

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. 23. apríl í fyrra, fyrir tæpu ári, svaraði hæstv. iðnrh. fsp., sem ég bar fram, um málefni Landssmiðjunnar. Í fsp. þessum hafði ég vakið athygli á því, að orðið hefði mjög alvarlegur samdráttur í starfsemi þeirrar stofnunar og liti jafnvel út fyrir það, að ætlunin væri að leggja hana hreinlega niður. Í svari sínu greindi hæstv. ráðh. frá því, að það væri ekki ætlunin að leggja þá stofnun niður, nefndir hefðu hugleitt framtíð stofnunarinnar um margra ára skeið áður og nú væri komin niðurstaða. Sagði hæstv. ráðh., að ætlunin væri, að Landssmiðjan tæki að sér reglubundið viðhald og eftirlit með skipum ríkisins og í annan stað annaðist hún dísilvélaviðgerðir Rafmagnsveitna ríkisins, viðgerðir fyrir Jarðboranir ríkisins og einnig verkefni fyrir ríkisfyrirtæki, svo sem Landsspítala, ríkisspítala o.s.frv. Þannig voru svör hæstv. ráðh. fyrir tæpu ári. En þegar þing kom saman nú í haust, vék hæstv. fjmrh. að málefnum Landssmiðjunnar í framsöguræðu sinni með fjárlagafrv., og hann komst svo að orði um það vandamál, með leyfi hæstv. forseta:

„Landssmiðjumálið var fyrir nokkru endanlega afgr. á þann veg, að Landssmiðjan skyldi starfa áfram fyrst og fremst að því takmarkaða verkefni að vera viðgerðarþjónustufyrirtæki fyrir skip ríkisins og ýmsar ríkisstofnanir. ... Þótti við fyrstu athugun líklegt, að með þessu móti mætti tryggja framtíðargrundvöll Landssmiðjunnar, en síðar hefur komið í ljós, að það er ógerlegt. Og þótt ríkisstj. hafi ekki enn tekið endanlega afstöðu til þessarar niðurstöðu, sem sýnist ótvíræð, sýnist mér ekki annað vera fyrir hendi en annaðhvort leggja Landssmiðjuna niður, eða þá greiða verulegan hallarekstur hennar úr ríkissjóði á hverju ári.“

Þetta sagði hæstv. fjmrh. í framsöguræðu sinni fyrir fjárlagafrv. í haust. Og þessu sjónarmiði hæstv. fjmrh. var fylgt eftir með forustugrein í Morgunblaðinu 22. jan. s.l., en þar var komizt svo að orði:

„Eitt þeirra atvinnufyrirtækja, sem ríkið rekur, er Landssmiðjan. Rekstur þessa fyrirtækis hefur gengið erfiðlega hin síðari ár og hallarekstur verið verulegur. Í landinu er nú mikið af járnsmiðjum, sem eru vel búnar tækjum og geta annað öllum þeim verkefnum, sem fyrir eru. Þegar þannig er ástatt, að Landssmiðjan tekur í rauninni verkefni frá öðrum smiðjum og tapar á því stórfé í þokkabót, er augljóst að leggja á þessa starfrækslu niður. Hún þjónar engum skynsamlegum tilgangi lengur. Af þessum sökum ætti ríkisvaldið ekki að draga það lengur að hætta þessum atvinnurekstri.“

Þessum stranga boðskap Morgunblaðsins var svo svarað í Alþýðublaðinu tveimur dögum síðar. Alþýðublaðið birti forustugrein 24. jan. og mótmælti þessu sjónarmiði Morgunblaðsins mjög eindregið. Þar var komizt svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þessu sambandi vill Alþýðublaðið m.a. minna á það, að sjálfstæðismenn hafa stutt það dyggilega, að hið opinbera verji milljónatugum til að koma rekstri tveggja einkafyrirtækja, Sana og Slippstöðvarinnar á Akureyri, á réttan kjöl. Til slíkra ráðstafana hefur ekki verið gripið varðandi Landssmiðjuna, og getur enginn um það fullyrt að óathuguðu máli, að hliðstæðar ráðstafanir kæmu Landssmiðjunni ekki að gagni. Ef ríkisvaldið getur varið milljónatugum til aðstoðar einkafyrirtækja, svo að rekstur þeirra verði tryggður, á það vitaskuld ekki síður sambærilegum skyldum að gegna við mikilsverð fyrirtæki í opinberri eigu. Landssmiðjan á vissulega mikilvægu þjónustuhlutverki að gegna og veitir u.þ.b. 80 manns atvinnu. Alþýðublaðið telur, að ekki komi til nokkurra mála að hætta rekstri smiðjunnar og svipta þetta fólk atvinnu sinni, án þess að athuganir liggi fyrir á því, hvort ekki sé hægt að treysta rekstrargrundvöll Landssmiðjunnar með hliðstæðum opinberum fyrirgreiðslum og þegar hafa verið veittar ýmsum einkaaðilum í landinu.“

Þarna kemur sem sé fram mjög alvarlegur og gagnger ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um þetta mál, sem er í sjálfu sér mjög veigamikið, en þarna er um að ræða mjög mikilvægt fyrirtæki í eigu ríkisins. Því þótti mér einsætt að spyrja hæstv. iðnrh. um það, hvernig þessi mál standa nú innan ríkisstj., hvort svör hans frá því í fyrravor hafa enn gildi eða hvort fyrirhugað er að breyta þeirri stefnu, sem þá var mörkuð.