01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í D-deild Alþingistíðinda. (3841)

170. mál, aðstaða nemenda í strjálbýli

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmar Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Það er rétt að vekja athygli á því, að ályktunin, sem samþ. var á Alþ. í fyrra um athugun, var gerð á nokkru breiðari grunni en til var ætlazt af hálfu flm. málsins á sínum tíma. Samkv. ályktuninni var einnig ákveðið, að um leið og athuga skyldi aðstöðumun nemenda þeirra, sem skóla sækja að heiman, og hinna, er geta sótt hann heiman frá sér, þá skyldi athuga um hlut ríkissjóðs í kostnaði við skólahald, og það er mál út af fyrir sig. Ýtarlegum upplýsingum um þau atriði hefur verið safnað, eins og fram kom í svörum hæstv. ráðh. Hins vegar virðist mér, að upplýsingarnar um þann þáttinn, sem upphaflega var lögð megináherzla á, um aðstöðumun þeirra nemenda, sem þurfa að sækja að heiman frá sér, og svo hinna, mér finnast þær upplýsingar vera ófullnægjandi og mér finnst ekki gæta nægilegs skilnings hjá hæstv. ráðh. á því máli, hversu sá aðstöðumunur er mikill í raun og veru, þvert á móti vera nokkur tilhneiging til þess að gera lítið úr heim mismun. Ég harma það, að þannig skuli vera viðhorfið til þess máls.

Ég skal ekkert segja um það á þessu stigi málsins, hvort rétt sé að farið með ráðstöfun fjárins eða skynsamlega, eins og það hefur verið ákvarðað. En mér er hins vegar ljóst, að það hlaut að verða að takmarka greiðslur við þröng svið, því upphæðin er ákaflega lítil.

Mér þykir vænt um að sjá það, að það virðist meiningin að nota þetta fé til ráðstöfunar á þeim námsvetri, sem nú er að líða. Það var alveg sjálfsagt að mínum dómi. Ég held, að menn verði að gera sér grein fyrir því, að það er allt annað að geta haft unglingana heima heldur en að senda þá í heimavist. Það er raunar hægt með einföldu dæmi að skýra þetta. Setjum svo, að það sé fjölskylda með 3 og jafnvel 4 börn á skólaaldri. Öll þurfa að sækja skóla að heiman og fara í heimavist. Þá er varla um að ræða minni heimavistarkostnað nú en 50–60 þús. kr. á nemanda, og þá fer það að nálgast annað hundrað þús. kr., sem greiða þarf. Þetta var hægt á meðan sumaratvinna var næg og svo að segja hver einasti unglingur gat unnið fyrir tiltölulega háu kaupi, en þegar því er ekki lengur að heilsa, þá er þetta ekki hægt. Það er allt annað að þurfa að leggja þetta út í beinhörðum peningum heldur en ef unglingarnir geta verið heima og notið fyrirgreiðslu á heimili foreldra.

Þó ég telji nokkuð óljósar niðurstöðurnar að því leyti er varðar aðstöðumun þeirra, er sækja heimavistarskóla, og hinna, er þurfa að dvelja fjarri heimilum, þá vil ég láta það koma alveg skýrt fram, að ég álit ekki rannsóknar þörf til að staðfesta það, að aðstöðumunur sé fyrir hendi. Til þess álít ég að þörfin sé allt of augljós. En hitt er annað mál, að til þess að hægt sé að gera þessu máli fullnægjandi skil, þá þurfa auðvitað frekari rannsóknir að fara fram, og mér þykir vænt um að heyra það, að ríkisstj. hefur þetta mál til meðferðar og ætlar sér að gera víðtækari ráðstafanir. Hins vegar get ég ekki varizt því, að ég er ekki mjög trúaður á málsmeðferð hjá ríkisstj., eftir að hafa heyrt andann í ræðu hæstv. menntmrh. varðandi þetta mál. Í landi, sem er stórt og erfitt yfirferðar og strjálbýlt eins og hérna, verður auðvitað alltaf töluverð hætta á því, að þegnunum verði mismunað. En miklu varðar, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að minnka þann mismun.

Ég álít, að núna séu tvö mál á dagskrá, sem alveg sérstaklega megi kalla mannréttindamál fólksins í dreifbýlinu: annars vegar dreifing raforkunnar, því það er alveg óviðunandi, að hluti þjóðarinnar, lítill að vísu að hundraðshluta, sé án þeirra gæða, sem rafmagnið veitir, og hins vegar mismunandi aðstaða til að njóta menntunar, sem hér hefur verið til umr.

Ég held, að allir séu á einu máli um það, að þessi aðstöðumunur sé mikill. En það tekur því miður nokkuð langan tíma fyrir þá, sem álengdar standa, að átta sig á því, hvað gera skuli, átta sig á því, hvernig við skuli snúast. Menn hafa verið allt of tómlátir í þessu efni. Og ég held, að það fari ekki á milli mála, að mesti aðstöðumunurinn fjárhagslega séð er sá, sem hér er rætt um. Hitt er svo allt annað mál, sem ekki er tími til að rekja hér, sá námstími, sem hverju einstöku barni og ungmenni stendur til boða í barnaskóla. Það er allt annað mál.