01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í D-deild Alþingistíðinda. (3859)

922. mál, niðursoðnar fiskafurðir

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðh. fyrir svör hans, því að vafalaust hefur hann skýrt frá því, sem gerzt hefur í þessu máli síðan þessi blaðamannafundur var haldinn í Stjórnarráðinu, en mér sýnist, að það, sem hafi gerzt á þeim tíma, sé nánast ekki neitt. Frá þeim tíma, að sá blaðamannafundur var haldinn, sé alltaf verið að bíða eftir framhaldsskýrslu um málið og hún sé ekki komin enn, og fyrr en hún komi verði ekkert gert af hálfu ríkisstj. í þessum efnum. Ég tel þennan drátt mjög óheppilegan. Ég álít, að hér sé um svo stórt mál að ræða, að það hefði strax átt að hefjast handa, því að það geta allir gert sér ljóst, að þótt líklegt sé, að þessi góði markaður sé þarna fyrir hendi, þá þarf meira en lítið að gera, til þess að við getum notfært okkur hann. Við þurfum strax að hefjast handa um sérstakar markaðskannanir í þeim efnum, athuga hvernig sú framleiðsla þarf að vera, sem við eigum að vinna og selja til þessara landa, og svo að athuga að, hvað við þurfum að gera hér innanlands, til þess að við getum komið upp fyrirtækjum, sem séu fær um að hagnýta sér þessa stóru markaði. En mér sýnist á því svari, sem hæstv. ráðh. gaf hér áðan, að ríkisstj. hafi bókstaflega ekkert gert í þessum málum fram að þessu. Það sé bara verið að bíða eftir frekari framhaldsskýrslu.