01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í D-deild Alþingistíðinda. (3863)

924. mál, ríkisábyrgðir

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, hefur það verið föst venja undanfarin þing að útbýta hér á þinginu ársreikningi ríkisábyrgðasjóðs, þegar hann hefur verið tilbúinn frá sjóðnum, auk þess sem reikningurinn er svo birtur hverju sinni með ríkisreikningi. Það hefur ekki enn þá unnizt tími til þess að ganga endanlega frá reikningnum af hálfu ríkisábyrgðasjóðs, en honum hefði verið útbýtt nú alveg á næstunni. Hins vegar var málinu það langt komið, að auðið var að útbýta þeim gögnum til hv. þm., sem hér hefur verið gert, og gefa tæmandi upplýsingar, að ég hygg, um það, sem að er spurt í 1. og 2. tölul. Vænti ég, að þessar upplýsingar, sem ég vona að séu á borðum allra hv. þm., séu það greinilega sundurliðaðar, að ekki gefist ástæða til þess að útskýra þær frekar. Þar eru tilgreindar tegundir lána, sem eru endurlánuð, og annarra ríkisábyrgðarlána. Tilgreindur er hver einstakur skuldari, og tilgreint er, hvað hann skuldaði í árslok 1968, hvað hefur verið útborgað hans vegna 1969 og innborgað 1969, og þar af leiðandi enn fremur, hver er nettóbreytingin á milli ára. Varðandi 5. liðinn á plagginu, þar sem standa „Aðrar hreyfingar“, vil ég til skýringar geta þess, að þar er um að ræða annaðhvort í flestum tilfellum vexti eða gengismun eða annan kostnað, sem ekki hefur verið færður á hina liðina. Og síðan er að lokum tilgreind skuld hvers og eins, eins og hún stóð 31. des. 1969.

Þessu til viðbótar skal ég aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvað gerðist á árinu 1969 í heild varðandi ríkisábyrgðasjóð, en það var í stuttu máli, að greiðslur sjóðsins vegna vanskila á ríkisábyrgðalánum eða endurlánum ríkissjóðs námu nettó 105 millj. kr., en voru árið áður, 1968, 139 millj., þannig að hér var um töluverða lækkun að ræða. Innleystar kröfur á árinu voru 372 millj., en endurgreiðslur frá skuldurum námu 267 millj., þannig að eins og ég áður gat um varð halli á sjóðnum eða útborganir umfram innborganir 105 millj.

Hér hefur orðið jákvæð breyting, og þetta er lægsta tala síðan 1966. Þá voru vanskil á ríkisábyrgðum orðin mjög lítil. Þau námu aðeins 31 millj., nettóútborganir, en urðu 1967 108 millj., 139 millj. 1968, eins og ég gat um áðan, og nú 105 millj., þannig að aftur má segja, að birti í lofti. En vitanlega hafa þessi miklu vanskil síðustu tvö árin stafað að því, hve margvíslegir erfiðleikar hafa verið hjá atvinnuvegunum og hjá sveitarfélögunum.

Á s.l. ári varð veruleg aukning á greiðslu vegna hafnarlána. Á þessu eru vafalaust ýmsar skýringar, en efnahagsörðugleikar undanfarinna ára eiga þar vafalaust verulegan hlut að máli, enda eru það fyrst og fremst sveitarfélögin, sem hafa ekki getað staðið í skilum.

Greiðslur vegna lána Orkusjóðs urðu nær tvöfalt hærri en árið áður. Þess er þó að vænta, að ekki verði um frekari aukningu á þeim greiðslum að ræða, því að sjóðnum hefur bætzt fastur tekjuliður, þar sem er verðjöfnunargjald á raforkusölu, og ætti því greiðslugeta Orkusjóðs að geta batnað verulega í framtíðinni. Geysimiklar greiðslur féllu á sjóðinn á s.l. ári, vegna lána síldarverksmiðja og annarra fiskiðnaðarfyrirtækja, og stórum hærri greiðslur en árið áður. Vega þar stærst lán síldarverksmiðja, en greiðslugeta þeirra mátti heita engin á árinu. Hins vegar er því ekki að leyna, að erfiðlega hefur gengið að innheimta hjá öðrum fiskiðnaðarfyrirtækjum, þótt ætla verði, að hagur þeirra hafi batnað nokkuð frá því, sem verið hefur s.l. tvö ár.

Ekki var um aukningu að ræða á skuldum vegna togaralána, og kemur þar einkum til góður afli og hátt fiskverð á árinu, og ekki siður sú stoð, sem Stofnfjársjóður fiskiskipa veitir við innheimtu.

Mér þykir rétt, að það komi fram hér, vegna þess að ég vék að því sérstaklega í fjárlagaræðu í haust, að einn þyngsti baggi á ríkisábyrgðasjóði s.l. ár hefði verið ábyrgðir, sem á sjóðinn hefðu fallið vegna þotukaupa Flugfélags Íslands, og tel ég þá rétt, að það komi fram hér í sambandi við árið 1969, að á því ári var ekki um að ræða neina aukningu á skuldum Flugfélagsins við sjóðinn. Staðið var að fullu í skilum með það, sem á féll á því ári, og ber vissulega að fagna því, að það hefur tekizt.

Varðandi 3. liðinn, hve mikið var afskrifað af eignum ríkisábyrgðasjóðs á árinu 1969 og af hvaða ástæðum, þá er því til að svara, að á árinu var ekkert afskrifað af eignum ríkisábyrgðasjóðs.