08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í D-deild Alþingistíðinda. (3868)

923. mál, ómæld yfirvinna

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þess hefur verið getið í blöðum, að einhverjir ríkisstarfsmenn hafi fengið greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu, og í því samband hefur verið talið, að þessi upphæð hafi verið 5 þús. kr. á mánuði eða um 60 þús. kr. á ári a.m.k. hjá einhverjum þessara starfsmanna. Hér á hv. Alþ. urðu af þessu tilefni umræður, en án þess að frekari upplýsingar kæmu þá fram um þessar greiðslur. Ég hef því leyft mér að bera fram, af þessu tilefni, eftirfarandi spurningar til hæstv. fjmrh.:

1. Hvað hefur mörgum ríkisstarfsmönnum verið greidd ómæld yfirvinna, og hvenær voru þessar greiðslur upp teknar?

2. Hver hefur ákveðið þessar greiðslur, og eftir hvaða heimild eru þær inntar af hendi?

3. Hvaða ástæður lágu til þess, að umræddum starfsmönnum var greidd launauppbót með þessum hætti, en ekki hækkuð launin sem þessari greiðslu nam?

Og enn fremur vildi ég bæta við einni spurningu: Eftir hvaða launaflokkum taka umræddir starfsmenn laun fyrir störf sín?