08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í D-deild Alþingistíðinda. (3874)

923. mál, ómæld yfirvinna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mergur þessa máls er sá, að launakjör opinberra starfsmanna eru ákveðin með kjarasamningi eða kjaradómi, ef kjarasamningur tekst ekki, sem á að gilda um tvö ár og framlengist um eitt ár, ef ekki er nýr gerður. Það liggur í augum uppi, að hægt er að kollvarpa þessu kerfi, ef það á að vera hægt eftir á á þessu tveggja ára tímabili að koma og ákveða það af fjmrh., að einstökum starfsmönnum í þessu kerfi, forstöðumönnum ríkisstofnana eða öðrum, séu greiddar aukaþóknanir, en öðrum starfsmönnum ekki. Þá er þessu kerfi og þeirri hugsun, sem það byggist á, gersamlega kollvarpað. Það er brotið niður og það er þetta, sem verið er að gera með því að fara að eins og gert hefur verið. Það segir, með leyfi forseta, hér í 5. gr. — Það er rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að í kjarasamningi skal kveðið á um föst laun, vinnutíma og laun fyrir yfirvinnu. — En síðan segir: „Kjarasamningur á hvorki að taka til lífeyrisréttinda, hlunninda, aukatekna, orlofsréttar, kaups í veikindaforföllum né annarra fríðinda, sem líkt er farið.“ Og í 6. gr. segir svo: „Þegar ákveða skal starfskjör, sem kjarasamningur samkv. 5. gr. tekur ekki til og eigi eru lögbundin, skal semja um þau við hlutaðeigandi bandalagsfélög.“

Ég tel þarna í þessu tilfelli ekki vera um neina reglulega yfirvinnu að ræða. Þetta er kölluð ómæld yfirvinna, en þetta er auðvitað ekkert annað en hrein aukaþóknun til þessara manna, fríðindi til þessara manna, fríðindi, sem þeir kannske hafa verðskuldað. Ég skal ekkert segja um það. En þetta er alls ekki svo, að það sé farið neitt í raun og veru eftir vinnutíma, sem þeir hafa unnið í sjálfu sér. Þetta er, eins og sagt er, ómæld yfirvinna, þóknun, sem þeir fá, og þess vegna er þetta engin regluleg yfirvinna. Eðli sumra starfa er auðvitað þannig, að ekki er gert ráð fyrir því, að þar komi sérstök yfirvinnugreiðsla til greina, af því að það er gert ráð fyrir, að starfskraftar mannsins séu allir til reiðu í þessu starfi, sem hann innir af hendi, og þannig er því auðvitað háttað með forstöðumenn ríkisstofnana og æðri embættismenn. Það er alls ekki gert ráð fyrir því, að þeir fái greiðslu fyrir yfirvinnu, enda getur enginn haft eftirlit með því, hverja yfirvinnu þeir vinna. Það er engin sönnun til, það fer bara eftir samvizkusemi mannanna sjálfra, ef þeir skrifa niður í vasabók einhverja vinnutíma, sem þeir segjast hafa unnið fram yfir venjulegan vinnutíma. Það getur verið rétt, það getur líka verið rangt. Það þýðir ekki að koma með slíkt. Það er enginn, sem sannreynir þessar staðhæfingar þeirra. Ég held, að þetta liggi ljóst fyrir, en það er út af fyrir sig ekki verið að telja þetta eftir.

Það getur vel verið, að velflestir hafi unnið fyrir þessu, en það er bent á, að aðferðin við þetta er ekki lögleg. Hún leiðir til þess, að kerfið sjálft verður brotið niður, hún leiðir til misræmis á milli manna, vegna þess að sumir eru kannske þannig gerðir, eins og hv. síðasti ræðumaður, að þeir roðna, ef þeir þurfa að ganga eftir þessu, og láta það kannske eiga sig. Aðrir gera það blygðunarlaust og fá þá þetta tekið til greina. En verst eru þeir settir, sem heima sitja og fá ekki neitt. Það verða því miður allt of margir, sem eru sambærilegir að öllu leyti við þá, sem hafa fengið þessar aukaþóknanir, og því mun ég halda fram, þangað til lagður er fram listi yfir þá, sem fá þessar aukaþóknanir. Þá er hægt að bera það saman við allan fjöldann, sem situr og fær ekki neitt. Þetta er ranglæti. Þetta er ranglát aðferð, og þetta er krókaleið, sem á ekki að þola.

Það eru kjarasamningar og kjaradómur, sem eiga að standa um tiltekið tímabil, tvö ár, og það eru kjaradómendur, hvort sem þeim tekst það eða ekki, sem eiga að meta þetta réttilega og skipa mönnum í launaflokka, og þá á ekki að vera hægt strax á eftir að koma og kollvarpa þeirri niðurstöðu, sem þeir hafa komizt að. Og auðvitað á hver maður að skilja það, að kjaradómur, þó voldugur sé, getur ekki breytt lögunum og getur ekki framselt það vald til annarra, sem hann sjálfur á að hafa og taka ákvörðun um eftir lögunum. Og það stendur skýrum stöfum þarna, að þetta á að vera háð samningum við bandalagsfélög. Það segir í þessum niðurlagsorðum kjaradóms, sem ég legg nú ekkert upp úr, af því að ég tel það hafa ákaflega takmarkað gildi, að þetta skuli gert með vitund bandalagsins. Nú bar þetta á góma í hv. Ed. einhvern tíma, og þá var hv. þm. Kristján Thorlacius formaður bandalagsins. Þá átti hann sæti í d., og hann á hér sæti nú. Hann getur auðvitað upplýst um það, hvort samráð hafi verið haft við bandalagið um þessi mál. Ég man ekki betur en hann tæki til máls við þá umr. og upplýsti málið þá. Það hefur kannske síðar verið farið að hafa samráð við hann. Ég verð að segja það, að ég álít, að það hafi ríkt fullkomin leynd um þetta. Ég verð að segja það, að ég hafði ekki hugmynd um, að þessar aukaþóknanir ættu sér stað, fyrr en ég sá fréttaklausu um það í Frjálsri þjóð.