08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í D-deild Alþingistíðinda. (3876)

923. mál, ómæld yfirvinna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en það virðist sannast sagna, sem er mjög óvenjulegt, að hv. 1. þm. Norðurl. v. sé sleginn einhverri annarlegri blindu, miðað við þá dóma, sem hann fellir hér. En af einhverjum ástæðum hefur það hent hann nú, og er sérstaklega óvenjulegt, þegar um lögfræðileg atriði er að ræða. Hann er t.d. mjög nákvæmur í orðalagi veit ég sem lögfræðingur, en hann ræðir hér t.d. um það, að skylt sé að hafa samráð við BSRB. Það stendur ekkert um það. Það segir með vitund, og það er auðvitað ekki sama og samráð, svo að ég nefni aðeins eitt dæmi úr hans lögfræðilegu túlkun.

Ég vil alveg sérstaklega nota þetta tækifæri til þess að mótmæla því, að hér sé um að ræða fríðindi, sem hafi verið veitt opinberum starfsmönnum. Hér hafa tveir menn, sem þekkja þetta mál mjög, skýrt frá sinni reynslu í því efni, og ég fullyrði það afdráttarlaust, að engum hafi verið borgað umfram það, sem hann á fullan rétt á. Það er gengið út frá því, að opinberir starfsmenn vinni vissan vinnutíma. Það er einnig gengið út frá því, að forstjórar vinni vissan vinnutíma, og það er ekki gert ráð fyrir því í launum forstjóra, að þeir þurfi að vinna langt umfram þann tíma. Kjaradómur hefur beinlínis komizt að þeirri niðurstöðu í 14. gr., sem ég vitnaði í, að þegar talið væri, að yfirmenn hefðu unnið umfram eðlilegan vinnutíma, þá væri það rétt, að þeir fengju yfirvinnuþóknun, en eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, þar sem svo er ástatt um yfirmenn, að þeir yrðu að mæla það sjálfir, þá væri það mjög óeðlilegt og kæmi ekki til mála að leggja það til grundvallar, heldur yrði rn. í því tilfelli að gagnrýna þær niðurstöður og gera áætlanir um sennilegan yfirvinnutíma þeirra og gera síðan samning á þeim grundvelli, og það hefur verið gert.

Varðandi það, að kjaradómur væri færari um að meta yfirvinnu opinberra starfsmanna heldur en rn. og þess vegna sé fráleitt, að kjaradómur framselji rn. það, um það held ég að þurfi nú ekki mörg orð til þess að sýna fram á, hvað er fjarri öllu lagi, að kjaradómur gæti á nokkurn hátt metið slíkt. Auðvitað er það eina úrræðið, sem við þessu er, að rn. meti þetta eftir þeim upplýsingum, sem það fær beztar, og ég vil sérstaklega leggja áherzlu á það, af því að hv. síðasti ræðumaður sagði og hvessti sig nokkuð, að hætt væri við, að þeir, sem blygðunarlausast hefðu gengið fram í þessu, bæru meira úr býtum en aðrir, og aðrir sætu eftir með sárt ennið og hér hefðu verið framin einhver, að mér skildist, óhæfuverk með þessum ákvörðunum rn., þá mótmæli ég því algerlega, vegna þess að það hefur verið kannað af hinum einstöku rn. og lagt til grundvallar — að vísu þeirra mati, — hvaða forstjórar það væru, sem væru sambærilegir og hefðu sannanlegan yfirvinnutíma, og það hafa ýmsir menn komið þar til álita og fengið yfirvinnu greidda án þess að hafa farið fram á hana, þannig að ég tek undir það með hv. þm., að auðvitað nær ekki nokkurri átt og er fjarri mínum huga að ætla að fara að láta það ráðast, hverjir eru sífellt á höttunum eftir því að fá peninga. Og undir það skal ég taka með honum, að er ákaflega mismunandi. Sumir fara mjög hófsamlega í því og jafnvel orða ekki sínar kröfur, en aðrir eru æði oft á ferðinni. Það á ekki að ráða, og ég fullyrði það, — að hve miklu leyti menn vilja taka orð mín trúanleg um það, verður hver og einn að gera upp við sig, — að hér hefur þeirri reglu ekki verið fylgt, heldur reynt af þeirri dómgreind og þeim heiðarleika, sem maður hefur við að styðjast, að meta það og reyna að gera það hlutlaust, hverjir hafi átt að fá þessar greiðslur.