15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í D-deild Alþingistíðinda. (3880)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér fsp. til hæstv. fjmrh., sem er á þessa leið:

„Hvaðan kemur fjmrh. heimild til að greiða sérstaklega einu vikublaði útgáfustyrk?

Hvenær hófust greiðslur ríkissjóðs til þessa vikublaðs?

Hvað hafa greiðslur ríkissjóðs til blaðsins numið miklu til þessa?“

Ég hef spurt um þetta í tilefni af ummælum, sem fram komu hjá hæstv. fjmrh. í sjónvarpi nú fyrir skömmu, en mér er ekki kunnugt um, að heimildir séu til þess að greiða útgáfustyrki að öðru leyti en því, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum, að heimilt sé að verja tiltekinni upphæð til kaupa á dagblöðum. Af þessum ástæðum er fsp. hér komin fram.