15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í D-deild Alþingistíðinda. (3881)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hvaðan kemur fjmrh. heimild til að greiða sérstaklega einu vikublaði útgáfustyrk?“ Til þess að geta svarað þessari spurningu, þarf ég að gera lítillega grein fyrir því, hvernig blaðastyrkurinn er til kominn. Það var með þeim hætti, að fyrri hluta árs 1967 hófust viðræður um það milli forustumanna þingflokkanna, að mjög illa horfði með afkomu sumra dagblaðanna, þannig að við borð lægi, að þau gætu ekki komið út, og mundi það geta leitt til þess, að vissir flokkar hefðu ekkert málgagn við að styðjast. Óeðlilegt þótti, að svo færi, og nauðsynlegt að tryggja það, að eðlileg skoðanamyndun gæti átt sér stað eða stuðlað yrði að eðlilegri skoðanamyndun og skoðanatúlkun af hálfu stjórnmálaflokkanna. Þess vegna varð samkomulag um það á milli forustumanna þingflokkanna, sem síðar var fallizt á af ríkisstj., að gera vissar ráðstafanir til aðstoðar dagblöðunum. Þá var svo ástatt, að allir stjórnmálaflokkar í landinu höfðu dagblöð sem aðalmálgögn, og kom því ekki annað til álita en halda sér við það að gera ráðstafanir til þess að tryggja útkomu þeirra. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja sérstaklega þá aðstoð, í hverju hún var fólgin, en hún var m.a. fólgin í því, að ákveðið var að kaupa til viðbótar því, sem áður hafði verið keypt, 300 eintök af hverju dagblaðanna. Þetta var gert án nokkurrar sérstakrar heimildar, hvorki í fjárlögum né öðrum lögum, og er mér ekki kunnugt um, að neinn hafi fundið að því, að þetta væri gert í heimildarleysi.

Síðan gerist það, að nokkur klofningur fer að verða hér í einum tilteknum flokki, og þeir aðilar, sem þar klufu sig út úr, töldu sig ekki hafa neitt ákveðið málgagn við að styðjast eða ekki neitt dagblað lengur við að styðjast. Lengi vel var synjað um það, að það málgagn, er þeir þá aðallega höfðu og var eitt vikublað, fengi nokkurn styrk, vegna þess að þetta hefði upphaflega verið hugsað sem styrkur til blaða flokkanna og til þess að tryggja, að þeir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en ekkert lægi fyrir um það, að kominn væri til skjalanna nýr þingflokkur. Það er því ekki fyrr en á s.l. ári, þegar það varð ljóst, að nýr þingflokkur hefði verið myndaður, að rétt þótti að fallast á það með hliðsjón af þeim grundvallarröksemdum, sem lágu til stuðnings dagblaðastyrknum í upphafi, að aðalmálgagn þessa flokks, þótt dagblað væri það ekki, fengi hluta af þeirri aðstoð, sem dagblöðunum var veitt, þ.e. nyti þeirra hlunninda, að ríkið keypti 300 eintök af þessu blaði. Það má segja, að heimild að öðru leyti sé ekki að finna fyrir þessu en þá, að í fjárveitingu þeirri, sem nú er í fjárlögum yfirstandandi árs, er einnig innifalin upphæð, sem er áætlað að kosti að kaupa umræddan eintakafjölda eða veita sambærilega aðstoð í eintakakaupum á þessu vikublaði eins og dagblöðunum. Vafalaust kann að orka tvímælis, hvort nægilega skýrar heimildir séu fyrir þessu öllu saman. Það var lengi vel ekki, og ekki fyrr en í ár, leitað sérstakrar fjárlagaheimildar til þessara greiðslna, en ég held, að eins og málið er til komið og með hliðsjón af þeirri hugsun, sem liggur á bak við þessa aðstoð, þá sé tvímælaust, að það, sem hér hefur gerzt varðandi blaðið Nýtt land — Frjáls þjóð, sé í fullu samræmi við þá hugsun, sem lá að baki þessum aðgerðum. Verð ég því að segja, að þar sé um lögjöfnun að ræða, ef menn vilja orða það svo.

Spurt er síðar: „Hvenær hófust greiðslur ríkissjóðs til þessa vikublaðs.“ Ég gat um, að þær hefðu hafizt á s.l. ári. Að vísu hófust þær ekki fyrr en komið var fram á sumar, en það var ákveðið, að greiðslurnar næðu yfir allt s.l. ár, og voru blaðinu greiddar á árinu 1969 samtals 180 þús. kr. Og núna 1. apríl s.l. höfðu blaðinu á þessu ári verið greiddar 45 þús. kr.

Ég held, að með þessu sé fsp. svarað að því marki, sem ég tel mögulegt að svara henni.