15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í D-deild Alþingistíðinda. (3884)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Hvað nafngiftirnar, styrki og greiðslur, áhrærir, þá segi ég þetta:

Greiðslur koma fyrir eðlileg viðskipti, styrkir eru það, sem umfram er. Nú sýnist mér, að með fjárlögunum eins og þau nú eru eigi ekki að heimta neitt meiri þjónustu af blöðunum. heldur eigi að greiða þau meira. Þá er orðið um styrki að ræða, hreina styrki, og þá ber hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því, að settar séu af Alþ. reglur um það. hvernig þessum styrkjum verði úthlutað milli pólitískra flokka. Allt annað er óhæfa og mismunun.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, — ég geri ráð fyrir, að ræðutími minn sé að verða búinn, — að það gegnir furðu, að þessi hv. fyrirspyrjandi skuli orða fsp. sína á þann hátt, sem hann hefur gert, sérstaklega þar sem honum er vel kunnugt um það, að árið 1967 var pukrað með dagblaðastyrkina fyrir kosningar og ekki borið undir þingflokkana, — það er rétt hjá fyrirspyrjanda. Ég var þá í þingflokki Alþb. og það var aldrei minnzt á þetta einu orði, heldur fréttum við það út á land nokkrum mánuðum seinna, að þessar greiðslur væru hafnar. En þar ber vitanlega ábyrgðina, hvað Alþb. viðvíkur, sá maður, sem þá gegndi þar formennsku. En þessum hv. þm. er vel kunnugt um það og var kunnugt um það 1967. a.m.k. eftir kosningar, sennilega fyrr og áreiðanlega allt árið 1968, að það fóru fram greiðslur til dagblaðanna svo milljónum skipti, án þess að nokkur heimild væri til þess á fjárlögum. Þar var um milljónir að ræða, en við okkar litla vikublað er um nokkra tugi þúsunda að ræða á ári, og ég tel, að þrátt fyrir allt þetta tal hans, með tilliti til þess, sem fram hefur komið, vitneskju um heimildarlausar greiðslur til dagblaðanna árið 1967 og 1968, þá hljóti, þegar allt kemur til alls, að vera augljóst, að fsp. er sprottin af allt öðrum ástæðum en siðavendni þessa hv. þm.