15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í D-deild Alþingistíðinda. (3889)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., enda gefst ekkert tilefni til þess. Ekkert það, sem fram hefur komið í máli þessu, breytir minni skoðun varðandi það, sem gert hefur verið, eins og allar aðstæður eru. Hitt er annað mál, sem ég vil sérstaklega láta koma hér fram, að mér hafa aldrei verið þessi framlög að skapi og sízt af öllu, þegar þau eru komin á það stig, sem þau eru nú komin á. Ég get vel tekið undir það, sem hér hefur verið sagt varðandi vikublöðin, að það hlaut að koma óánægja fram hjá útgefendum vikublaða víðs vegar um land, þegar þessi dagblaðakaup eða styrkur, eða hvað sem menn vilja kalla það, var upp tekinn, því að óneitanlega er það styrkur að fá keypt á einu bretti 300 eintök af tilteknu blaði. Þess vegna er það auðvitað eftirsótt, að það verði gert. Það hefur enginn óskað eftir þeim gefins. Það er alveg á valdi þessa hv. þm., hvort hann gefur þessi blöð eða ekki, og ég hygg, að hann hafi gjarnan gefið þau, vegna þess að hann langaði til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, þar sem menn vildu ekki kaupa þær, þannig að það hefur alveg verið á valdi blaðanna, hvað þau gáfu eða ekki gáfu. Og ég álít, að þegar þetta er komið á það stig, eins og nú er, sem gera má ráð fyrir að samsvari 650 eintökum af hverju blaði, þá sé þetta komið út í hreina fásinnu, og hljóti að verða að endurskoða þetta frá rótum. Og ég vil taka það fram, að á meðan ég ræð einhverju um fjármál, þá kaupi ég engin 650 blöð til að útbýta í opinberum skrifstofum. Ég álít, að það sé margt þarfara að gera á skrifstofum en að lesa blöð. Og ef hv. þm., sem eru mjög viðkvæmir fyrir því, að þetta heiti styrkur, vilja ekki þiggja þessa hækkun, án þess að ríkið kaupi af þeim aukinn eintakafjölda, þá verða þeir að vera án þessara greiðslna. Ég álít, að málið sé komið á það stig, — og það var tekið fram bæði af mér og öðrum í þeim umr., sem voru innan flokkanna í haust, — að þetta sé algerlega óviðunandi ástand, að við verjum nú 6 millj. kr. til þess að kaupa dagblöð. Það hlýtur í vaxandi mæli að valda óánægju vikublaðanna, og verða til þess, sem er óhjákvæmilegt, að þetta mál sé tekið allt upp frá rótum. Og mín skoðun er sú, að ef á að halda hér uppi einhverjum framlögum, þá eigi þau að vera til stjórnmálaflokkanna eftir einhverjum ákveðnum reglum, og þeir ráði því svo, hvort þeir nota það framlag til að styrkja sín blöð eða aðra starfsemi sína. Það er miklu víðar þekkt í löndum. Þar eru það algerar undantekningar, að dagblöð séu styrkt, — það er til, en það eru undantekningar, — en það er hins vegar í vaxandi mæli gert fyrir stjórnmálaflokkana. Og þegar talað er um það t.d., að það séu mikil undur, að hér séu keypt tvö blöð eins flokks, þá má út af fyrir sig segja, að það sé óeðlilegt, en þó ekki nema að vissu leyti, vegna þess að þar sem flokkunum eru veittir þessir styrkir, t.d. í Svíþjóð, þá er miðað við fjölda þm., þannig að það er ekkert óeðlilegt, þó að stærri flokkar fái meiri framlög heldur en minni. En ég skal ekkert segja um það; og ég hef ekki myndað mér neinar skoðanir um það, með hvaða hætti þetta á að verða, en ég held, að það, sem gerzt hefur í þessum efnum, og þessar umr. okkar hér í dag sanni okkur það ótvírætt, að þetta mál verður að taka upp með rótum og að ekki er hægt að halda þessu áfram á næsta ári. Það verður að endurskoða málið og færa það inn á nýjan grundvöll.

Ég sé, eins og ég sagði, ekki ástæðu til þess að stæla um það, hvort framin hafi verið einhver sérstök óhæfa, — sem er þá náttúrlega á mína ábyrgð kannske fremur en annarra, — með því að kaupa 300 eintök af þessu vikublaði. Það hefur verið gert á þeim rökum, sem ég greindi frá í mínu máli, og hæstv. menntmrh. hér staðfesti fyrir sitt leyti sína skoðun á, að þetta byggðist á því sjónarmiði, að lítið væri á þessa aðstoð við dagblöðin sem aðstoð við pólitíska skoðanamyndun og sem aðstoð við að koma pólitískum skoðunum flokkanna á framfæri og vitanlega var það upphaflega hugsað þannig. Það hefði aldrei komið til, að forustumenn flokkanna hefðu farið að taka þetta mál upp og ræða um það sín á milli, ef það hefði ekki verið áhugi á því, að flokkarnir gætu komið skoðunum sínum á framfæri í dagblöðunum. Ég efast um, að það hefði komið upp með sama hætti, ef hér hefðu verið fimm óháð vikublöð. Sömu menn hefðu a.m.k. ekki tekið upp þetta mál eins og gerðu það núna, þannig að það er engin tilviljun.

Varðandi það, hvort mig hafi skort heimild til að gera þetta og ríkisstj. að fallast á það, sem hún samþykkti, skal ég játa, að ég gerði um þetta till. og fannst það eðlilegt miðað við hvernig frá öllu þessu var gengið og hvernig þessi framlög höfðu til orðið, þannig að ég skal ekki skjóta mér á bak við neinn með það, ef þetta er einhver óhæfa.

Það er vitanlega mesti misskilningur, sem hér kom fram áðan, að þetta hafi byggzt á því, að dagblað þetta eða vikublað væri hér í Reykjavík, það á ekkert skylt við það. Það vill svo til, að þetta er aðalmálgagn þessa flokks, sem hér er um að ræða, og vildi svo einnig til, að það er hér í Reykjavík. En það er auðvitað ekki vegna þess, að blaðið er hér í Reykjavík, sem þetta er gert.

Varðandi svo að lokum það, sem hv. 4. þm. Austf. sagði, að ástæðan til fsp. hans hefði verið sú, að ég hefði upplýst þetta í sjónvarpsviðtali hér um daginn, þá hljómar það nú næsta kynlega, eftir að hann hafði staðfest það sjálfur, að þetta hefði komið til umræðu á milli formanna þingflokkanna í haust, áður en fjárlagaafgreiðsla fór fram. Þar af leiðandi er fengin vitneskja um það, að þetta var gert, og ég skil ekki í, að hann hafi þurft þess vegna að bíða eftir sjónvarpsviðtali við mig til þess að vita þetta, og mér er ekki kunnugt um, — ég man a.m.k. ekki eftir því; segja þá aðrir, sem betur muna, — að þessi hv. þm. eða aðrir hafi við afgreiðslu fjárlaga mótmælt því, að þetta væri gert. En það er, eins og ég áðan sagði, áætlað í fjárlagaliðnum, að þetta framlag eða styrkur eða hvað menn vilja kalla það, til þessa tiltekna vikublaðs sé þar einnig innifalið.