15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í D-deild Alþingistíðinda. (3891)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. komst þannig að orði í ræðu sinni hér áðan, að samkomulagið um auknar greiðslur til dagblaðanna hefði ævinlega verið hugsað sem jafnréttismál milli flokka, og ef menn vildu ekki á það fallast, þá hefðu ráðherrar verið stórlega blekktir, að því er mér skilst af hálfu okkar Alþb.-manna. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að um þetta mál hefur verið skrifað býsna mikið í blöð, þ. á m. í Morgunblaðið, aðalmálgagn Sjálfstfl., og í því blaði hefur komið fram nákvæmlega sama sjónarmið og ég hef verið að túlka, að þessi viðskipti séu ekki annað en leiðrétting á fyrra misrétti; þarna komi til greiðsla fyrir þjónustu, sem blöðin hafa veitt, en ekki fengið borgaða áður. Þetta sjónarmið hefur komið fram afar skýrt í Morgunblaðinu. Ég hef því miður ekki forustugrein, sem birtist þar fyrir nokkrum vikum, einmitt í tilefni af sjónvarpsviðtali hæstv. fjmrh., en þar vítti Morgunblaðið þennan ráðh. sinn fyrir þau ummæli, að hann væri að veita blöðunum styrki. Staðreyndin er sú, að það hefur lengi verið landlægt hér á Íslandi, að blöð ættu ókeypis að láta í té alls konar þjónustu. Það er ákaflega auðvelt fyrir hæstv. fjmrh. að standa hér í ræðustól og segja, að það hefði verið auðvelt fyrir mig að neita að láta ókeypis blöð til ríkisfyrirtækja, þ. á m. sjúkrahúsa, en málið er ekki svona einfalt. Þessi háttur hafði verið á hafður áratugum saman, og það er ekki einfalt að breyta slíku. Þarna kom það aðeins til, að ríkið tók að sér að greiða fyrir eintök, sem vissulega voru notuð í ýmsum stofnunum ríkisins, þ. á m. í sjúkrahúsum, og ég veit ekki betur en þessi eintakafjöldi sé það takmarkaður, að menn eru stundum í vandræðum hér í sjálfu þinginu að fá eintök til að lesa af blöðum, sem þeir hafa áhuga á að sjá, vegna þess að þingið skammtar það svo naumt, hve mörg blöð það tekur. Ég veit ekki til þess, að sú hækkun á upphæð, sem var ákveðin hér á fjárlögum í vetur, feli í sér þessa aukningu á eintakafjölda, sem hæstv. ráðh. var að tala um. Á þessum tíma, sem liðinn er síðan þessar greiðslur hófust, hafa blöðin hækkað í verði um 40%. Verð þeirra hefur ekki staðið í stað frekar en annað í þessu verðbólguþjóðfélagi og þessu þarf hæstv. ráðh. að reikna með einnig.

Hitt er svo alveg rétt, að enda þótt hér sé um að ræða alveg tvímælalaust leiðréttingu á gömlu misrétti, sem blöðin hafa búið við, þá hefur þessi lausn á margan hátt verið ákaflega vandræðaleg. Ég tel t.d., að þessi aðferð að taka upp þennan sérstaka fjárlagalið, sem hér er til umr., sé mjög vandræðaleg. Ég er algerlega sammála því, að þessi mál verður að taka upp á öðrum og traustari grunni, og það á ekki að leysa málið þannig, að menn geti verið með eilífar getsakir og dylgjur í sambandi við þessi mál. Þessi mál er hægt að leysa á opinskáan hátt fyrir opnum tjöldum, og það tel ég, að þurfi að gera. Hins vegar er ég algerlega andvígur því sjónarmiði, að ekki komi til mála, að ríkisvaldið taki upp nýjan hátt í samskiptum við blöð nema það séu blöð stjórnmálaflokka. Ég held, að það eigi ekki að vera af Alþingis hálfu talin forréttindi stjórnmálaflokka að gefa út dagblöð. Ef hér kæmi út óháð dagblað, sem ekki væri í neinum tengslum við stjórnmálaflokk, tel ég, að það ætti hiklaust að njóta sömu aðstöðu eins og þau blöð, sem styðja einhverja tiltekna stjórnmálaflokka. Ég held, að það væri ákaflega röng stefna, ef það ætti að fara að gera það að einhverri pólitískri einokun tiltekinna flokka að gefa út dagblöð, og ég held, að við eigum að varast að fara inn á þá braut. Hitt er svo annað mál, að það verður að taka til athugunar starfsskilyrði flokkanna einnig. Eins og hæstv. forsrh. vék að, hefur verið starfandi hér í þinginu nefnd til þess að ræða sérstaklega um starfsaðstöðu þingflokkanna, og í vetur gerðist það raunar í þessari nefnd, að nm. komust þar að samkomulagi sín á milli, sem síðan átti að bera undir flokkana. Í því hefur ekkert frekar gerzt, en það var samdóma álit manna í þessari nefnd, að sjálfsagt væri að leggja fram eitthvert fé til þess að auðvelda þingflokkunum að vinna verk sín á þann hátt, sem þeir þurfa að gera. Og auðvitað þarf að halda þessu starfi áfram. Þetta er mikið nauðsynjamál, eins og oft hefur komið fram hér á þingi, og hefur verið mjög ítarlega rakið í merkum ræðum, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson hefur flutt. Vinnuskilyrðum hér verður að breyta gersamlega. En það á ekki að blanda því saman við aðstöðu dagblaða, sem eiga við allt önnur skilyrði að búa á Íslandi en í nokkru öðru nálægu landi vegna fámennis hér. Ef dagblöð hér væru þannig starfrækt, að það ætti að líta á þau einvörðungu sem gróðafyrirtæki, þá kæmi aðeins út eitt dagblað á Íslandi, og þá væri undarlega komið málfrelsi og prentfrelsi í þessu landi. Ef menn vilja hafa raunverulegar umr. í blöðum, þá verður að tryggja það, að öll sjónarmið hafi tök á að koma fram. Og það er eitt af verkefnum Alþ., ef Alþ. vill standa vörð um stjórnarskrána, að tryggja það, að blaðaútgáfa geti verið með þeim hætti, en ekki að binda blaðaútgáfuna við það, að blöðin eigi eingöngu að vera eins konar halakleppur á stjórnmálaflokkunum.