15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í D-deild Alþingistíðinda. (3895)

192. mál, útgáfustyrkur til vikublaðs

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur misskilið mig, ef hann heldur, að ég hafi lagt nokkuð illt í það, að hér hafi átt sér stað umr. á bak við tjöldin. Ætlunin var að segja, að þær hefðu ekki verið hér í þingsölunum og ekki þannig, að almenningur fylgdist með þeim. Þetta hefur verið í þingkjörinni nefnd eða rétt skipaðri nefnd af þinginu, og það eru engin leyndarmál þar á ferð að því er ég hygg, en þetta er mál, sem ekki hefur verið farið að ræða í almennings eyru enn. Og ég vil láta það koma alveg ljóst fram, og þess vegna notaði ég það orð, að oft virðist það vera alveg eins merkilegt og stundum heillaríkara, sem gert er bak við tjöldin, en fyrir framan tjöld. Hitt er svo annað mál, að ég er ekki hv. þm. sammála um það, að þarna sé um gerólík mál að ræða. Ég tel þetta allt vera anga af því sama. Það getur skeð, að hægt sé að leysa það sitt í hvoru lagi, ég skal ekkert segja um það nú, en ég hef litið þannig á, að þetta mál yrði að skoðast í heild. Að öðru leyti var ég hv. 1. þm. Norðurl. v. alveg sammála í því, sem hann sagði um það efni, sem hér hefur verið deilt um. Hann staðfesti það, sem ég hafði sagt um það; og ég var hans aths. að öðru leyti sammála.

Það hefur verið lagt of mikið upp úr því, sem ég sagði, bæði af hv. 6. þm. Reykv. og eins af hv. 1. þm. Norðurl. e., að þetta væri eingöngu jafnréttismál á milli flokka. Ég ætla mér a.m.k. ekki að vera að segja, að þetta sé eingöngu svo. Ég hygg, að sannast og bezt væri að segja eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, að málið er tekið upp meira og minna óformlega og þarna koma þessi tvö sjónarmið til greina, annars vegar styrkur við dagblöð, sem menn vissu, að þá voru öll pólitísk, menn vissu það ósköp vel, og jafnframt og í vitund þess, að blöðin voru pólitísk, var þarna um að ræða mái um jafnrétti eða fyrirgreiðslu á milli flokka. Það getur svo hafa mistekizt að koma þar fullu jafnræði á, það er allt annað mál, en þetta var það, sem fyrir mönnum vakti. Það eru þessi tvö sjónarmið, sem þarna er um að ræða og sem rétt er, að menn hafi í huga, og þau þurfa engan veginn að rekast á. Þess vegna getur einn litið þannig á, — og ég hygg að ég hafi á sínum tíma einhvern tíma á þingi fyrir 2–3 árum svarað fsp. á þá leið, — að það væri ekki um að ræða beinan styrk til blaða, heldur greiðslu fyrir þjónustu. Ef ég man rétt, þá er hægt að finna yfirlýsingu um það eftir mig hér, og það var efnislega og formlega rétt. En eftir að við erum komnir í þær viðbótargreiðslur, sem nú er um að ræða, og eins og þessi mál hafa þróazt og eins og málið er til orðið, þá er alveg meiningarlaust að halda því fram, að þetta sé ópólitískt mál og það sé alveg óskylt þessu að halda uppi jafnræði á milli pólitískra afla í landinu. Það hefur alltaf frá upphafi verið annar meginþáttur málsins. Að öðru leyti held ég, að það tjái ekki að vera að deila um þetta í einstökum atriðum. Málið liggur nokkuð ljóst fyrir eftir þessar umræður.