08.04.1970
Sameinað þing: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í D-deild Alþingistíðinda. (3908)

201. mál, nefndir

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er út af þingsköpum. Mér virðist vera ákaflega hæpið, að þessi fsp. fái staðizt samkv. 31. gr. þingskapanna. Með leyfi hæstv. forseta er upphaf þeirra þannig:

„Nú vill alþm. beiðast skýrslu ráðherra, óskar upplýsinga eða svars um einstök atriði eða mál, og gerir hann það með fsp. í sameinuðu Alþ., er afhent sé forseta. Fsp. skulu vera skýrar, um afmörkuð atriði og mál, og sé við það miðað, að hægt sé að svara þeim í stuttu máli.“ Síðar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Eigi síðar en viku eftir að fyrirspurnalista er útbýtt, skal forseti síðan taka á dagskrá þingsins í upphafi fundar sérstakan lið, er nefnist fyrirspurnir. Ráðherra sá eða ráðherrar, er hlut eiga að máli, svara þá fsp. þeirri eða fyrirspurnum, sem leyfðar hafa verið,“ o.s.frv.

Nú sjáum við, ef við lesum þessa fsp., að það er ákaflega margþætt efni, sem þar er um fjallað, og engan veginn samfellt né heldur unnt að svara því í stuttu máli og heldur ekki að undirbúa svörin svo skjótlega, að nokkur von sé, að fullnægjandi svör geti orðið til eftir viku. Enn fremur er hér um að ræða atriði, sem frekar hljóta að beinast að þinginu heldur en að ráðherrum. Upphaf fsp. er svona: „Hvaða nefndir eða ráð eru skipuð af ráðherrum og kosin af Alþingi?“

Í sjálfu sér er það út í hött, að þm. sé að spyrja ráðh. að því, hvaða nefndir og ráð séu kosin af Alþ. Það er auðvelt að fá upplýsingar um það, að svo miklu leyti sem upplýsingar eru til um það, annaðhvort hjá forsetum þingsins eða öllu heldur á skrifstofu Alþingis, og mundi þess vegna að mínu áliti vera í eðli sínu fráleitt, að það sé verið að beina fsp. til ráðh. um störf Alþ., og hvað sé lagt fyrir Alþ. að gera með lögum eða Alþ. hafi tekið í sínar hendur.

Það er auðvitað mjög víðtækt efni, að safna upplýsingum um það, sem segir í 2. tölul., hvert sé verkefni þessara nefnda. Tína verður saman úr löggjöf, úr fundarsamþykktum, úr margvíslegum stjórnarbréfum, upplýsingar um þessi störf, og það er ekki hægt að gefa slíkt í stuttu máli, heldur mundi það nálgast bækling eða bók, ef til hlítar ætti að vera og eitthvað að græða á svörunum. Svipað er varðandi kostnað við nefndastörf. Ríkisstj. eða ráðh. hafa það ekki í hendi sér að svara því undirbúningslaust eða undirbúningslítið. Það eru stofnanir víðs vegar um land, sem stjórnað er af nefndum, sem sumar eru kosnar af Alþ., en aðrar skipaðar af ríkisstj., og þarf þá að leita til allra þessara aðila um upplýsingar til þess að geta safnað þessum gögnum.

Nú fer því fjarri, að ég amist við því, að þessara gagna sé aflað, og ef talið verður heimilt að bera þessa fsp. upp, þá mun ég ekki greiða atkv. á móti henni, af því að ég tel, að engin launung eigi að liggja á þessu máli. Ég tel einungis, að málið sé tekið upp í röngu formi. Í stað þess eigi annaðhvort að skora á ríkisstj. að leggja þessi gögn fyrir Alþ. að athuguðu máli eða á þingið, að það sjálft skipi nefnd til þess að kanna þetta mjög viðamikla mál, sem hér liggur fyrir. Það er sá rétti háttur, sem á þessu á að hafa. Hitt er vonlaust, að ætla, að hægt sé á 5–6 dögum eða 4–5 vinnudögum af hálfu ríkisstj. að afla allra þeirra gagna, sem hér er þörf á. Ja, menn segja: Það sýnir, að þörf er á að upplýsa málið. Ef menn meta það svo, þá á að gera það með þeim hætti, sem að gagni getur komið, en ekki með slíkri fsp. sem hér um ræðir. Ef það verður hins vegar metið, að þetta sé í þinghæfu formi, þá er alveg ljóst, að það má ekki búast við, að hægt sé að svara á næsta miðvikudegi þessu mjög umfangsmikla máli, sem hér er tekið upp í þinginu. Mig minnir, að hér áður fyrr, meðan allir stjórnarhættir voru miklu einfaldari, fyrir 30–40 árum, þá hafi verið gefin út um þetta heil bók einu sinni, ekki svo viðalítil. Það kann þó að vera, að mig misminni um það, en víst er, að ef þessi gögn eiga öll að liggja fyrir, þannig að á því sé eitthvað að byggja, — því að hér er um að ræða lýsingu á okkar stjórnkerfi að verulegu leyti, — þá verður það ekki gert í stuttu máli.

Ég endurtek, að ég er ekki að amast við því, að menn afli þessara gagna, ég segi einungis: Þetta er form, sem ég tel, að sé mjög hæpið samkv. þingsköpum og þess vegna þurfi að athuga það nánar. Nú er mér það ljóst og varð ljóst, þegar lesnar voru upp fjarvistir, að fyrirspyrjandi er ekki viðstaddur. Mér fyndist þess vegna langeðlilegast, að hann athugaði það milli funda, hvort hægt væri að koma þessu í það form, að ekki yrði neinn ágreiningur um það, og tel þess vegna eðlilegast, ef forseti vill, að þessum lið yrði frestað. En ég varð að gera grein fyrir því nú, af hverju ég fer fram á, að það sé gert og það sé athugað, eins og ég segi, hvort hér sé um viðhlítandi form að ræða. Það er ekki af því, að ég sé að skorast undan, að ríkisstj. svari því, sem henni er skylt að svara.

En það verður að bera málin fram í þinglegu formi, og ég tel það hæpið, að það sé gert hér.

Ég vek einnig athygli á því, sem að vísu er ekkert sérstakt með þessa fsp., því að það er hið sama um eina fsp. aðra hér í þessu plaggi, að fsp. er beint til ríkisstj. Í þingsköpum segir, að fsp. eigi að beina til ráðh. Nú eru auðvitað ráðh. í ríkisstj., en ætlunin er sú, að þm. eigi sjálfir að beina máli sínu til ákveðins ráðh., eins eða fleiri. En þegar spurt er til ríkisstj., þá er það vitni þess, að menn gera sér ljóst, að málið heyrir ekki undir einungis einn ráðh. heldur einhverja fleiri, sem þeir hafa þá ekki lagt sig eftir eða kynnt sér, hverjir séu. Enda er það ljóst í þessu tilfelli, að það er erfitt að segja, undir hvern málið heyrir. En það er vegna þess, hversu málið er ákaflega víðtækt.

Ég mundi, eins og ég segi, telja eðlilegt, að fyrirspyrjandi athugaði þetta mál sjálfur nánar. Síðan mundi ég óska eftir því, að forseti kvæði á um það, hvort þetta er löglegt form. En ég segi: ef það verður metið löglegt form, og það er ekki mitt að kveða á um það, þá hef ég ekki á móti því, að fsp.samþ. hér, af því að ég vil ekki, að það sé lögð launung á þetta mál eða það komi þannig út, heldur einungis er það formið, sem fyrir mér vakir, og að málið sé nálgazt þannig, að það sé von á raunhæfum upplýsingum, en ekki einungis einhverjum skollaleik.