15.04.1970
Sameinað þing: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í D-deild Alþingistíðinda. (3914)

201. mál, nefndir

Fyrirspyrjandi (Tómas Árnason):

Herra forseti. Örfá orð um þingsköp. Því miður var ég fjarverandi, þegar nokkrar umr. fóru fram um það hér í hv. Sþ. fyrir viku síðan, hvort leyfa ætti fsp. mína á þskj. 492. Og það komu fram nokkrar aths. í þessu sambandi. Í fyrsta lagi um það, að fsp. væri ekki í samræmi við þingsköp, væri um of víðtækt efni. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að rekja efni fsp.

Hún er í fyrsta lagi: „Hvaða nefndir eða ráð eru skipuð af ráðherrum og kosin af Alþingi? Hverjar af þessum nefndum eru fastanefndir? Hve fjölmennar eru nefndirnar? Hvert er verkefni þeirra? Hver er þóknun nefndarmanna og annar kostnaður við nefndastörfin?“

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi fsp. fjalli um alveg afmarkað og ákveðið efni, sem eru nefndir og kostnaður við þær. Ég vil vísa til venju, sem fylgt hefur verið á Alþ. um fsp., að ákvæði þingskapa í þeim efnum hafa yfirleitt verið túlkuð frjálslega.

Í öðru lagi kom fram aths. um það, að ekki mundi vinnast tími til þess á einni viku að afla upplýsinga þeirra, sem um er spurt. Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi, að árið 1965 var gefin út Ríkishandbók Íslands, að vísu ekki af ríkinu, heldur af einstaklingum. Í þeirri bók er skrá yfir nefndir, og það ætti að vera tiltölulega auðvelt að gera breytingar á þeirri skrá á tímabilinu frá 1965 til 1970 og mætti nota hana að stofni til. Og ég trúi því ekki að óreyndu, að upplýsingar um nefndir fáist ekki greiðlega í rn. og ríkisbókhaldinu á þessum tíma.

Í þriðja lagi kom fram aths. um það, að fsp. væri beint til ríkisstj. Hér mun ekki vera um fordæmi að ræða. Það vill svo til, að nefndir heyra undir alla ráðh. meira og minna, og þess vegna álít ég eðlilegt að beina þessari fsp. til ríkisstj. Hvort einstakir ráðherrar svara fsp. hver fyrir sig eða hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstj., það er náttúrlega þeirra mál. Að lokum kom fram aths. um það, að finna mætti fsp. það til foráttu, að spurt er um það, hvaða nefndir séu kosnar af Alþ. Þess er að gæta, að í fsp. er einnig spurt um kostnað við nefndastörf og þóknun nefndarmanna. Yfirleitt er svo kveðið á í lögum, að ráðherra ákveði þóknun nefndarmanna og samþykki kostnað við nefndastörf, a.m.k. í framkvæmdinni. Þegar af þeirri ástæðu álit ég eðlilegt að beina fsp. til hæstv. ríkisstj.