22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í D-deild Alþingistíðinda. (3921)

201. mál, nefndir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki verið hæstv. forsrh. sammála um, að fsp. sé á nokkurn hátt óeðlileg, og þar af leiðandi tel ég, að henni hafi ekki verið svarað nema að nokkru leyti. Fsp. fjallar um það að fá upplýsingar um allar nefndir, bæði þær, sem settar eru samkv. lögum og þál. og eins þær, sem settar eru af ríkisstj. Þetta finnst mér afar eðlilegt, að um þetta allt sé spurt og ríkisstj. sé einmitt ætlað að gefa skýrslu um þetta. Ríkisstj. hefur framkvæmdavaldið og það er alveg í hennar verkahring að gefa Alþ. yfirlit um þessi efni. Það er í hennar verkahring að framkvæma lög og þál. og gefa skýrslu um það hér á hv. Alþ., hvernig það hefur verið gert. Þar á meðal að gefa yfirlitsskýrslur, þegar tilefni gefst til um efni eins og þessi, sem hér er spurt um, sem sé, hvað starfandi sé af nefndum samkv. lögum og þál. Ég er heldur ekki einn um þessa skoðun eða fyrirspyrjandinn, því að þetta er sú skoðun, sem einnig kemur fram í aths. við ríkisreikninginn, sem við höfum fengið og er hér á borðinu hjá okkur, ríkisreikninginn 1968, því að þar er spurt af hálfu yfirskoðunarmanna, með leyfi hæstv. forseta, 3. liður: „Hvað störfuðu margar nefndir, þar með talið vegna undirbúnings lagafrv., og hverjar á vegum ríkisins og rn. á árinu 1968? Hvað störfuðu margir menn í hverri nefnd, og hver voru launakjör þeirra hvers um sig, og hversu margar af nefndunum hafa lokið störfum?“ Þessu svarar svo fjmrn. með æðilangri klausu, þar sem mjög er kvartað yfir, hvað það sé erfitt verkefni að komast eftir því, hversu margar nefndir vinni á vegum ríkisins, en þó er ekki með öllu færzt undan að reyna þetta, ef nægilegt tóm reynist til. Því hafi ekki verið hægt að ljúka áður en svara varð endurskoðendunum, og eru fleiri ummæli hér um höfð, sem sýna það, hvað fjmrh. lítur á það sem erfitt verkefni að komast eftir því, hvað margar nefndir séu starfandi á vegum ríkisins, og segir það út af fyrir sig sína sögu. En síðan segja yfirskoðunarmenn landsreikninganna og það sýnir, að ég ætla, að þeir eru nákvæmlega sömu skoðunar og fyrirspyrjandinn um þetta, og ég hef einnig hér látið í ljós, en ekki á sömu skoðun og hæstv. forsrh. um það, hvað eðlilegt sé, að ríkisstj. geri í þessu: „Að svarið skuli fylgja ríkisreikningi 1969,“ svarið við þeim spurningum, sem ég las áðan og þeir höfðu sett fram, og sé að öllu leyti miðað við það ár og í svarinu sé eingöngu miðað við eftirtalin launuð störf: Í fyrsta lagi, stjórnir og ráð, sem Alþ. kýs, þar á meðal bankaráð. Í öðru lagi, nefndir kjörnar og skipaðar samkv. lögum og ályktunum Alþingis. Í þriðja lagi, nefndir skipaðar af stjórnvöldum og enn fremur verkefni, sem einstökum aðilum er fengið, svo sem athugun einstakra mála og undirbúningur lagafrv., sem sérstakar greiðslur koma fyrir, þótt ekki sé um formlega nefndaskipun að ræða. Á þetta einnig við hliðstæð störf, sem eru unnin á vegum einstakra stofnana. Hér kemur það alveg greinilega fram, að endurskoðendur landsreikninganna, sem eru fulltrúar Alþ. og kjörnir hlutfallskosningu á hv. Alþ. af a.m.k. þremur stjórnmálaflokkum, urðu sammála um þann skilning, sem kemur fram í þessari fsp., að það sé algerlega eðlilegt að leggja þetta verkefni fyrir hæstv. ríkisstj.

Þess vegna verð ég að telja, að hæstv. forsrh. hafi ekki svarað spurningunni nema að nokkru leyti og þá að því leyti, sem lýtur að þeim nefndum, sem ríkisstj. eða rn. hafa skipað, en um það las hann æðilangan lista, og er það út af fyrir sig góðra gjalda vert og þýðingarmikið að fá þær upplýsingar fram, og verða þær að sjálfsögðu skoðaðar af hv. þm. í tómi.

Ég vil ekki á nokkurn hátt vefengja þennan lista, en ég get þó ekki komizt hjá að benda á, að mér var ekki alveg ljóst, hvernig hann er uppbyggður, sérstaklega vegna þess, að ég varð t.d. sáralítið var við, að taldar væru nefndir til þess að undirbúa lagafrv. og annað slíkt, en ég hefði haldið, að æðimargar nefndir væru látlaust starfandi að slíkum málum. En máske hafa orðið mistök af minni hendi og ég ekki heyrt nægilega greinilega allt, sem hæstv. ráðh. las. En ég vil leyfa mér að spyrja hann að því, hvort þær nefndir séu ekki taldar með, hvort þetta eigi ekki að vera tæmandi upplýsingar um allar nefndir, sem settar eru á laggirnar af rn.

Ég vil svo aðeins segja, því það er ekki ætlazt til, að það séu mikil ræðuhöld af hálfu fyrirspyrjenda í þessum tíma, og ég tel, að það sé ekki vel viðeigandi að reynt sé að sniðganga neitt þingsköpin í því efni, að það er talsverður ávinningur að því að fá það fram, eftir mikið erfiði, að það eru a.m.k. 708 nefndir starfandi á vegum ríkisins. Það hygg ég, að einhverjum muni finnast fréttir, satt að segja, og er þó sá listi að mér skilst ekki tæmandi.

Þegar þess er gætt, að það var eitt af helztu stefnumálum núverandi stjórnarmeirihluta, er hann tók við, og hefur verið alla tíð á loft haldið, að fækka nefndum, þá er kannske ekki svo einkennilegt, þó að hæstv. forsrh. hafi verið tregur til þess að svara þessari fsp. En sannast að segja virðist mér hæstv. forsrh. hafa sýnt í því efni alveg óeðlilega tregðu, því að ég hef það eftir góðum heimildum, að hann hafi upphaflega viljað, að þessi fsp. kæmi ekki til greina, væri ekki þingleg og ætti ekki að takast hér fyrir. En samt hefur nú fyrir harðfylgi þess meiri hl. á Alþ., sem samþykkti það, að þessari fsp. skuli svarað, tekizt að toga það út úr hæstv. ríkisstj., að nefndirnar eru a.m.k. 708. Á hinn bóginn skyldi maður hafa haldið, að hæstv. ríkisstj. væri það kærkomið verkefni að gera grein fyrir þessum nefndamálum, þegar þess er gætt, hvaða stefnu hún taldi sig hafa í þeim, og manni hefur skilizt af og til, að einhver árangur væri í þann veginn að verða af þeirra baráttu í því að fækka nefndunum. En þegar alls er gætt, þá verð ég að segja, að mér finnst niðurstaðan ekki glæsileg né hrósverð, því að það liggur nánast fyrir sú yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj., að það sé orðið óvinnandi verk að telja saman allar þær nefndir, sem vinna nú orðið á vegum ríkisins. M.ö.o., þær séu óteljandi.