22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í D-deild Alþingistíðinda. (3923)

201. mál, nefndir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki misnota þetta. Það var aðeins til þess að benda á, að það kom greinilega fram hjá hæstv. forsrh., að ég hafði ekkert misskilið í þessu í meginatriðum, því að hann gerði sérstaka aths. við fsp. og það kom greinilega fram í þeim umr., að hann taldi hana ekki eðlilega og hún ætti ekki að verða tekin fyrir, svo að hér hefur ekkert farið á milli mála. Það er nokkuð óvenjulegt, að ráðh. rísi upp til þess að halda slíku fram, og það dettur víst engum í hug, að hæstv. forsrh. hefði farið að hreyfa því, ef honum hefði verið þessi fsp. sérlega kærkomin eða bara staðið á sama um hana efnislega. En ástæðan til þess, að hæstv. forsrh. hleypur upp á sínum tíma með þetta, er auðvitað sú, að honum hefur verið í nöp við fsp., en þó hefði honum í raun og veru átt að vera vel við, að þessi mál kæmu hér til umr., til þess að honum og ríkisstj. gæfist tækifæri til að gera grein fyrir því, hvað þeim hefur tekizt að fækka nefndunum mikið, hvað orðið hefur ágengt í því að kveða niður nefndafarganið, sem var eitt aðalstefnumálið, og hefur verið í 11 ár. Ég vil nú skora á hæstv. forsrh., ekki endilega í sambandi við þennan fsp.-tíma, því að mér skilst, að hann muni þurfa lengri tíma til þess að átta sig á þessu en svo, að gera grein fyrir þessu. Annars skyldi maður nú halda, að formaður stjórnarinnar fylgdist nákvæmlega með því, hvernig stjórninni tækist að framkvæma stefnumál af þessu tagi, og hefði aflað sér t.d. spjaldskrár um nefndir og tekið svo út úr spjaldskránni jafnóðum og tókst að fækka þeim. Það hefðu verið miklu eðlilegri vinnubrögð en að koma alveg eins og út úr hól og segjast ekki hafa yfirlit yfir þessi efni. Með tilliti til þess, að hér var um eitt aðalstefnumál stjórnarinnar að ræða, þá hefði hann átt að láta gera sér spjaldskrá yfir nefndir þessar, sem hann sat við, og tína svo jafnóðum út úr spjaldskránni. Þá gat hann glaðzt yfir því, hvað miðaði áfram í þessu efni og hvað spjaldskráin minnkaði, þ.e.a.s. ef gengið hefði í rétt horf. Maður getur þó skilið, að hæstv. forsrh. sé gramur yfir því, að þessi málefni eru yfirleitt rifjuð upp eða tekin fyrir, en ég hefði talið skynsamlegra af honum að láta ekkert á því bera, að honum þætti nokkuð miður í þessu tilliti.

Svo vil ég segja að lokum: Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki réttmætt að ætlast til þess, að ríkisstj. gæfi skýrslu um þær nefndir, sem settar væru samkv. þál. og lögum. Ég er enn á annarri skoðun og yfirskoðunarmenn eru á annarri skoðun og það kemur ekki því máli við, þessu grundvallaratriði, hvort það þarf skemmri eða lengri tíma til þess að gefa slíka skýrslu. Það er annað mál. En ég undirstrika, að hæstv. forsrh. ætti ekki að drepa þessu á dreif og blanda þarna saman óskyldum atriðum. Annars vegar er skyldan til þess að gefa slík svör. Hún er að mínu viti ótvíræð og einnig er skoðun endurskoðenda landsreikninganna alveg ótvíræð, og það stangast við skoðun forsrh. Hitt er svo annað mál, hversu langan tíma skuli taka til þess að undirbúa slíka skýrslu.

Á 43. fundi í Sþ., 8. apríl, var fsp. tekin til meðferðar, hvort leyfð skyldi.

Fsp. leyfð með 34 shlj. atkv.