22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í D-deild Alþingistíðinda. (3930)

927. mál, jarðgöng á Oddsskarðsvegi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. er það að segja, að sumarið 1964 voru gerðar verkfræðilegar og jarðfræðilegar frumathuganir á möguleikum á gerð jarðganga á veginum um Oddsskarð. Kort af svæðinu var fullgert á árinu 1965, og lá þá einnig fyrir umsögn jarðfræðinga, sem byggð var á athugunum þeirra árið áður. Samkv. athugun jarðfræðinganna virðast skilyrðin til jarðgangagerðar í Oddsskarði sízt lakari en um Stráka á Siglufjarðarvegi og um Breiðadalsheiði á Vestfjarðavegi. Þó að þessar athuganir gætu talizt nægilegar til gerðar fyrstu frumáætlunar um verkið, þá töldu þeir, að til þess að unnt yrði að staðsetja jarðgöngin endanlega og gera fullnaðaráætlun um verkið, þyrfti allmiklar viðbótarrannsóknir, m.a. að bora tvær holur 50–60 m djúpar sitt hvoru megin skarðsins og sprengja við fyrirhugaðan gangamunna að norðan. Þar sem hér var um allkostnaðarsamar undirbúningsrannsóknir að ræða, var ekki talið unnt að halda þeim áfram, fyrr en sérstök fjárveiting fengist til þeirra í vegáætlun.

Í vegáætlun fyrir 1969–1972 er tekin upp 7 millj. kr. fjárveiting til Norðfjarðarvegar um Oddsskarð. Af þessari heildarfjárveitingu voru 650 þús. kr. veittar á árinu 1969 með það fyrir augum, að unnt yrði að halda áfram frekari jarðfræðirannsóknum. Var s.l. vor samið við jarðborunardeild Orkustofnunar um að bora þrjár holur í Oddsskarði til jarðfræðilegrar könnunar síðari hluta sumars 1969. Var um sumarið ruddur vegur að væntanlegum holustæðum, en þegar til átti að taka fékkst enginn jarðbor fyrr en í október sökum mikils annríkis hjá jarðborunardeild Orkustofnunar, m.a. vegna tilraunaborana fyrir Landsvirkjun við Þórisvatn og víðar. Ekki þótti tiltækilegt að hefja jarðboranir uppi á Oddsskarði í október, og var frekari framkvæmdum frestað til ársins 1970. Liggur nú fyrir loforð frá jarðborunardeild Orkustofnunar um að hefja þessar tilraunaboranir snemma sumars í ár.

Hvað er áætlað að göngin kosti? Miðað við þær frumathuganir, sem fyrir liggja, er gert ráð fyrir, að jarðgöngin verði um 570 m löng, en auk þess komi til framlengdir gangamunnar um 10 m, þannig að heildarlengd þeirra yrði um 590 m. Reiknað er með einni akbraut í göngunum með útskotum og að akbrautin verði steypt. Þar eð berglög hafa ekki verið könnuð að fullu með borun og forskerðingu, er óvíst, hversu langan kafla af göngunum þarf að fóðra. Í frumáætlun um kostnað er gert ráð fyrir, að við beztu skilyrði yrði lágmarkið að fóðra með steypu 60 m af göngunum næst gangamunnum, en um 530 m yrðu styrktir með boltum og neti til öryggis. Er áætlaður kostnaður við göngin, á verðlagi 1969, 42.5 millj. kr. miðað við þessar forsendur. Kostnaður við að fóðra einn lengdarmetra af göngunum er áætlaður um 108 þús. kr., og gæti heildarkostnaður farið upp í 100 millj. kr., ef fóðra þyrfti öll göngin.

Hvenær má búast við, að göngin verði gerð? Það er einnig spurt að því. Ef áætlun um borun snemma sumars stenzt og hægt verður að hraða nauðsynlegum jarðfræðilegum athugunum í framhaldi af því og þær verða jákvæðar, þá ætti að verða hægt að framkvæma forskerðingu við norðurenda ganganna síðari hluta sumars. Á þá að geta legið fyrir endanleg staðsetning ganganna og kostnaðaráætlun seint á þessu ári eða u.þ.b. sem endurskoðun á vegáætlun fyrir árin 1971 og 1972 fer fram. Yrði þá, eða í næstu vegáætlun, unnt að leita eftir viðbótarfjárveitingu til þessarar framkvæmdar, þar sem ljóst er, að þær 7 millj., sem veittar eru til framkvæmdar vegar um Oddsskarð, munu hrökkva skammt til gerðar jarðganganna og nauðsynlegrar vegagerðar í beinu sambandi við þau. Vænti ég, að hv. fyrirspyrjanda finnist þetta svar fullnægjandi.