22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í D-deild Alþingistíðinda. (3941)

929. mál, snjómokstur á þjóðvegum

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. samgrh., sem er á þessa leið: „Hvað nam kostnaður ríkisins við snjómokstur á þjóðvegum árin 1967, 1968 og 1969, hvert ár um sig?

Hvernig skiptist kostnaðurinn á nokkra helztu þjóðvegi landsins, þar sem mest var um snjómokstur?

Hvaða reglur gilda um snjómokstur á þjóðvegum hjá Vegagerð ríkisins?“

Mér þætti fróðlegt að fá upplýsingar um þessi atriði. Það er vel kunnugt, að ríkið leggur fram allmikið fé til snjómoksturs, þar sem brýn þörf er á slíku til þess að reyna að halda opnum brautum yfir vetrartímann, en það er eins og vill verða, að það er mokað á vissum stöðum, en á öðrum stöðum ekki, þar sem ekki er talið fært að leggja í slíkar framkvæmdir, og sýnist þá sitt hverjum um það, hvar réttast hefði verið að moka. Ég vil gjarnan fá nokkrar upplýsingar um þessi atriði og vænti, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að veita þær.