22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í D-deild Alþingistíðinda. (3944)

929. mál, snjómokstur á þjóðvegum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að hv. fyrirspyrjandi hafi spurt um það, hvernig kostnaður við snjómokstur skiptist milli hinna ýmsu þjóðvega, en að hæstv. ráðh. hafi svarað þessari spurningu, að því leyti sem hann svaraði henni, með því að skýra frá því, hvernig snjómokstur á tilteknu ári hefði skipzt á milli kjördæma. Nú vil ég leyfa mér að benda á, að þetta er vitanlega alls ekki það sama og getur valdið misskilningi. Snjómokstur innan sumra kjördæma getur verið alveg eins mikið í þágu annars kjördæmis en þess, sem snjómoksturinn fer fram í, að því er varðar þjóðbrautir, þannig að fsp. er ekki svarað eins og hún var.

En aðalerindi mitt hér upp í ræðustólinn er að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh., hvort hann telji ekki sérstaka ástæðu til að endurskoða gildandi reglur um snjómokstur á Norðausturlandi. Með Norðausturlandi á ég í þessu tilfelli við veginn milli Tjörness og Vopnafjarðarkauptúns. Þarna er um tvær þjóðbrautir að ræða, Þingeyjarsýslubraut og nyrzta hluta Stranda- og Jökulsárhlíðarvegar. Ég ætla ekki að gera nánar grein fyrir því, hvers vegna ég spyr um þetta, að öðru leyti en því, að ég vil benda á, að á þessu svæði, sem hér er um að ræða, norðausturhluta landsins, eru fjögur læknishéruð, en að jafnaði hefur ástandið verið þannig, að ekki hefur læknir verið í nema einu eða tveimur af þessum fjórum héruðum. Þess vegna hafa 2–3 héruðin að miklu leyti orðið að leita til læknis í öðru læknishéraði, og það skiptir því ákaflega miklu máli, að þjóðbrautir þær, sem hér er um að ræða, séu færar. En eins og kunnugt er, snjóar mjög mikið í þessum landshluta. Ég vil sem sé endurtaka þessa fsp. til hæstv. ráðh., hvort hann sjái ekki ástæðu til þess sérstaklega að endurskoða snjómokstursreglurnar í þessum landshluta.