10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

116. mál, verslunaratvinna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þarf ekki að segja nema örfá orð um þetta frv., sem eins og fram hefur komið, er flutt jafnhliða frv. til l. um breyt. á l. um iðju og iðnað og hefur eins og það þann höfuðtilgang, að efla aðstöðu stjórnarvalda til aðhalds um það, hverjir stunda verzlunaratvinnu hér á landi. Það má því segja, að það sé rétt metið, að bæði frv. hafi þennan megintilgang, sem í grg. er lýst.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta nú. Ég tel heppilegast, að þessi frv. fari í sömu n., — það getur orkað nokkuð tvímælis, — en vil leggja það til, ef ekki koma mótmæli gegn því, að þessum frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn. og 2. umr. og þá með það í huga, að þeir menn, sem fjalla um annað frv., fjalli um þau bæði í þessari hv. deild.