16.12.1969
Neðri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

95. mál, happdrætti fyrir Ísland

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. formanni hv. n. fyrir snögg viðbrögð og greinargóðar upplýsingar, sem hann hefur útvegað frá stjórn Happdrættis Háskólans og eru prentaðar sem fskj. með nál.

Við 1. umr. þessa máls benti ég með nokkrum orðum á þá hættu, sem þessi gífurlega aukning Happdrættis Háskóla Íslands fæli í sér fyrir þá mörgu aðila, sem hefðu happdrætti sem tekjustofn til að sinna margvíslegum menningar— og mannúðarmálum, málum sem fjárveitingavaldið hefði til þessa lítið þurft að sinna, m.a. vegna tekna af öðrum happdrættum. Með þessum orðum mínum vildi ég vara við þeim afleiðingum, sem slík stökkbreyting gæti haft á tekjustofna þessara fjölmörgu aðila. Í ræðu, sem hæstv. fjmrh. hélt við þessa umr., komst hann að orði á þá leið, að enginn hefði vorkennt Happdrætti Háskóla Íslands, þegar önnur happdrætti hefðu fengið sín lögboðnu happdrættisleyfi og hlýtur hann hér að eiga við Happdrætti SÍBS og Happdrætti DAS. En hæstv. fjmrh. ætti að vera kunnugt um, að hér er grundvallar munur á. Þegar Alþ. gaf leyfi til þessara tveggja happdrætta, hafði Happdrætti Háskólans starfað um langt árabil sem einkaleyfisaðili og hélt áfram einkaleyfi sínu til peningahappdrættis, sem það heldur enn. Hinir aðilarnir urðu að fara aðra og miklu vafasamari braut. Og þau hafa á þeim verðbólgutímum, sem hafa staðið yfir og okkur hrjáð, síðan bæði þau happdrætti tóku til starfa, tapað hundruðum þús. og jafnvel millj. vegna verðbólgunnar, vegna þess að þau höfðu ekki það einkaleyfi, sem Happdrætti Háskólans hefur og hafði, þ.e. einkaleyfi til peningahappdrættis á Íslandi. Ég vil meina það, að þessi forréttindi Happdrættis Háskólans séu svo mikils virði, að það, auk þessarar gífurlegu aukningar, muni hafa lamandi áhrif ekki aðeins á þau tvö happdrætti, sem ég hef hér nafngreint, heldur og á öll hin og alla aðra starfsemi, sem hefur tekjur sínar af slíkri starfsemi.

Það kemur fram í fskj. með nál., að veltan hjá Happdrætti Háskólans, ef þetta frv. verður samþ., verður 346 millj. tæpar. Til samanburðar má geta þess, að tvö næststærstu happdrættin hér, þ.e. Happdrætti SÍBS og Happdrætti DAS, hafa hvort um sig 78 millj. kr. veltu, þ.e.a.s. Happdrætti SÍBS frá næstu áramótum, því þá mun það hækka sína miða. Auk þess er Hjartavernd með 2.2 millj., Íþróttasamband Íslands með 3.6 millj., Krabbameinsfélag Reykjavíkur með 7 millj., það er með tvö happdrætti á þessu ári, Blindrafélagið með 1.5 millj., Sjálfsbjörg 4 millj., tvö happdrætti á árinu, Styrktarfélag vangefinna 5.8 og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rúmar 5. Þetta eru tæpar 30 millj., þannig að heildarvelta allra þessara happdrætta er innan við 200 millj. Meðan Happdrætti Háskólans hefur tækifæri til þess að fara upp í 346 millj. kr. tæpar og með sitt einkaleyfi, sem ég held, að enginn muni leggja til að taka af þeim, þ.e.a.s. einkaleyfi til peningahappdrættis á Íslandi, þá er ég fullviss um, að þetta hefur lamandi áhrif á starfsemi hinna happdrættanna, enda held ég, að það sé alveg gengið út frá því, a.m.k. hefur ekki svar við því áliti mínu, þegar ég óskaði eftir því, komið frá þeim hv. herrum, sem svöruðu öðrum slíkum spurningum mjög greinilega. Þessi ástæða er önnur til þess, að ég mun greiða atkv. á móti þessu frv., því að eins og kemur fram í þessu bréfi frá Happdrætti Háskólans er aðeins reiknað með, að þetta gefi, — þó að ég viti hins vegar, að það verði meira, — þá er reiknað með, að þetta geti gefið 9—10 millj. kr. tekjuaukningu á næsta ári. Það hefði verið alveg óhætt fyrir hæstv. ríkisstj. að gera hreinlega ráð fyrir þessu framlagi til Háskóla Íslands til hans nauðsynlegu byggingarframkvæmda, til þess að eiga ekki á hættu að lama nauðsynlega starfsemi hjá hinum mörgu aðilum, sem ég hef þegar talið upp. En sem sagt, þetta er önnur ástæðan fyrir því, að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. Hin er sú, að ég hefði talið, að einmitt á þessum tímamótum, þegar verið er að gera ráðstafanir til þess að útvega fé í byggingaröldu á vegum Háskólans, sem væntanlega mun standa yfir í hálfan annan áratug og mun kosta hátt í 1.000 millj. kr., þá hefði verið tækifæri fyrir hv. Alþ. að setja þau skilyrði fyrir þessu leyfi, sem hefðu orsakað það, að Háskóli Íslands hefði orðið það, sem hann þarf að vera fyrir þessa þjóð. Ég held, að það hafi sjaldan verið flutt jafn eftirtektarverð ræða og flutt var 1. des. s.l., á fullveldisdaginn. Ræðuna flutti Jónas Kristjánsson ritstjóri og hún hefur vakið verðskuldaða athygli meðal þjóðarinnar. Og hún var flutt í Háskóla Íslands. Með leyfi forseta, vil ég aðeins leyfa mér að vitna í lítinn hluta þessarar ræðu Jónasar Kristjánssonar ritstjóra. Hann segir:.

„Ef litið er á Háskóla Íslands sérstaklega, er auðvelt að sjá, að hann á yfirleitt við hliðstæð vandamál að glíma og skólakerfið í heild. En vandamál hans eru að sumu leyti erfiðari. Það stafar m.a. af sjálfstæði hans.

Sjálfstæði háskóla er gömul erfðavenja, sem á að tryggja, að utan að komandi og annarleg sjónarmið, t.d. valdhafa, spilli ekki kennslu og vísindum í háskólum. Þetta var nauðsynlegt á sínum tíma og má vera, að það sé nauðsynlegt enn. Hins vegar gerir þetta háskóla að ýmsu leyti íhaldssama. Framfarastefna í þjóðfélaginu getur breytt skólakerfinu í heild nokkuð hratt, en háskólum ekki. Prófessorarnir ráða háskólunum og framfarirnar þar fara eftir víðsýni þeirra. Framfarirnar gerast því yfirleitt ekki hraðar en nýir prófessorar koma til sögunnar. Slík mannaskipti eru seinvirkari í háskólum, en í þjóðlífinu almennt.

Háskóli Íslands á við ýmis innri vandamál að stríða. Veiga mest er einangrunin og doðinn. Ég hef hér á undan nefnt, að háskólinn er að töluverðu leyti einangraður frá þjóðfélaginu, einkum atvinnulíf og raunvísindum. Doðinn kemur hins vegar fram, í gamaldags kennsluháttum og athafnaleysi margra prófessora. Í flestum greinum Háskólans er nærri eingöngu kennt með fyrirlestrum, sem er ákaflega einhæf aðferð. Athafnaleysið kemur fram í lítilli viðleitni við að breyta kennsluháttum, í lítilli viðleitni við að vanda fyrirlestra og í ódugnaði við rannsóknir. Þess eru dæmi, að prófessorar gera ekki annað en þylja upp 10 eða 20 ára gamlar þýðingar sínar á erlendum kennslubókum. Það má ekki dæma prófessora of hart fyrir þetta. Þeir eru að ýmsu leyti fórnardýr skipulagsins, laklega launaðir og illa brynjaðir aðstöðu, í þreytulegu andrúmslofti.“

Síðan vitnar þessi hv. ræðumaður í skýrslu háskólanefndar og segir, með leyfi forseta:

„Gallinn á skýrslu háskólanefndar er sá, að taka ekki þessi tvö vandamál, einangrunina gagnvart raunvísindunum og doðann, nægilega til meðferðar, áður en hún lauk störfum og afhenti Háskólanum sjálfum eftirleikinn. En jafnframt ber þess að minnast, að alltaf er verið að ráða nýja prófessora, vel menntaða og dugandi menn, auk þess sem margir hinna eldri eru mjög góðir. Þannig má segja, að menn geti beðið rólegir, allt muni lagast um síðir. En dýrkeypt verður sú bið.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að vitna í fleiri orð úr þessari ræðu Jónasar Kristjánssonar ritstjóra, sem markaði stefnu þessa dags, sem ungir stúdentar tóku upp, um að „bókvitið verði í askana látið“, — ég sé ekki ástæðu til að vitna frekar í hana að sinni. Ég vil heils hugar taka undir þessa stefnu ungra háskólamanna, sem halda því fram, að bókvitið verði í askana látið. En ég er ekki kominn til þess að samþykkja það, að allt bókvit, sem við fáum í askana, bæði launþegar og aðrir, eigi að koma frá Háskólanum. Við skulum hugsa okkur gamlan nemanda eins og ég er frá sjómannaskólanum. Fyrir 23 árum tók sá skóli til starfa í sínu nýja húsnæði. Það hefur ekki enn þá tekizt að ljúka þeirri byggingu, á 23 árum. Ég gæti trúað því, að sumir hv. þm., sem eru að berjast fyrir skólahúsnæði og skólum, ég tala nú ekki um allan þann fjölda hér inni, sem hefur beðið eftir fiskiðnskóla nú töluvert á annan áratug o.fl. o.fl., sem

gæti hjálpað okkar þjóð til þess virkilega að koma bókvitinu í askana, að þeir kannske hugsi sem svo: Hefði ekki verið nær að nota þessa milljónatugi fyrst í stað til þess að ljúka einhverju öðru bráðnauðsynlegu, áður en það verði farið að hefja áætlun um byggingu húsnæðis Háskólans, sem fetar í sömu gömlu fótsporin? Það er, eins og segir í þessari grg., að hefjast byggingaralda á vegum Háskólans, sem væntanlega mun standa lengi og „nægir að vísa til skýrslu háskólanefndar um það atriði“, segir einnig í þessu fskj., með leyfi forseta. En ég vil skjóta aðeins inn í, í sambandi við það, að þessi háskólanefnd er enginn valdaaðili. Þetta er aðeins ráðgefandi nefnd, sem ráðh. skipaði á sínum tíma. Framkvæmdirnar koma til með að standa og falla með Háskólanum sjálfum, nema Alþ. Íslendinga hefði getað aðeins ýtt við þeim góðu herrum þar. En áfram er haldið, með leyfi forseta, í sambandi við það, sem byggja á: „Í kjölfar Árnagarðs kemur Stúdentaheimili, lestrarsalir fyrir stúdenta og á næsta leiti eru byggingar fyrir verkfræðideild, lagadeild, tæknadeild, tannlæknadeild o.fl. byggingar að ógleymdum tækjakaupum.“ Sem sagt, lögfræðimaskínan, það á að styðja aðeins betur við hana og embættismaskínuna, en eins og allir viðurkenna, sem hafa talað um vandamál Háskólans á undanförnum árum, er þetta og hefur verið embættismannaskóli. En bæði ungir menn innan Háskólans og yngri prófessorar og ég og aðrir, sem höfum dálæti á þessari æðstu menntastofnun þjóðarinnar, viljum, að hún stingi við fótum og komi til þjóðarinnar, en láti ekki alltaf þjóðina koma til sín.

Ég minnist þess fyrir nokkrum árum, að ég ræddi þá við þáv. rektor Háskólans og hafði þá kynnt mér víða um Bandaríkin hjá stærstu háskólum þar starfsemi, sem var talin einn höfuðliður í fræðslustarfsemi þessara stóru stofnana. Það var að hafa þar námskeið, fyrirlestra og hrein námskeið fyrir verkalýðshreyfinguna í Bandaríkjunum. Það er gífurlega mikið starf á þessu sviði unnið þar og reyndar í flestum menntuðum löndum þessa heims. Við verðum varir við það, þessir menn, sem störfum í verkalýðshreyfingunni, að bæði stjórnmálamenn og háskólamenntaðir menn vitna oft til þess, að þessir blessaðir menn í stéttarfélögunum kunni lítið til sinna verka, þeir þekki ekki þetta, sem þeir ættu að þekkja og þeir þekki ekki hitt, enda sýnist mér, að háskólanefnd leggi það m.a. til, að þeir útvegi okkur nokkuð af sínum lögfræðingum eða tannlæknum til að starfa fyrir verkalýðsfélögin. En eins og ég var að segja frá, erlendis þekkist víða, að háskólar geri þetta. Hér hefur Háskólinn aldrei komið til eins eða neins aðila, sem telst til launþegahreyfingar, nema kannske bandalags sinna eigin manna, eigin gömlu nemenda og boðizt til þess að hjálpa þeim í sambandi við efnahagsvandamál og þjóðfélagsvandamál.

Ég minnist þess fyrir nokkrum árum, að ég var kjörinn formaður mþn. hér á Alþ., sem átti að fjalla og fjallaði um mjög viðkvæmt vandamál. Það var svo viðkvæmt og svo víðfeðmt, að þurft hefði fjölda vísindamanna til þess að vinna að því. Það var leitað til Háskóla Íslands. Það hefði verið alveg tilvalið fyrir Háskóla Íslands að snúa sér að slíkri rannsóknarstarfsemi eins og þar þurfti að vinna. Nei, þeir höfðu hvorki tíma til þess né getu. Þeir, sem voru í sumarfríum, voru í sínum frístundum að semja líklega frv. eða meta fasteignir eða eitthvað annað þess háttar og það var fyrir mestu mildi, að einn prófessoranna gerði það fyrir okkur að taka hluta af þessu starfi að sér, sem hann gerði með mikilli prýði.

En í sambandi við þær umr., sem hafa farið fram um Háskólann að undanförnu, hafa þessir ungu, áhugasömu menn innan Háskólans haldið áfram. Þeir hafa efnt til tveggja ráðstefna, annars vegar í sambandi við sjávarútvegsmál og hins vegar nú fyrir stuttu í sambandi við iðnaðinn. Ég skal nú ekki þreyta hv. þm. með því að vitna í þær undirtektir, sem starf þessara ungu manna hefur fengið meðal hinna eldri háskólamanna, starf þessara manna, sem vilja virkilega gera Háskóla Íslands að þátttakanda í íslenzku atvinnulífi og íslenzku þjóðlífi. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að vitna hér í fyrirsögn í einu dagblaðanna, sem segir frá ráðstefnunni um iðnaðinn. Aðalfyrirsögn er: „Framleiðir Háskólinn öreigastétt framtíðarinnar?“ Og undirfyrirsagnir eru: „Háskólinn fór á mis við hlutverk sitt í atvinnuuppbyggingu landsins.“ „Háskólinn hefur aldrei reynt að koma á tengslum við atvinnulífið, hefur aldrei reynt að hafa samband við iðnfyrirtæki landsins.“ Og í þriðja lagi: „Háskólinn er að framleiða öreigastéttir framtíðarinnar og þessar stéttir munu draga landslýðinn niður í örbirgðina.“ Þá er komið að því, að öreigar allra landa eða a.m.k. þessa lands geta sameinazt, þegar þeir verða komnir niður á öreigastígið.

Ég skal ekki, hv. þm., þreyta ykkur lengur á þessari upptalningu. Mér satt að segja finnst hún skelfileg og ég hefði álitið, að Alþ. Íslendinga hefði átt að nota tækifærið, þegar svona stóð á og segja við Háskóla Íslands: Við skulum láta ykkur hafa þetta leyfi. Við skulum stuðla að því, að það sé hægt að eyða 70 millj. kr. á ári að meðaltali næstu 15 árin til þess að byggja upp nýjar byggingar við Háskólann. En þið verðið bara að koma á móti. Þið verðið að koma á móti þjóðinni, sem óskar eftir því, að Háskóli Íslands hafi forustu í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar á næstu árum.