21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að blanda mér í þá talnadeilu, sem hér hefur farið fram á milli hv. 6. þm. Reykv. og hæstv. raforkumrh. Til þess brestur mig aðstöðu. En ég vil aðeins taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég held, að það væri gott að fá þetta mál nákvæmlega upplýst og ég tel alveg víst, að ráðh. muni vilja stuðla að því, vegna þess að hann telur sig hafa pálmann í höndunum. Ef hlutlaus rannsókn er látin fara fram á þessu, mun það rétta koma í ljós.

En vegna þess að hér hefur það borið á góma, hvernig hæstv. ríkisstj. hafi tekizt að semja við álbræðsluna á sínum tíma um raforkuverðið, þá langar mig til að vekja athygli á einu atriði, sem er alveg augljós staðreynd um það, hvernig henni hefur tekizt til í þeim efnum í samanburði við aðra.

Um það leyti, sem við sömdum við álbræðsluna um raforkuverðið, voru Norðmenn að semja við hliðstæð fyrirtæki og þeir fengu þá fyrir raforku, sem þeir sömdu um sölu á til erlendrar álbræðslu, 3.2 mill, en við fengum ekki nema 2.5 mill fyrir okkar, þannig að hér var um slíkan verðmun að ræða, að Norðmenn fengu 28% meira fyrir raforkuna, heldur en við fengum með samningum við þessi álbræðslufyrirtæki. Samkv. upplýsingum, sem voru birtar í Morgunblaðinu 1. eða 2. þ.m., munum við, þegar álbræðslan nýtir til fulls það orkumagn, sem um er samið, að hún fái á árinu 1974 eða þar í kring, fá fyrir orkuna um 270 millj. kr. Ef við hefðum hins vegar samið með líkum hætti og Norðmenn og fengið það sama fyrir raforkuna og þeir, þá mundum við hafa fengið 70-80 millj. kr. meira á ári. Ég held, að hér sé um staðreynd að ræða, sem ekki er hægt að bera á móti og liggur alveg ljóst fyrir. Á 20 árum nemur þetta 1.400–1.500 millj. kr., og ef menn bæta svo við vöxtum og vaxtavöxtum, er þessi upphæð miklu hærri. Þess vegna má fullyrða það, að sá munur, sem er á raforkuverðinu hér hjá okkur og í Noregi, svarar til þess, að á 20 árum mundi vera hægt að byggja fyrir þennan mismun mjög stórt orkuver, næstum því eins stórt og Búrfellsvirkjun. Þetta er sá stóri munur, sem er á norska samningnum og íslenzka samningnum, sem gerðir voru um sölu á raforku til álbræðslu á sama tíma. Ég held, að þetta sýni það alveg óumdeilanlega, hve hörmulega illa ríkisstj. hefur tekizt í þessum samningum, þegar menn gera sér ljósan þennan mikla mun, sem er á samningnum, sem Norðmenn gerðu við álbræðslu, á sama tíma og við vorum að semja við Svisslendingana í Straumsvík. Þess ber svo að gæta, sem ekki er tekið með í reikninginn, að í Noregi verða álhringarnir að borga tolla og skatta alveg til samræmis við innlend fyrirtæki. Hér nýtur álbræðslan stórkostlegrar undanþágu í þeim efnum. Hún borgar enga tolla og miklu minna framleiðslugjald heldur en mundi nema þeim sköttum, sem hún yrði að borga, ef hún væri látin lúta íslenzkum lögum.

Þessar staðreyndir, sem ég hef nú nefnt og liggja alveg Ijóst fyrir og ekki verður borið á móti, sýna það ákaflega glöggt, hve hörmulega illa ríkisstj. hefur tekizt í þessum samningum, og þess vegna voru þeir ekki afsakanlegir á sínum tíma. Ég er alveg sannfærður um það, að ef það hefðu verið traustari samningamenn Íslands megin við borðið, þegar verið var að vinna að þessum málum, þá hefði verið auðvelt að fá miklu hagstæðari samninga, alls ekki lakari en þá, sem Norðmenn fengu. En svona varð niðurstaðan.