21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði hér áðan.

Það mun vera rétt, að raforkuverðið er nokkru hærra í Noregi heldur en hér. En skatturinn er mjög lítill, sem álverksmiðjurnar í Noregi greiða til Norðmanna og þess vegna vil ég ekki fullyrða um þetta, því að ég hef þetta nú ekki í höndunum. En þegar tekið er tillit til þess, hvað skatturinn er mikill, sem álverksmiðjan greiðir til Íslands, þá fæst mjög svipað út úr því og þeim skatti, sem álverksmiðjurnar greiða í Noregi. En ég vil ekki fullyrða neitt hérna, því maður getur flett þessu upp, en ég man ekki betur en álverksmiðjan greiði 3 mill núna fyrstu árin, en hv. 4. þm. Reykv. sagði 2.5. Svo lækkar orkuverðið um leið og skatturinn hækkar. Þannig mun það vera, að þetta jafnar sig nokkuð upp og norsku samningarnir eru, þegar á allt er litið, ekki hagstæðari fyrir Norðmenn heldur en álsamningurinn við Svisslendingana er fyrir Íslendinga. Bæði hv. 4. þm. Reykv. og ég getum rifjað þetta upp. Ég las þetta einu sinni og við höfum gert það báðir, en ég vil ekki fullyrða um þetta nema í aðaldráttum. En við getum ábyggilega, með því að fletta þessu upp á ný, sannfært okkur um það, hvað rétt er í þessu. Þó vil ég alveg fullyrða, að þær tölur, sem hv. 4. þm. Reykv. fór með hér áðan, eru ekki nærri lagi, þegar hann tekur tillit til þess, hvað miklu hærri skattar eru greiddir af framleiðslunni hér, — ákveðið af hverju tonni, — heldur en í Noregi.