21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins tvær eða þrjár setningar. Ég vil nú ekki fullyrða það, sem ekki stenzt. En það liggur alveg fyrir, að álverksmiðjur í Noregi borga miklu minni skatt heldur en álverksmiðjan í Straumsvík gerir hér og þess vegna er það orðaleikur, þegar hv. 4. þm. Reykv. er að tala um það, að raforkuverðið sé lægra hér, heldur en í Noregi, því við vinnum það upp með því að taka meira framleiðslugjald af álverksmiðjunni hér heldur en Norðmenn fá frá þeim verksmiðjum, sem þar eru staðsettar. Og ég gæti bezt trúað því, að munurinn yrði miklu meiri en 70–80 millj., eins og hv. 4. þm. Reykv. var að nefna áðan, sem við fáum í skatta umfram það, sem Norðmenn fá, þótt ég hefði nú ekki haldið, að samningarnir væru hagstæðari hjá okkur en Norðmönnunum. En það skyldi nú ekki vera, þegar tekið er tillit til skattanna og orkuverðsins, sem álverksmiðjan greiðir hér og það svo borið saman við orkuverðið og skattana, sem álverksmiðjur greiða í Noregi, að niðurstaðan yrði sú, að okkar samningar væru hagstæðari, þegar þetta er allt tekið með í reikninginn. (Gripið fram í.) Ég man þessar tölur ekki, en það er alveg öruggt mál, að það munar mjög miklu á sköttum, sem greiddir eru af álverksmiðjunni í Noregi og því sem hér er greitt. En þetta getum við, eins og ég sagði áðan, alveg fengið upplýst með því að rifja upp þessa samninga, sem við erum ekki með fyrir framan okkur nú.