10.03.1970
Efri deild: 53. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á l. um ráðstafanir til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins hefur verið samþ. í hv. Nd. og verið til athugunar að undanförnu í iðnn. þessarar hv. d. Á þskj. 388 hefur iðnn. gefið út nál., þar sem shlj. er mælt með samþykkt frv.

Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út 23. júní 1969. Gert er ráð fyrir 42 kr. hækkun aflgjalds pr. kw og 2 aura hækkun á orkugjald hverrar kwst. Hækkun verðjöfnunargjaldsins, sem hér um ræðir, nemur 35 millj. kr. á ársgrundvelli, en samkv. rekstraráætlun fyrir 1970 er áætlað, að rekstur Rafmagnsveitna ríkisins verði í jafnvægi með þessari hækkun. Áætlað er, að rafmagnshækkun sú, sem frv. þetta gerir ráð fyrir til neytenda, nemi um 4–5%.

6. gr. l. kveður á um skipun þriggja manna stjórnarnefndar Rafmagnsveitna ríkisins, og þarf undirskrift tveggja stjórnenda til að skuldbinda Rafmagnsveiturnar. Hv. Nd. gerði þá breytingu á frv., að þessi stjórnarnefnd yrði skipuð til fjögurra ára. Stjórnarnefndin mun þegar hafa tekið til starfa, eftir að brbl. voru gefin út, en í henni eru Bjarni Bragi Jónsson, formaður, Jóhann Indriðason verkfræðingur, tilnefndur af Sambandi ísl. rafveitna, og Kjartan Jóhannsson verkfræðingur. N. mun hafa haldið um eða yfir 20 fundi. Ekki er vitað, hvað þessi n. hefur áorkað til bætts skipulags stofnunarinnar, enda skammur tími, sem hún hefur starfað. Eflaust lætur hæstv. orkumálaráðh. Alþ. síðar í té vitneskju um störf stjórnarnefndarinnar, og gefst þá væntanlega einnig tækifæri til að ræða skýrslu, sem hv. alþm. hefur verið send, skýrslu svokallaðrar rafveitunefndar til raforkumrh., dags. í nóv. 1969. Þessi skýrsla, sem er í tveimur bindum, er hið fróðlegasta plagg, og af henni má ráða það, að margt mætti betur fara í rekstri rafveitna, og kemur það heim við almennt álit, eftir því sem ég persónulega tel, en um það skal ekki fjallað hér nú. Það er einnig mín persónulega skoðun, að ógerlegt sé að halda áfram hækkun raforkuverðs, t.d. til iðnrekstrar eða þar sem útflutningsatvinnuvegirnir eiga í hlut, heldur verði bætt skipulag á þessum málum og hagkvæmari lán að vega upp á móti þeim hækkunum, sem kynnu að verða á rekstrinum.

Iðnn. mælir, eins og fyrr er sagt, með frv. því, sem hér um ræðir, og enda er ekki að vænta, að jafnvægi í rekstri fyrri ára og nú náist á annan og hagkvæmari hátt