17.11.1969
Efri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

15. mál, menntaskólar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er ánægjulegt, ef ræða hv. síðasta ræðumanns er vitni um það, að framvegis eigi að taka upp ný vinnubrögð hér í nefndarstörfum. Við erum því ekkert óvanir hér í þessari hv. d., að til okkar séu afgr. á síðustu dögum þingsins viðamiklir lagabálkar, og ég hef ekki orðið var við það, að neinar sérstakar áhyggjur hafi þjakað suma hv. nefndarformenn, þó að það hafi ekki gefizt ýkjamikill tími til þess að athuga þau mál. Og það hafa þó æðioft verið mál, sem menn hafa haft mjög skiptar skoðanir á. En svo var nú ekki háttað, eftir því sem virtist, um þetta mál.

Ég skal ekki að öðru leyti fara út í frv. sjálft, það má eflaust lengi deila um einstök atriði, enda skilst mér, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé kannske fyrst og fremst það sem kalla má rammalöggjöf, þ.e. það verður að fylla út í það að vissu leyti eftir á með reglugerð. En að meginstefnu til er þetta frv. að mínum dómi spor í rétta átt, og það voru menn sammála um s.l. vetur. Það hefði verið hægt að afgr. það þá, ef stjórnarflokkarnir hefðu verið sammála um það. En það má kannske segja, að það sé ekki neinn skaði skeður, þó að það hafi dregizt þetta. Ég vænti þess, að sá sami hugsunarháttur og kom fram hjá hv. þm., 2. þm. Reykv., sem ég tel út af fyrir sig mjög lofsverðan, eigi eftir að ráða mjög miklu á þessu þingi og framvegis.