17.11.1969
Efri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

15. mál, menntaskólar

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér, að stundum hafi verið gert of mikið af því að afgr. mál með hraði á síðustu dögum þingsins, og er það vissulega ekki til fyrirmyndar. En það var annað, sem hann sagði í sinni fyrri ræðu, sem ég vil ekki samþ., en hann sagði, að stjórnarflokkarnir hefðu stöðvað þetta mál í Ed. á síðasta þingi. Sjálfur hafði ég ýmislegt við þetta frv. að athuga, sem ég taldi alveg nauðsynlegt að kanna. Ég taldi, að málinu lægi heldur ekki mjög mikið á. Ég var þess vegna eindregið því fylgjandi, þar sem svona örstuttur tími var til stefnu og ýmislegt þurfti að athuga að mínum dómi, að málinu yrði frestað og það yrði ekki afgr. Ég vil taka það fram, að þetta var eingöngu mín persónulega skoðun. Um þetta hafði ég ekki nein fyrirmæli frá stjórnarflokkunum. (Gripið fram í.) Jú, jú, ég held að hv. form. Framsfl. ætti ekki að gera sér neinar vonir um breytingar á því, en ég vil taka það fram, að ég lít ekki á þetta mál sem flokksmál, þetta menntaskólafrv., og mér finnst, að það eigi ekki að vera flokkspólitískt. Ég álít að málið sé ekki þess eðlis.

En það, sem ég vildi svo að lokum bæta við, er þetta: Fyrir utan þessa veigamiklu ástæðu til þess að fresta því að afgr. frv. í fyrra, þá vil ég bæta því við, að þetta voru algerlega óviðunandi vinnubrögð hjá Nd., að liggja yfir þessu máli mánuðum saman og skila því svo loksins til Ed., þegar örfáir dagar voru til þingslita. (Gripið fram í.) Já, og það var vissulega nægjanlegt, þó það hefðu ekki verið neinar aðrar ástæður fyrir hendi, til þess að afgr. ekki málið og mótmæla slíkum vinnubrögðum í Nd.