22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Á s.l. vori var háð víðtæk kjaradeila, er lauk með samkomulagi gerðu 19. maí 1969, milli stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda. Einn þáttur þess samkomulags var stofnun lífeyrissjóða til handa því verkafólki, er engra lífeyrisréttinda hafði notið áður. Áætlað var, að með þessu samkomulagi fengju u.þ.b. 25 þús. manns aðild að lífeyrissjóðum. Ljóst var þó, að þessir nýju lífeyrissjóðir stéttarfélaganna væru þess fjárhagslega vanbúnir að greiða lífeyri til félagsmanna í stéttarfélögum, er láta mundu af störfum fyrir aldurs sakir á næstu árum. Til þess að leysa þennan vanda hljóp ríkisstj. undir bagga og lofaði að beita sér fyrir sérstökum lífeyrisgreiðslum til aldraðra félagsmanna í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands. Þetta loforð var gefið í tvenns konar tilgangi. Annars vegar til að tryggja því aldraða fólki, sem hér um ræðir, nokkur lífeyrisréttindi, og hins vegar til að greiða fyrir lausn kjaradeilunnar í heild.

Frv. það um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, sem hér er til umr., er flutt til efnda á áðurgreindu loforði ríkisstj. Um þessi lífeyrisréttindi aldraðs fólks gaf ríkisstj. út sérstaka yfirlýsingu hinn 18. maí 1969 ásamt sérstökum fskj., þar sem lífeyrisréttindunum eru gerð ýtarleg skil. Þessi skjöl eru prentuð með frv. Frv. er í raun réttri ekki annað en efnisatriði fskj. og yfirlýsingarinnar klædd í lagalegan búning. Helztu atriði frv. eru þessi:

Ríkissjóður, að 1/4 hluta, og Atvinnuleysistryggingasjóður, að 3/4 hlutum, skulu greiða eftirlaun til aldraðra félagsmanna í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands á tímabilinu frá 1. janúar 1970 til 1. janúar 1985. En að þeim tíma liðnum er ætlazt til, að viðkomandi lífeyrissjóður stéttarfélaganna taki á sig þessar greiðslur. Reyndar má eins orða þetta svo, að ríkissjóður og Atvinnuleysistryggingasjóður séu með umræddum eftirlaunagreiðslum samkvæmt frv. að kaupa öldruðu fólki lífeyristéttindi í lífeyrissjóðum stéttarfélaganna eða öðrum lífeyrissjóðum, sem félagsmenn innan Alþýðusambands Íslands eiga aðild að.

Rétt til eftirlauna samkvæmt frv. eiga þeir einir, sem fullnægja öllum eftirtöldum skilyrðum: 1. Eru orðnir 55 ára 31. des. 1969. 2. Hafa náð 70 ára aldri og látið af störfum. 3. Voru í starfi í árslok 1967. 4. Hafa áunnið sér réttindatíma. — Til réttindatíma félagsmanns skal einungis reikna þann tíma frá og með árinu 1955, sem hann hefur verið við störf, sem greidd eru samkvæmt launatöxtum stéttarfélaga innan Alþýðusambands Íslands, og aðeins þann tíma, sem hann hefur verið fullgildur félagi innan stéttarfélags.

Fjárhæð eftirlauna miðast við réttindatíma. Skemmri réttindatími en 10 ár veitir sjóðfélaga sjálfum ekki rétt til eftirlauna. En eftir 10 ára réttindatíma verða eftirlaunin 12.5% af meðallaunum og fara síðan smátt og smátt vaxandi unz þau ná 30% af meðallaunum eftir 20 ára réttindatíma. Eftirlaun til eftirlifandi maka koma hins vegar fyrst til eftir 5 ára réttindatíma og verða þá 10% af meðallaunum, en fara síðan hækkandi og ná 25% eftir 20 ára réttindatíma. Eftirlaunagreiðslur samkv. frv. eru ekki verðtryggðar. Til frádráttar eftirlaunagreiðslum samkv. frv. koma greiðslur úr lífeyrissjóðum, en frádráttar mun þó lítið gæta fyrstu árin, vegna þess að flestir lífeyrissjóðir stéttarfélaganna innan Alþýðusambands Íslands eru nýir af nálinni.

Áætlað hefur verið, að eftirlaunagreiðslur ríkissjóðs og Atvinnuleysistryggingasjóðs samkvæmt frv. muni nema 25–30 millj. kr. á yfirstandandi ári, en fara síðan smátt og smátt hækkandi fram til ársins 1980 miðað við núverandi kaupgjald, en fara síðan lækkandi á tímabilinu 1980-1985, þangað til greiðslurnar falla niður.

Mál þetta er í rauninni flókið og margslungið, ef það er krufið til mergjar, og ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í þá sálma, enda er það naumast á færi annarra en sérfræðinga. Við því má búast, að þeim lagareglum um eftirlaunagreiðslur, sem hér verða settar, þurfi síðar að breyta eitthvað, þegar reynsla er komin á.

Þessu frv. var vísað til heilbr: og félmn. N. kvaddi á sinn fund Guðjón Hansen tryggingafræðing, sem unnið hefur að þessum málum fyrir ríkisstj., og ræddi efni frv. við hann og fékk ýmiss konar upplýsingar og skýringar hjá honum. N. varð sammála um að mæla með samþykkt frv., svo sem fram kemur í nál. á þskj. 247, en einstakir nm. áskildu sér þó rétt til að flytja brtt. eða styðja brtt., ef fram kynnu að koma.

Nú er svo málum komið, að allar hinar fjölmennari stéttir þjóðfélagsins eiga aðild að lífeyrissjóðum nema bændastéttin, en hennar hlutur mun brátt verða réttur í því efni. Þessari þróun ber að fagna, en hitt má ekki gleymast, að enn eru margir einstaklingar útundan, sem falla ekki undir reglur þeirra lífeyrissjóða, sem fyrir eru eða nú er verið að stofna. Markmiðið hlýtur að vera, að allir landsmenn hljóti lífeyrisréttindi.