20.10.1969
Sameinað þing: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1970

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Við Sigurð Ingimundarson, hv. 1. landsk. þm. vil ég segja það, að honum væri hollt að lesa Alþt., til þess að hann gæti farið rétt með atkvgr. um Búrfellsvirkjunina. Ég vil líka segja honum það, að framsóknarmenn greiddu atkvæði um samninginn um álverksmiðjuna, en ekki verksmiðjuna sjálfa. Í samningnum var útlendu fyrirtæki gert hærra undir höfði heldur en íslenzku og skjóta á ágreiningsmálum undir erlendan dómstól. Við þetta vildum við ekki una. Hitt mun rétt hjá Sigurði Ingimundarsyni, hv. 1. landsk. þm., að þeir Alþýðuflokksmenn eiga ekki til í sínum fórum sjálfstæðiskennd Bjarts í Sumarhúsum. Þegar hv. alþm. höfðu virt fyrir sér fjárlagafrv., það er fyrir árið 1970, er hér liggur fyrir til 1. umr., varð einum þeirra að orði: „Það er eins og þetta fjárlagafrv. sé samið af mönnum, sem hafa verið lokaðir inni og ekkert samband haft við þjóðlífið.“Þessi fáu orð eru rétt lýsing á efni fjárlagafrv. Það er nánast grg. um það, hvað það kostar þjóðina að halda uppi embættiskerfi í landinu og takmarkaðri þjónustu. Sá kostnaður kemur til með að hækka um nærri 1 milljarð kr. fyrir árið 1970 frá yfirstandandi ári. Þessar fullyrðingar mínar um frv. mun ég rökstyðja síðar, en mun fyrst víkja að ríkisbúskapnum, eins og staða hans er eftir að viðreisn hefur setið að völdum í einn áratug.

Fjárlög íslenzka ríkisins hafa nærri tífaldazt síðan 1958, þ.e. síðan áhrifa núverandi valdhafa fór að gæta og hækkun þeirra er 145% síðan 1965, að núverandi fjmrh. settist í valdastól. Ef sama þróun á sér stað til næstu aldamóta eins og orðið hefur síðustu 5 árin, þá liti myndin þannig út með 5 ára millibili: Árið 1975 yrðu niðurstöðutölur fjárlaga 19 milljarðar og 500 millj. kr.,1980 47 milljarðar og 200 millj.,1985 115 milljarðar, 1990 276 milljarðar, 1995 670 milljarðar og árið 2000 1.620 milljarðar. Þannig mun talnaflóðið verða á næstu áratugum, ef jafnskefjalaus verðbólga ríkir í efnahagskerfi þjóðarinnar með 4 gengislækkunum á einum áratug, eins og verið hefur á áratugnum 1960–1970. En það er fleira, er vekur athygli í sambandi við ríkisbúskapinn, en hækkun fjárlaga, sem er þó ærið nóg áhyggjuefni. Á þessum sama áratug hafa tekjur fjárlaga farið ca. 3.000 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga. Þar af um 430 millj. kr. árið 1967 og 410 millj. árið 1968. Þó er greiðsluhalli þessara tveggja ára um 150 millj. kr. og greiðsluhalli áratugsins um 400 millj. kr. Afborgun af skuldum hækkar frá yfirstandandi ári með hliðstæðum samanburði næsta ár um 120 millj. kr. og vaxtagreiðslur um 43 millj. kr. Jafnhliða þessari þróun í fjármálum ríkissjóðs hefur það gerzt, að framlög ríkissjóðs til verklegra framkvæmda, er voru á árunum 1950–1958 yfir 20% af heildarútgjöldum fjárlaga, eru nú um 7% áætlaðra útgjalda fjárlagafrv. fyrir árið 1970. Í framhaldi af þessu tel ég rétt að gera grein fyrir, með hvaða hætti fjármagn hefur fengizt til þeirra ríkisframkvæmda, er gerðar hafa verið á síðustu árum. Í vaxandi mæli hafa þær verið fjármagnaðar með lántökum og þar eru nú til staðar háar skuldafjárhæðir, og skulu nefndar hér nokkrar tölur frá síðustu áramótum, er sanna það. Skuldir Vegasjóðs voru þá um 500 millj. kr. Vegna hafna um 90 millj., vegna landshafna um 240 millj., vegna sjúkrahúsa og skóla um 80 millj. og flugmála um 100 millj. Þessar fjárhæðir, er hér hafa verið nefndar, eru 1.000 millj. kr. Þessum fjárhæðum og fleirum verður framtíðin að skila ásamt vöxtum og gengisáhættu, jafnhliða því, sem verður að afla fjár til þeirra verka, er þá verða leyst. Þessi frásögn ætti að færa ykkur heim sanninn um það, að verðbólgan og útþensla ríkiskerfisins kostar þjóðina ærnar fjárhæðir, þar sem síhækkandi fjárlög og 3.000 millj. kr. tekjur umfram þau hafa ekki nægt til þess að greiða kostnað við þau verkefni, er þjóðin greiddi áður af samtíma tekjum. Þeirri stefnu, að fjármagna ríkisframkvæmdir með lántöku, ætlar ríkisstj. að fylgja dyggilega áfram. Um það vil ég nefna eitt dæmi: Gerð hefur verið áætlun um uppbyggingu Háskóla Íslands, engin króna er þó veitt til þeirra framkvæmda í fjárlagafrv., heldur er þar heimild til 30 millj. kr. lántöku til þessa verks. Hver skyldi lánsfjárhæðin vera orðin, þegar verkinu er lokið, fyrst að það er hafið með lántöku?

Við framsóknarmenn höfum margoft lýst þeirri skoðun okkar, að alger stefnubreyting verði að koma til í ríkisbúskapnum, ef þar á að breyta um til batnaðar. Mér finnst þetta fjárlagafrv. góð sönnun þess, að við förum hér með rétt mál. Þrátt fyrir allt tal um sparnað og bætt vinnubrögð, er framkvæmdin í þá átt hin mesta handarbaksvinna, eins og framkvæmd sparnaðarlaganna sannar, sem hæstv. fjmrh. lýsti hér áðan, enda voru það fyrst og fremst sýndarlög. Sameiginlegur rekstur ríkisskipanna er gott dæmi um þessi vinnubrögð. Samstaða varð um það á milli þingflokka, að þetta skyldi gert, en nýr framkvæmdastjóri fylgdi með frá ríkisstj., er til framkvæmdanna kom. Um bifreiða mál ríkisins vil ég minna á það, að við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn. lýstum því afdráttarlaust sem stefnu okkar í nál. fjvn. í fyrra, að við vildum með öllu leggja niður forstjórabíla. Það er því mikils virði, að samstaða hefur tekizt um þetta mál og mestu máli skiptir nú, að framkvæmdin takist vel. Í framhaldi af þessu vil ég skýra frá því, að undirn. fjvn. vann að því í sumar ásamt hagsýslustjóra að gera athugun á l. um lögregluna. Við gerðum ákveðnar till. til breyt. á þeirri löggjöf, er miða að sparnaði. Framkvæmd þessa máls er nú í höndum valdhafanna. Ég vil minna á aðeins örfá atriði, er ég tel, að þurfi að athuga, er leitt gæti til sparnaðar. Þar vil ég nefna rekstur sjúkrahúsanna, véla–og viðgerðarverkstæði ríkisstofnananna, verkfræðiþjónustu ríkisins, húsaleigu, framkvæmd skattalaganna, hert eftirlit með söluskatti, að athugun verði gerð á því, hvort hagkvæmt sé að sameina Efnahagsstofnunina hagdeild Seðlabankans, rannsóknarstarfsemin verði endurskipulögð. Ýmsar stofnanir, sem ekki þjóna lengur þeim tilgangi, er þeim var upphaflega ætlaður, verði lagðar niður, svo sem Landnám ríkisins og verkefni þau, sem þar eru eftir, gangi til Búnaðarfélags Íslands. Bankastarfsemin í landinu verði endurskoðuð með hagkvæmni fyrir augum. Allt eftirlit með ríkisstofnunum og ríkiskerfinu verði hert. Ég vil undirstrika það, að þegar málum ríkissjóðs er þannig komið, að fjárl. hækka um milljarða á milli ára vegna aukins reksturskostnaðar, en verklegar framkvæmdir ríkissjóðs, er áður voru greiddar af samtímatekjum, eru nú fjármagnaðar með lánsfé, engin ný verkefni fá fjárveitingu, stuðningur ríkissjóðs við atvinnuvegina minnkar hlutfallslega með hverju ári, þá er ríkissjóður þrátt fyrir þetta rekinn með halla ár eftir ár og þó hafa tekjur hans farið 100 millj. kr. fram úr áætlun fjárlaga. Eitthvað er að í ríkisrekstrinum, um það verður ekki deilt. Ég endurtek: Breytt stjórnarstefna er það, sem koma þarf til að bjarga fjármálum ríkisins.

Í upphafi máls míns drap ég á það, að fjárlagafrv. fyrir árið 1970 kæmi ekki nálægt þeim vandamálum, sem hugur fólksins snýst nú um. Þessum orðum skal ég nú finna betri stað en orðið er. Atvinnumálin eru þau mál, sem fólkið í landinu ræðir mest um og hefur mestar áhyggjur af og er það að vonum. Allt yfirstandandi ár hefur verið hér atvinnuleysi og er hér enn þá. Um síðustu mánaðamót voru um 900 manns atvinnulausir auk þeirra, er farnir eru úr landi í atvinnuleit, sem skipta hundruðum. Þó hafa aflabrögð verið góð á yfirstandandi sumri, ef síldveiðar eru undanskildar. Við fjárlagaafgreiðslu á s.l. hausti fluttum við fulltrúar Framsfl. í fjvn. ásamt hv. þm. Geir Gunnarssyni till. um 350 millj. kr. fjárveitingu til atvinnumála. Við óskuðum eftir samstarfi við stjórnarliða um málið, t.d. um heimild til lántöku, ef talin væri þörf á því. Ekki höfðu stjórnarliðar áhuga á lausn þessa mikla vandamáls. Enda þótt stjórnarliðar vildu í engu sinna till. okkar í fjvn. um fjárútvegun til atvinnumála, voru þeir knúðir til þess síðar að útvega fé og lána það til atvinnuveganna, álíka fjárhæð og við fjórmenningarnir lögðum til í fjvn. Auk þess sem að framan segir um afkomu atvinnuveganna, á það að vera öllum ljóst, að kaupgjald hér á landi er nú í algeru lágmarki. Það þýðir ekki að tala um góða eða örugga afkomu atvinnuveganna, nema þeir geti tekið á sig þá kauphækkun, sem hlýtur og verður að koma, ef afkoma þjóðarinnar á að vera í samræmi við afkomu þeirra þjóða, sem henni er tamast að bera sig saman við og almenningur getur við unað. Þessu verða allir hugsandi menn að gera sér grein fyrir. Þjóðin má ekki láta valdhafana blekkja sig, þó að afkoma hennar virðist hafa eitthvað batnað, en á meðan atvinnuleysi er viðloðandi getur enginn talað um öruggan bata hjá atvinnuvegunum. Hvernig er tekið á atvinnumálum í fjárlagafrv. ríkisstj. fyrir árið 1970? Það er gert með þeim hætti, að felldar eru niður 50 millj. kr., er veittar voru til atvinnumála í fyrra í gegnum Atvinnujöfnunarsjóð. Sá sjóður hafði fulla þörf fyrir þá fjárveitingu í ár og þó meira væri, til stuðnings við atvinnuvegina, enda þótt hann fái 30 millj. kr. frá álverksmiðjunni, eins og l. sjóðsins gera ráð fyrir. Atvinnumálan. ríkisins hefur nú yfir engu fé að ráða, svo að ekki er þar skjóls að leita þeim byggðarlögum og atvinnufyrirtækjum, er nú eiga í vök að verjast. Það á að vera þeim ljóst, er til atvinnumála þekkja, að mikið fjármagn þarf til stuðnings við atvinnuvegina og verklegar framkvæmdir ríkissjóðs, ef á að takast að útrýma atvinnuleysi. Í fjárlagafrv. er engin fjárveiting til aðstoðar bændum á Vestur– og Suðurlandi vegna hins mikla áfalls, sem þeir hafa orðið fyrir af völdum óþurrka á yfirstandandi ári. Það hefði þó ekki verið óeðlilegt. Þau dæmi finnast í fjárl. fyrri ára, að slík aðstoð væri veitt, þó að fjárl. væru þá lítið brot af því, sem nú er. Þá sorgarsögu er að segja af þessu fjárlagafrv., sem er að niðurstöðutölu um 8.000 millj. kr. og hækkar nærri um 1.000 millj. kr. frá árinu 1969, að þar er hvorki rúm fyrir aukinn stuðning við atvinnuvegi þá, sem nú starfa í landinu, né nýjungar, svo sem á sviði rannsókna. Von er, að þm. finnist, að fjárlagasmiðirnir hafi verið innilokaðir fjarri mannfólkinu, er þeir sömdu fjárlagafrv. Svo fjarri er það því, sem það þyrfti að vera til þess að leysa úr vandamálum þjóðarinnar.

Menntamál hafa verið í brennidepli í umr. þjóðarinnar í sumar. Þrátt fyrir fullyrðingar þær, er ég las nýlega í blaði menntmrh. um það, að þar væri allt í góðu lagi, þá er staðreyndin sú, að menntamálin eru ekki í lagi, það veit þjóðin. Til eru heil héruð, þar sem ekki er hægt að ljúka skyldunámi vegna skorts á skólahúsnæði, hvað þá lands– eða gagnfræðaprófi. Kennaranemum er nú í rauninni kennt úti á götum. Dyr Háskólans lokuðust í sumar, þó að ótti menntmrh. við harðfylgi nýstúdenta yrði þá til að hrinda þeim upp. Hvernig tekur fjárlagafrv. á þessum þýðingarmikla málaflokki? Fjárframlög til fjárfestingar í skólum hækka um 20 millj. kr. á gildandi fjárl. Helmingur þeirrar fjárhæðar er vegna ákvörðunar um byggingu barna– og gagnfræðaskóla, er tekin var í fyrra. Ný fjárveiting til allra skóla í landinu er því um 10–12 millj. kr. Þvílík framsýni! Ekki bendir þessi meðferð á fjárveitingu til menntamála til þess, að fjárlagasmiðirnir hafi komið út undir bert loft og heyrt rödd þjóðarinnar.

Heilbrigðismálin eru einn af þeim málaflokkum, sem þjóðin lætur sig miklu varða. Heil héruð eru læknalaus, læknastéttin berst fyrir nýskipan þessara mála, enda þótt sú skipan leysi ekki allan vanda og erfitt geti verið að koma henni við í einstökum héruðum sökum strjálbýlis og af landfræðilegum ástæðum, á hún þó mikinn rétt á sér. Brýna nauðsyn ber til að hrinda þeirri nýbreytni í framkvæmd, þar sem hagkvæmast er og félagslegur áhugi er til staðar. Á síðasta Alþ. voru samþ. lög um læknamiðstöðvar, lög, sem voru spor í rétta átt. En til þess að þau megi að gagni koma þarf fjármagn. Ekki hefur þjóðinni tekizt að láta fjárlagasmiðina heyra rödd sína í þessu máli frekar en öðrum, engin fjárveiting er til læknamiðstöðva á þessu fjárlagafrv. Einn af athyglisverðustu atburðum, er ég hef kynnzt á setu minni á Alþ., er áhugi sá, er konur og kvennasamtök landsins sýndu á s.l. vetri, þegar þær heimsóttu Alþ. í sambandi við umr. um framkvæmdir við fæðingar– og kvensjúkdómadeild Landsspítalans. Þær hafa heldur ekki látið sitja við það eitt í þessu máli, konurnar, heldur staðið fyrir fjársöfnun til málsins með miklum dugnaði og skörungsskap. Þessi svo að segja einstæði áhugi þeirra og dugnaður hefur haft þau áhrif, að tekin er 10 millj. kr. ný fjárveiting til fjárfestingar við fæðingardeild Landsspítalans. Það er meira en gerist um aðra málaflokka. Er þetta framtak kvennanna gott dæmi um það, hvað hægt er að komast, jafnvel með seinfæra valdhafa, ef samstöðu og dugnaði er beitt.

Samgöngumálin eru eitt af mestu áhugamálum þjóðarinnar. Till. ríkisstj. að nýrri vegáætlun, er lögð var fyrir Alþ. á s.l. vetri, var þannig úr garði gerð, að með réttu mátti halda fram, að hætta ætti við nýlagnir í þjóðbrautum og landsbrautum. Framkvæmdir í hraðbrautum fyrir eigið fé Vegasjóðs voru einnig af mjög skornum skammti. Hins vegar tókst með sameiginlegu átaki þm. úr öllum flokkum að koma þessum málum út úr verstu kreppunni. Árangurinn af þeirri iðju var m.a. sá, að það örlar aðeins fyrir fjárveitingu til vegamála umfram ákveðna tekjustofna Vegasjóðs á þessu fjárlagafrv., þar sem er lítils háttar fjárveiting til greiðslu á afborgunum og vöxtum af vegalánum, sem knúin var fram við afgreiðslu vegáætlunar á s.l. vori. Hins vegar er það jafnljóst nú sem fyrr, að við komumst jafnseint áfram við gerð varanlegra vega og önnur verkefni í vegagerð, er nauðsyn ber til að leysa hið bráðasta, ef styðjast á að mestu við lánsfé, þótt það geti átt rétt á sér að takmörkuðu leyti til að hraða framkvæmdum. Risastórar fjárhæðir fara til vaxtagreiðslna, ef unnið er fyrir lánsfé, sem að öðrum kosti gætu farið til framkvæmda, mundi það og verða Vegasjóði ofraun að standa undir greiðslum vaxta og afborgana af slíkum lánum, ef honum væri það ætlað. Stórlán til vegagerða yrði því að öllu leyti að verða ríkislán. Hvernig sem þessi mál eru skoðuð, verður niðurstaðan alltaf á sama veg, aukið óafturkræft framlag til vegagerðar verður að koma til. Við framsóknarmenn höfum áður lýst þeirri skoðun okkar og stefnu, að vegagerðin ætti rétt á því að njóta í ríkara mæli en nú er þeirra tekna, er umferðin skilar til ríkissjóðs, enda er engin leið eðlilegri til þess að bæta úr fjárþörf vegagerðarinnar. Því er hins vegar haldið fram, að hér sé eingöngu um ábyrgðarleysi af okkar hendi að ræða, þar sem ríkissjóður geti ekki af þessum tekjum misst vegna annarra þarfa. Því er til að svara slíkum staðhæfingum, að ríkissjóður hafði ekki tekjur til þess að mæta útgjaldaþörfum á s.l. ári, hann vantaði tekjur, er svaraði kostnaði við rekstur gagnfræðaskóla, svo dæmi sé nefnt, – átti að hætta þeirri starfsemi þess vegna? Nei, vegagerðin í landinu er eitt af verkefnum ríkissjóðs, eins og t.d. rekstur gagnfræðaskóla, þess vegna verður ríkisstj. á hverjum tíma að leysa það verkefni. Ég vil til viðbótar þessu varpa fram þeirri spurningu til þeirra, sem telja sig svo ábyrga: Hvernig var hægt að leggja vegi fyrir ríkisfé hér áður fyrr, þá var einnig hægt að nota féð í önnur verkefni, – áður en umferðin fór að gefa af sér tekjur, fyrst að við höfum ekki ráð á því nú að nota til vegagerðar megnið af því fé, sem frá umferðinni kemur? Ástæðan til þess, að við lögðum vegi á fyrri hluta þessarar aldar, var sú, að þá ríkti hér athafnasöm ríkisstj., stjórnarstefna, sem skapaði úrræði í fjármálum ríkissjóðs, þó að möguleikar væru þá harla litlir, miðað við það sem nú er. Ég vil í þessu sambandi undirstrika það, að við framsóknarmenn teljum þá stefnu ranga, er fylgt er í fjármálum ríkisins. Við teljum, að það úrræðaleysi, er henni fylgir, svo sem þetta fjárlagafrv., sanni, að stefnan er röng og við ranga fjármálastefnu má ekki miða getu ríkissjóðs.

Ég vil málstað framsóknarmanna til aukins stuðnings um meira fé til vegagerðar minna á það, að það eru tvær ríkisstofnanir í þessu landi, sem fylgja þessari stefnu í uppbyggingu sinna stofnana, þ.e. Landssíminn og sjónvarpið. Forstjóri Landssímans hefur að engu haft þær tilraunir ríkisstj. til að ná til þeirra tekna, er Landssíminn aflar, heldur notar þær eingöngu til reksturs og uppbyggingar í stofnuninni sjálfri. Hann hefur meira að segja verið það harður í horn að taka í vörn sinni við ásókn ríkissjóðs í fjármuni Landssímans, að hann hefur komið í veg fyrir, að söluskattur væri lagður á tekjur Landssímans. Með þessum hætti hefur Landssímanum tekizt að byggja kerfi sitt upp með undraverðum hraða og þannig lagt grundvöll að miklum tekjum stofnunarinnar í framtíðinni. Ég hef ekki heyrt því haldið fram, að það væri ábyrgðarleysi af forstjóra Landssímans að láta stofnun sína njóta þeirra fjármuna, sem hún aflar, þó að á því sé smjattað á opinberum vettvangi af ráðamönnum þjóðfélagsins og það jafnvel þeim, er sízt skyldi, að það sé eingöngu um ábyrgðarleysi af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni að ræða, er við gerum till. um að sækja vegafé til ríkissjóðs af því fé, sem umferðin færir honum. Ég spyr: Hvernig hefðum við byggt upp sjónvarpið í þessu landi nú, ef þessi stefna, að stofnunin nyti tekna þeirra, er hún óbeint aflar, hefði ekki fengizt viðurkennd og verið fylgt í framkvæmd? Sem fyrr hefur rödd þjóðarinnar ekki náð til þeirra, er fyrir fjárlagagerð standa. Er því ekki von, að þessu stórmáli sé sinnt í fjárlagafrv. þessu, nema að því leyti, sem það var knúið fram með sameiginlegu átaki þm. Það átak og samstaða kvennanna um fæðingardeildina færir okkur heim sanninn um það, að við þurfum hvort tveggja í senn samstöðu og dugnað til að hrinda þessu þjóðþrifamáli í framkvæmd og minna má þá menn á það, sem tekið hafa að sér félagslega forystu um umbætur í samgöngumálum, að meta það verkefni meira en þjónkun sína við pólitíska valdamenn.

Ég vil einnig taka það fram í sambandi við vegamálin, að mikla nauðsyn ber til að marka ákveðna stefnu um, hvort fara á í 1. áfanga frá malarvegi til steinsteyptra vega eða hvort olíumöl og malbik á að brúa það bil fyrst um sinn, sem ég tel eðlilegast til þess að hraða umbótum veganna. Er nauðsynlegt, að Alþ. marki stefnu þar um nú þegar? Ég vil, áður en ég skil við þennan þátt í ræðu minni, minna á það, að með sölu Esju úr landi leggst niður einn þáttur í samgöngumálum þjóðarinnar, sem eru hringferðirnar í kringum landið. Ég spyr: Er það að skapi þjóðarinnar, að þær leggist niður?

Raforkumálum er heldur ekki sinnt í þessu fjárlagafrv. nema með hangandi hendi. Engin stefna er mörkuð, hvenær þeim skuli lokið.

Það eru fleiri málaflokkar, sem þjóðin hefur áhuga fyrir, en þeir, sem ég hef þegar getið, sem einnig hafa farið fram hjá garði fjárlagasmiðanna. Sá málaflokkur, sem ég ætla nú að víkja að, eru skattamál. Nú í þrjú ár hefur sama skattvísitala gilt þrátt fyrir ákvæði skattalaga um gildi hennar sem mælikvarða á verðlag.

Tvær stórfelldar gengisbreytingar hafa verið framkvæmdar á þessum árum með öllum þeim verðlagshækkunum, sem þeim fylgja. Það er því með öllu óskiljanlegt, hvað því veldur, að persónufrádráttur til skatts skuli ekki hafa verið hækkaður. Það vekur undrun, að í fjárlagafrv. fyrir árið 1970 er gert ráð fyrir honum lítið breyttum, þar sem áætluð er 10% hækkun á tekjuskatti. Við það getur þjóðin ekki unað, að lagðir séu háir skattar á nauðþurftatekjur, eins og nú er gert. Persónufrádráttur verður að breytast í samræmi við breyttan framfærslukostnað. Auk þess þarf að breyta framkvæmdum við úrvinnslu skattaframtala, m.a. með því að taka upp útdráttarreglu.

Það sama er að segja um skatta á atvinnufyrirtæki. Í verðbólgu þjóðfélagi sem okkar verður sú regla að gilda, að afskriftir séu miðaðar við endurkaupsverð. Með öðru móti er fyrirtækjum með öllu gert ókleift að endurnýja sig. Eitt af því, sem hefur verið óskabarn núv. valdhafa, er skattur á skatt ofan á atvinnufyrirtæki landsins, sem nemur nú orðið háum fjárhæðum. Væri þörf hreingerninga þar til stuðnings við atvinnuvegina. Minni kröfur en að afskriftir miðist við endurkaupsverð geta fyrirtækin ekki gert til stjórnvalda, enda hefur skattbyrði og vaxtakostnaður átt verulegan þátt í lélegri afkomu íslenzkra atvinnufyrirtækja á síðari árum.

Herra forseti. Í ræðu minni hér að framan hef ég leitt rök að því, að fjárlagafrv. er mjög fjarlægt þjóðlífinu. Örlar þar hvergi á því, að gerð sé tilraun til að takast á við vandamál þjóðarinnar eða ryðja nýjum verkefnum braut. Enn fremur er það augljóst, að ríkissjóður er að komast í sjálfheldu, þar sem hann er rekinn með greiðsluhalla, eins og áður hefur verið rakið. Það sannar það, sem ég hef áður sagt, að ekki verður um deilt, að stefnubreyting verður að koma til. Sú stefna, sem koma þarf, er, að ríkisvaldið taki forystu um atvinnuuppbyggingu í landinu með áætlunargerð og með því að veita atvinnufyrirtækjum aðgang að fjármagni á hagkvæman hátt með stofn– og reksturslánum. Aðstoð verði veitt bæjar– og sveitarfélögum, sem taka að sér forystu um stofnun atvinnufyrirtækja með þátttöku almennings. Skattakerfinu verði breytt og viðurkennd verði eðlileg endurnýjun atvinnufyrirtækja fyrir eigið afskriftafé, að fé verði ekki dregið út úr atvinnurekstri til annarra nota, að ríkið taki beinan þátt í atvinnurekstri í sambandi við þau verkefni, sem eru stærri en svo, að einstök fyrirtæki eða byggðarlög ráði við þau.

Stefnan í atvinnumálum á að miðast við það, að fyrirtækjum sé gert kleift að greiða laun, sem séu sambærileg við launatekjur hjá þeim þjóðum, sem eðlilegt er, að við berum okkur saman við, enda er það forsenda þess, að byggð haldist og fólki fjölgi í landinu. Við eigum ekki að miða viðskipti okkar við aðrar þjóðir eða afkomu atvinnuveganna við það, að vinnuafl okkar sé ódýrara en með öðrum þjóðum gerist. Við þurfum hins vegar að keppa að því að auka kaupgetu og þar með viðskiptalíf og tekjur ríkissjóðs og velmegun þjóðarinnar. Ný stefna í ríkisbúskapnum verður að miða við það að tengja fjárlög ríkisins aftur við þjóðlífið með beinni þátttöku ríkissjóðs í þeim verkefnum, sem ríkissjóði ber að annast. Aðalreglan verður að vera sú, að þau verkefni verði greidd af samtímatekjum. Til þess að það megi verða, verður að velja verkefnin eftir gildi þeirra fyrir þjóðfélagið, en ekki taka þau þá fyrst til úrlausnar, er í vandræði er komið, eins og nú er gert. Það þarf að skapa sterkt aðhald í ríkisrekstrinum. Það verður að leggja niður úreltar stofnanir, sameina aðrar, þar sem það hentar og taka upp breytt vinnubrögð. Ég endurtek það, sem ég hef áður sagt á opinberum vettvangi, að áhrif ríkisrekstursins eru svo veigamikil í lífi þjóðarinnar, að takist að skapa þar aðhald og sterkt viðskiptalegt siðgæði, þá mun þess gæta í þjóðlífinu yfirleitt.

Eitt mesta vandamál, sem íslenzkur landbúnaður á nú við að stríða, er kal í túnum. Ræktuð lönd, sem kalin eru, skila ekki arði, þó að til þeirra hafi miklu verið kostað með dýrum áburði, vegna þess að rót plöntunnar er slitin frá jarðveginum og nær ekki að sækja þangað næringu. Fjárlagafrv. fyrir árið 1970 hefur á sér mörg einkenni kals. Sambandið á milli þjóðarinnar og ríkisins er að rofna, þar er að verða rótarslit. – Góða nótt.