27.01.1970
Efri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Því miður var ég ekki hér viðstaddur, áður en umr. lauk því ég hefði gjarnan viljað segja nokkur orð um þetta mál, en ég var bundinn við annað mál í Nd. Mér leyfist þess vegna kannske að segja örfá orð um atkv. mitt í þessu sambandi, af því að ég tel nauðsynlegt, að sjónarmið mitt komi hér fram.

Ég er efnislega sammála því, að nauðsynlegt er að leysa þann vanda, sem brtt. fjallar um, og hef raunar í viðræðum við formann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja talið rétt, að hann vekti athygli Alþingis á því við meðferð þessa máls, hvaða vanda hér væri um að ræða varðandi þá aðila, sem brtt. fjallar um, sem eru bæði opinberir starfsmenn, starfsmenn sveitarfélaga og verkamenn á stöðum, þar sem verkalýðsfélög eru ekki starfandi. Það hefur hins vegar komið í ljós, að ekki hefur orðið um það samkomulag hér í hv. n., sem hefur haft málið til meðferðar. Ég tel það vera grundvallaratriði, að það sé ekki knúin fram breyting á þessu, nema þá í samráði við verkalýðshreyfinguna, sem er aðili að þessari löggjöf, þannig að það mál þarf að kannast til hlítar. Það er vafalaust hægt með sérstökum aðgerðum að leysa vanda ríkisstarfsmanna í þessu sambandi, en vandamál hinna verður að leysa með beinum löggjafaratriðum. En með hliðsjón af því, að ekki hefur tekizt að ná því samkomulagi um lausn málsins, sem maður hefði jafnvel vonazt til, að gæti náðst hér, þá sé ég mér ekki fært og tel ekki hyggilegt að knýja fram breytingar á frv. með þessum hætti og segi því nei.