17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Eins og frsm. n. tók fram hér áðan, voru uppi hugmyndir um það, eftir að málið kom hér til meðferðar í hv. d. og kom til athugunar í n., að bera fram brtt. við það á þá lund, að nokkrir tugir manna, sem eru félagsbundnir í samtökum innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, fengju einnig aðild að eftirlaunasjóði aldraðra í stéttarfélögum. Þessar hugmyndir um breytingar urðu til þess, að málið náði ekki fram að ganga núna eftir áramótin, þegar þingið kom saman, og þurfti nokkurrar athugunar við í þessu sambandi. Öllum var samt augljóst, að það er ekki auðvelt að breyta lagasetningu, sem þræðir nákvæmlega áður gert samkomulag, og hefði a.m.k. orðið að fá samþykki beggja samningsaðila til að fara út fyrir samkomulagið, en þá um leið mjög hætt við, að opnaðar væru aðrar leiðir.

Ég vil þakka meðnm. mínum fyrir það, að þegar þeim var gert það ljóst, að það gætu verið ýmis tilfelli, þar sem meðlimir innan Alþýðusambands Íslands yrðu kannske, vegna litt hugsaðra ákvæða okkar, gerðra á einni nóttu í samningunum í maí í fyrra, útilokaðir frá því að njóta réttinda, og þannig kynnu að rísa mörg viðkvæm mál út af því, þá féllust þeir strax á það, að það væri ekki rétt að opna frv. nú fyrir nýjum aðilum, heldur bíða þess, að fyrsta reynsla fengist af framkvæmd málsins, og yrði þá opnaður möguleiki með bráðabirgðaákvæði um endurskoðun á I. Þannig er þessi breyting á bráðabirgðaákvæðinu gerð með algeru samkomulagi og til þess að opna möguleika á því, að jafnvel innan eins árs reynslu af l. verði hægt að framkvæma endurskoðun. Þess getur orðið full þörf. Það varð niðurstaðan hjá hv. Ed., að þær brtt., sem þar komu fram, náðu ekki samþykki, og frv. hefur því komið til þessarar hv. d. óbreytt, eins og samkomulagið, sem það byggir á, mælir fyrir um.

Frv. er, eins og hér var sagt áðan, flutt til staðfestingar á samkomulagi milli ríkisstj., verkalýðssamtakanna og atvinnurekendasamtakanna á s.l. vori til lausnar á kaupgjaldsdeilu, sem þá stóð yfir. Þá. var samið um það í leiðinni, að stofna skyldi á félagsgrundvelli lífeyrissjóði fyrir alla meðlimi Alþýðusambands Íslands og slíkir lífeyrissjóðir skyldu taka til starfa frá næstu áramótum. Þetta frv. snertir aðeins eina hlið þess máls. Þeir, sem nú byrja að greiða í lífeyrissjóðina, fá ekki bótaréttindi innan sjóðanna fyrr en að allmörgum árum liðnum, 15 árum, og hafa áunnið sér rétt með iðgjaldagreiðslum, eins og alkunnugt er um hliðstæða sjóði, þ.e.a.s. lífeyrissjóði. En okkur, sem að samningunum stóðum, fannst það lítt viðunandi og raunar óviðunandi að hugsa til þess, að þeir öldruðu verkamenn, sem nú væru að fara út af vinnumarkaðinum, þegar við vorum að semja, og áttu þess ekki neinn kost að gjalda í lífeyrissjóðina, fengju aldrei neitt af þeim að segja. Og þá varð niðurstaðan þessi, að ríkisstj. skuldbatt sig til að afla fjár, sem svaraði 15 ára iðgjaldagreiðslu þessa gamla fólks, sem nú væri að fara út af vinnumarkaðinum, þannig að það gæti fengið bætur greiddar úr þessum lífeyrissjóði strax eftir fyrsta ársfjórðung 1970. Ríkisstj. skuldbatt sig til að útvega þetta fé að 1/4 hluta úr ríkissjóði og 3/4 hlutum úr Atvinnuleysistryggingasjóði, og var á það sætzt. Þetta fé, sem þarna er um að ræða, nemur nokkuð mörgum tugum millj. kr. á ári, og verður þessum greiðslum haldið áfram í 15 næstu ár, þau 15 ár, sem þetta fólk hefði annars þurft að greiða iðgjöld til þess að öðlast lífeyrissjóðsréttindi. Það eru í raun og veru iðgjaldagreiðslur hins aldraða fólks, sem nú er að fara út af vinnumarkaðinum og hefur ekki neina tekjuvon aðra en ellilífeyrinn, svo naumt sem hann er nú skammtaður. Þessi samningsákvæði okkar og þetta frv. eiga að koma þessu gamla fólki til hjálpar.

Ég tek undir það, að málið kom fullseint fram og hefur orðið fyrir töfum, og skiptir því miklu máli, að það geti nú héðan af fengið skjóta og tafarlausa afgreiðslu, því að í raun og veru er allmikið verk óunnið enn. Verkalýðsfélögin eru að vísu alveg í þann veginn að ganga frá allri undirbúningsvinnu við stofnun lífeyrissjóðanna almennt, og ég geri ráð fyrir, að nú um þessi mánaðamót verði sú hlið málsins komin í höfn. En það er eftir að semja reglugerð á grundvelli lagasetningarinnar, og það þarf eiginlega allt saman að vera tilbúið, þegar á að koma til fyrstu greiðslna, núna eftir marzlokin. Þá er liðinn fyrsti ársfjórðungur þessa árs og þá verða fyrstu greiðslurnar að geta komið til aldraða fólksins, því að greiðslurnar í sjóðinn miðuðust við síðustu áramót og þannig er komið inn fé frá hendi ríkisstj., auk þess sem iðgjaldagreiðslur af launþegum og atvinnurekendum hófust um síðustu áramót. Ég hef heldur enga ástæðu til þess að ætla annað en málið fái héðan af mjög skjóta afgreiðslu. Það var aðeins þetta, sem tafði, að menn voru að athuga, hvort hægt væri á nokkurn hátt að rýmka lagasetninguna út fyrir samkomulagið, þannig að hún næði einnig til nokkurra tuga manna, sem höfðu þá sérstöðu, að þeir höfðu greitt til atvinnuleysistrygginganna og áttu þannig hlutdeild í því fé, sem er að verulegu leyti undirstaðan undir greiðslu fjármagnsins frá hendi ríkisins, með líkum hætti og meðlimir Alþýðusambandsins sjálfs. En það er augljóst mál, að það verða ekki aðeins nokkrir tugir, heldur kannske nokkur hundruð manna innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir barðinu á því, að ákvæðin í samkomulaginu eru of þröng. Hagir manna geta t.d. breytzt, og það er augljóst mál, að það fólk, sem hefur flutzt úr sveit og komið inn á vinnumarkaðinn, en er samt á þessu aldursskeiði, getur útilokazt vegna ákvæðis í samkomulaginu, því að á einum stað segir þar, að til réttindatíma skuli aðeins reikna þann starfstíma, sem hlutaðeigandi hefur verið félagi stéttarfélags innan Alþýðusambands Íslands. Nú hafa menn kannske flutzt af öðrum vinnumarkaði en þeim, sem réttindi veitir, eða félög hafa myndazt síðan samkomulagið var gert, og félagahópar, sem áður voru réttindalausir, hafa þar með öðlazt réttindi í Alþýðusambandinu. Út af þessu öllu saman geta risið viðkvæm vandamál, í viðbót við mörg önnur, sem ekki koma í ljós fyrr en farið verður að framkvæma l. eins og Alþ. gengur frá þeim.

Ég tek sem sé undir þá ósk, að málið fái skjóta afgreiðslu og hægt sé því að hefja það starf, sem ekki er hægt að inna af hendi fyrr en löggjöfin liggur fyrir.