17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína með þá sameiginlegu niðurstöðu, sem heilbr.- og félmn. hefur komizt að, þ.e., að það frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt frá Alþ.

Hér hefur verið á það minnzt, að þetta frv. er til staðfestingar á samkomulagi, sem gert var milli hæstv. ríkisstj. og verkalýðshreyfingarinnar í mjög erfiðum samningaviðræðum á s.l. vori og var einn þáttur í lausn þeirrar löngu kjaradeilu, sem staðið hafði þá yfir í margar vikur. Það liggur að sjálfsögðu í augum uppi, að samkomulag, sem gert er í slíkri deilu, er ekki sú lausn, sem við fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í þeirri samninganefnd hefðum talið æskilegasta. Til þess að ná samkomulagi verða báðir aðilar að falla frá ýmsu af því, sem þeir hefðu þó frekar óskað eftir, að með yrði haft. Okkur var þess vegna að sjálfsögðu ljóst, að á þessu samkomulagi kynnu að verða ýmsir vankantar í framkvæmd, og ég hygg, að við nánari athugun málsins hjá okkur liggi það enn þá ljósara fyrir, að það væri mjög auðvelt af okkar hálfu, eins og sagt var hér áðan, að flytja vinsælar brtt., sem tækju til ýmissa þeirra atriða, sem við þegar sjáum fyrir, að munu valda miklum erfiðleikum í framkvæmd. En við höfum hins vegar ekki talið rétt að gera það á þessu stigi málsins, heldur að fá nú fyrst reynslu af málinu í framkvæmd og taka það þá síðan til endurskoðunar, þegar sú reynsla er fengin.

Ástæðan fyrir því, að verkalýðshreyfingin taldi ekki aðeins nauðsynlegt að semja á s.l. vori um lífeyrissjóði, sem væru færir um að greiða ellilífeyri í framtíðinni, heldur taldi hún einnig nauðsynlegt, að nú þegar kæmu til lífeyrisgreiðslur til aldraðra félaga í verkalýðsfélögunum, er fyrst og fremst sprottin af þeirri reynslu, sem við höfum orðið fyrir í verkalýðshreyfingunni á undanförnum árum. Með miklum samdrætti á atvinnumarkaðinum og stórkostlegu atvinnuleysi er það staðreynd, að fyrst byrjaði þetta að bitna á eldri félögum okkar í verkalýðsfélögunum, þeim, sem voru að einhverju leyti vegna aldurs orðnir ófærari til atvinnu og til að afla sér atvinnutekna. Þeir voru fyrst látnir víkja út af vinnumarkaðinum. Þessi hópur félaga okkar í verkalýðsfélögunum, sem þannig hefur undanfarin ár orðið að ganga um atvinnulaus vegna aldurs og ekki haft annað til framfærslu en hinar allt of naumu bætur frá almannatryggingakerfinu, hefur því vægast sagt búið við mjög skarðan hlut í okkar þjóðfélagi á undanförnum árum. Það var því augljóst mál, að það yrði að rétta alveg sérstaklega hlut þessara manna, ef fjöldi þeirra ætti ekki að komast á algeran vonarvöl. Hitt er svo annað mál og það vil ég endurtaka, að okkur er ljóst, að í þessu frv. er ekki fólgið neitt allsherjar réttlæti gagnvart öldruðu fólki eða öldruðum launþegum innan verkalýðshreyfingarinnar eða utan, en væntanlega mun framkvæmd þessa frv. eða þessara laga, ef frv. verður samþ., sem ég vona, leiða til þess, að það verði þá fyrr en ella sniðnir af þeir vankantar, sem við óhjákvæmilega sjáum fyrir, þótt þeir sjáist kannske ekki allir nú þegar.

Ég vænti því, að hv. d. geti fallizt á að samþykkja frv., eins og það liggur nú fyrir, með þeirri brtt., sem fyrir liggur frá heilbr: og félmn.