20.11.1969
Neðri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Frv. þetta um viðaukasamning milli ríkisstj. Íslands og svissneska álfélagsins var lagt á borð þm. í gær og er tekið til 1. umr. í dag. Þetta er býsna flókið mál og margþætt, eins og frv. ber með sér, og erfitt að fjalla um það í heild efnislega með svona stuttum fyrirvara. Til þess mun að sjálfsögðu gefast tækifæri síðar, eftir að málið hefur farið til umr. í n. og hefur fengið þá könnun, sem óhjákvæmileg er. Meginatriði þessa frv. er að sjálfsögðu samningurinn um sölu á raforku, og í sambandi við þetta frv. er sjálfsagt að benda á það, að hér hefur að undanförnu verið rætt sérstaklega um raforkusamninginn við álbræðsluna. Borin hefur verið fram till. um skipun sérstakrar rannsóknarnefndar og um þá till. er nú verið að fjalla í þn. Ég tel, að það sé með öllu fráleitt að gera samning um viðbótarsölu á raforku til álbræðslunnar, fyrr en búið er að framkvæma þá rannsókn, sem þarna hefur verið lögð til. Ég tel, að þm. verði að vita það með óyggjandi vissu, hvort raforkuverð það, sem þarna er gert ráð fyrir, stendur undir framleiðslukostnaði eða ekki. Ég vil því leyfa mér að bera fram þá mjög eindregnu ósk til hæstv. ráðh., að þetta frv. um viðaukasamninginn verði stöðvað og það verði ekki tekið til afgreiðslu fyrr en búið er að framkvæma þá rannsókn, sem við höfum gert till. um. Ég tel það ósæmilegt með öllu, að alþm. taki nokkra ákvörðun um viðbótarviðskipti við álbræðsluna, fyrr en þeir hafa gengið úr skugga um, hvers eðlis þessi viðskipti eru og hvort þau eru okkur hagkvæm eða ekki.

Það urðu mjög langar umr. hér á þingi um raforkusamninginn, eins og kunnugt er. Og í lok þeirra umr. las hæstv. raforkumálaráðh. upp bréf frá bandaríska verkfræðifirmanu Harza. Það var eftir að ég hafði lokið ræðutíma mínum, svo að ég gat ekki gert neinar aths. við það þá og ætlaði mér raunar ekki að fara út í neinar almennar framhaldsumr. um raforkusamningana á þessu stigi málsins. En vegna þess, að það hefur verið staðhæft mjög í málgögnum hæstv. ríkisstj., að þetta Harza-bréf hafi gersamlega kveðið niður málflutning minn og hv. þm., Þórarins Þórarinssonar, vil ég leggja á það mikla áherzlu, að þessu fer víðs fjarri. Harza afneitar að vísu einum lið í hinni upphaflegu grg. sinni. Það afneitar þeim samanburði, sem verkfræðifirmað hefur þó birt ársfjórðungslega undanfarin ár á upphaflegri kostnaðaráætlun og kostnaði, eins og hann er núna, en sá samanburður Harza sýndi, að þarna var um að ræða 26% hækkun. Nú segir Harza, samkv. ósk hæstv. ráðh., að þessi samanburður hafi ekki verið raunhæfur. Pólitískar yfirlýsingar af þessu tagi skal ég láta liggja milli hluta, en á hitt vil ég benda, að tölum þeim, sem Harza birtir um endanlegan kostnað af virkjuninni, ber ákaflega vel saman við þær tölur, sem ég hef rakið í umr. Ég hef bent á það áður, að hæstv. raforkumálaráðh. lærði talsvert meðan umr. stóðu yfir, og þær tölur, sem hann var með, voru sífellt að nálgast þær tölur, sem ég hafði birt og þessar tölur frá Harza eru í ennþá meira samræmi.

Harza segir í bréfi sínu, að fyrri áfangi muni kosta 32.6 millj. dollara, en þá eru ekki meðtaldir vextir á byggingartíma, gengistap af innlendum kostnaði, skattar, tollar o.fl. Þá segir Harza, að það hafi fengið þá vitneskju frá Landsvirkjun, — það eru ekki tölur Harza heldur Landsvirkjunar, — að þessir kostnaðarliðir, sem ekki voru meðtaldir, nemi 6.3 millj. dollara. Þá er heildarkostnaður við fyrri áfanga kominn upp í 38.9 millj. dollara. Þá er ótalin gasaflsstöðin, sem Harza segir, að kosti 3.2 millj. dollara. En þá er heildarkostnaður við fyrri áfanga kominn upp í 42.1 millj. dollara eða 3700 millj. ísl. kr. Þetta er svo til alveg sama talan og ég var með hér í ræðu minni við 1. umr. fjárl. Og ef reiknað er orkumagn og rekstrarkostnaður á þann hátt, sem allir íslenzkir raffræðingar hafa gert við allar rafstöðvar á Íslandi, þá verður sú staðreynd ekki umflúin, að þessi heildarkostnaður, sem Harza gefur upp, jafngildir raforkuverði, sem nú er um 45 aurar á kwst.; tvöfalt meira en álbræðslan greiðir, og er þá meðgjöf okkar um 120 millj. kr. á ári, meðan svona er ástatt, að Búrfellsvirkjun starfar á hluta af endanlegum afköstum. Og ég endurtek það, sem ég sagði áðan: Þetta eru tölur Harza.

En hvað svo um síðari áfanga? Harza segir, að hann eigi aðeins að kosta 4.1 millj. dollara, og sömu tölur hefur hæstv. raforkumálaráðh. notað. Samt eru ekki liðnir nema 7 mánuðir síðan þessi sami hæstv. ráðh. lagði fram á þingi frv. um heimild til lántöku vegna síðari áfanga Búrfellsvirkjunar og greindi þar frá því, að síðari áfangi mundi kosta 7.5 millj. dollara. Ég hef þráspurt um það úr þessum ræðustól, hvernig farið sé að því að lækka þennan kostnað úr 7.5 millj. í 4.1 millj., eða um 3.4 millj., og það áður en nokkrar framkvæmdir eru hafnar. En ég hef ekki fengið neina skýringu. Ef við höldum okkur við þá tölu, sem hæstv. ríkisstj. gaf upp fyrir 7 mánuðum, þá verður heildarkostnaður af Búrfellsvirkjun 49.6 millj. dollara, en það er nákvæmlega sama talan og ég gaf upp í ræðu minni við 1. umr. fjárl. Ég held, að það skakki 5 millj. ísl. kr. Ef maður notar lægri töluna, sem fengin er með því að lækka þennan kostnað snögglega á algerlega órökstuddan hátt, þá verður heildarkostnaður engu að síður 42.6 millj. dollara, eftir þeim tölum, sem Harza gefur upp, og eftir þeim tölum, sem hæstv. ráðh. hefur notað. Og jafnvel með þeirri tölu leiðir heildarkostnaðurinn til þess, að framleiðslukostnaður á kwst. verður ekki undir 24 aurum. Hann verður allavega yfir því verði, sem álbræðslan greiðir. Þetta eru staðreyndir, sem menn verða að átta sig á, og ég ætlast til, að hver einstakur þm. kanni þessa hluti af eigin raun, taki ekki aðra aðila trúanlega, heldur sannfæri sig um það sjálfur, hvað er rétt og hvað er rangt í þessu máli. Þess vegna lít ég á það sem meginatriði, að rannsókn á þessu atriði verði lokið, áður en ákvörðun er tekin um viðbótarsamning á raforku til álversins.

En í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, langar mig að víkja örlítið að öðru atriði. Þegar samið var við álbræðsluna, var hún, sem kunnugt er, undanþegin öllum venjulegum sköttum og skyldum, en í staðinn átti hún að greiða fast framleiðslugjald, sem þá var ákveðið 20 dollarar eða 1760 kr. á núv. gengi á hverja lest. Og það var staðhæft, að þessi fasta greiðsla jafngilti því, að álbræðslan greiddi svipaða skatta og önnur fyrirtæki á Íslandi. En álbræðslan greiðir alls ekki þessa upphæð, eins og nú standa sakir, heldur var um það samið á sínum tíma, að hún greiddi aðeins 12.5 dollara. Það hafa að vísu orðið breytingar á þessum tölum núna, vegna verðhækkunar á áli, en hlutföllin eru hin sömu. Þessi mismunur hefur verið notaður til þess að greiða með raforkunni til Búrfellsvirkjunar, svo að hægt sé að bókfæra verðið á 26.4 aura í staðinn fyrir 22 aura. En hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða neina hækkun frá álbræðslunni. Þetta er aðeins meðgjöf úr ríkissjóði. Ríkissjóður sættir sig við lægri skatta en upphaflega var samið um, til þess að sú upphæð verði í staðinn notuð í sambandi við viðskiptin við Búrfellsvirkjun. Og hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Samkv. þeim samningi, sem hér liggur fyrir til umr., hefði álbræðslan átt að greiða 630 millj. kr. í framleiðslugjald til íslenzka ríkisins fram til 1. okt. 1975. Hins vegar mun álbræðslan aðeins greiða 393 millj. á þessu sama árabili. Mismunurinn er 237 millj. og það er framlag úr ríkissjóði Íslands til þess að greiða niður raforkuverð. Þessa niðurgreiðslu greiða Íslendingar að sjálfsögðu. En af hálfu stjórnarvalda verður þessi upphæð vafalaust notuð til þess að reyna að villa um fyrir almenningi um raunverulegt eðli þessara viðskipta.

Í grg. frv. og í ræðu hæstv. iðnmrh. hér áðan var viðbótarsala til álbræðslunnar á óbreyttu verði samt ekki fyrst og fremst rökstudd með því, að ágóði fáist af hverri kwst., heldur með hinu, að afkastageta Búrfellsvirkjunar sé svo mikil, að við þurfum ekki að nota alla orkuna, svo að það sé hagkvæmt að selja hana í stað þess að láta hana vera ónotaða. Greiðsla fyrir 20 MW í viðbót sé hreinn fjárhagslegur hagnaður fyrir Búrfellsvirkjun, vegna þess að annars hefði ekkert fengizt fyrir það orkumagn. En með röksemdafærslu af þessu tagi væri hægt að réttlæta hvaða viðskipti sem er og hvaða verð sem er. Jafnvel að það væri mannlegra og myndarlegra fyrir okkur að gefa raforkuna, en að láta þetta orkumagn ekki nýtast. En ef við höfum slík viðhorf í viðskiptum við erlendan aðila, þá erum við auðvitað að svipta okkur allri samningsaðstöðu. Í þessu felst það, að við teljum okkur ráðalausa og að við verðum að taka því, sem að okkur er rétt. En samningsaðstaða okkar er alls ekki svona léleg. Það er svissnesku álbræðslunni ákaflega mikið hagsmunamál að fá að stækka fyrirtæki sitt. Bræðslan er allt of lítil og þar af leiðandi óhagkvæm í rekstri. Og það er því stórfellt fjárhagsatriði fyrir hina erlendu eigendur að fá að stækka fyrirtækið. Við höfum fulla aðstöðu til þess að segja við viðsemjendur okkar, að við getum ekki selt þeim raforku nema tryggt sé, að greiðsla fyrir hverja kwst. standi a.m.k. undir kostnaðarverði. Og í tilefni af því, sem hæstv. iðnmrh. sagði hér áðan, að hann vissi ekki betur en Landsvirkjunarstjórn hefði staðið einhuga að slíkum samningum við álbræðsluna, þá get ég greint frá því, að þetta er ekki rétt hermt hjá hæstv. ráðh. Mér er kunnugt um það, að a.m.k. einn meðlimur Landsvirkjunarstjórnar lét bóka þann fyrirvara, að hann væri á móti raforkusölu, ef það væri ekki tryggt, að verðið stæði undir tilkostnaði okkar. Sú krafa, að við fáum greiddan kostnað við að framleiða raforku, er sannarlega ekki óbilgjörn. Og við þurfum ekki að standa frammi fyrir hinum erlendu aðilum sem neinir nauðleytamenn, vegna þess að það er hinn erlendi auðhringur sjálfur, sem hefur áhuga á að komast yfir orku okkar, breyta henni í markaðsverðmæti og flytja arðinn að verulegu leyti úr landi. Ég tel, að hæstv. iðnmrh. hafi haft allar forsendur til þess að halda fast á hagsmunum Íslendinga í þessu máli, og raunar hafði hæstv. ráðh. lofað Alþ. því, að þannig mundi hann halda á málum.

Ég hef minnt á það áður hér í umr. á þingi og ég vil minna á það enn, að í skýrslu, sem þessi hæstv. ráðh. gaf Alþ. skömmu áður en álsamningarnir voru gerðir, lagði hann á það mikla áherzlu, að það raforkuverð, sem samið hafði verið um í upphafi, væri svona lágt vegna þess, að þarna væri um að ræða tilraunastarfsemi, en við mættum ekki fallast á jafnlágt raforkuverð, ef samið yrði um aukin viðskipti. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að fara hér með nokkra kafla úr þessari skýrslu, sem hæstv. ráðh. lagði fyrir Alþ. Í henni segir svo á bls. 24:

„Í fyrsta lagi hugsar Swiss Aluminium sér að byggja hér á landi minnstu stærð alúminíumverksmiðju, sem til greina er talin koma, þ.e.a.s. með 30 þús. tonna ársframleiðslu. Hefur það greinilega komið fram af hálfu fyrirtækisins, að það treystir sér ekki til þess að taka meiri áhættu hér á landi, þar sem engin erlend fyrirtæki hafa reynslu af sambærilegri starfsemi hér. Svo lítil verksmiðja er hins vegar ekki eins arðbær og stærri verksmiðja, og þarf því á hagstæðari kjörum að halda.“

Neðar á sömu síðu segir svo:

„Að lokum er rétt að benda á, að líklegt er, að Swiss Aluminium mundi vilja teygja sig lengra, ef það fengi um leið fyrirheit um möguleika til stækkunar verksmiðjunnar með sæmilega hagstæðum kjörum. Það hefur hins vegar verið skoðun n., sem Alþjóðabankinn hefur einnig lagt áherzlu á, að Íslendingar ættu ekki að binda sig í þessu efni nema sem allra minnst. Vegna þess, að fyrsti áfanginn í stórvirkjunarmálum er sérstaklega erfiður hjalli fyrir Íslendinga, mundu þeir samningar, sem nú virðast mögulegir, geta orðið Íslendingum mjög hagstæðir. Á hinn bóginn er engin ástæða til þess, að jafngóð kjör yrðu í boði, ef til stækkunar kæmi, enda yrðu þá viðhorfin í virkjunarmálum allt önnur en nú. Ef allt gengur vel í þessum efnum, svo að Íslendingar teldu sér hag í frekari stækkun alúminíumverksmiðjunnar í framtíðinni, ættu Íslendingar að geta fengið svo að segja sömu kjör og Norðmenn þá byðu. Eftir því sem alúminíumverksmiðjur stækka, verða þær hagstæðari, svo að Swiss Aluminium mundi tvímælalaust hafa áhuga á stækkunum, ef aðstæður í alúminíumiðnaðinum væru þá enn svipaðar og nú. Kemur þetta m.a. í ljós af því, að fyrirtækið hefur lagt mikla áherzlu á, að nægilegt rými væri á verksmiðjusvæðinu til stækkunar, jafnvel allt að 160 þús. tonna ársframleiðslu.“

Þarna segir hæstv. ráðh., að ef fallizt verði á stækkun verksmiðjunnar, höfum við full rök til að fara fram á sama verð og Norðmenn fá, en þeir fá nú 3.2 mill í staðinn fyrir þau 2.5, sem við fáum. Á bls. 28 í þessari sömu skýrslu er enn fremur komizt svo að orði um afstöðu Alþjóðabankans:

„Alþjóðabankinn hefur lagt áherzlu á, að þau kjör, sem nú hefur verið rætt um að bjóða alúminíumbræðslunni, væru réttlætanleg vegna þeirrar þýðingar, sem alúminíumbræðsla hefur fyrir fjárhagslega afkomu 1. áfanga Búrfellsvirkjunar. Verði alúminíumbræðslan stækkuð í framtíðinni, telur bankinn hins vegar ekki rök fyrir því að bjóða jafnhagkvæm kjör. Hann leggur því áherzlu á, að samningar við Swiss Aluminium nú innihaldi ekki óeðlilega hagstæð skilyrði fyrir stækkun bræðslunnar í framtíðinni.“

Á bls. 30 og 31 er enn fremur komizt svo að orði um þetta atriði, undir fyrirsögninni: Framtíðarmöguleikar: „Það hefur verið lögð áherzla á það í þessari skýrslu, að bygging alúminíumverksmiðju af þeirri stærð, sem um hefur verið talað, hafi mikla þjóðhagslega þýðingu, þó að ekki megi á þessu stigi málsins binda hendur Íslendinga með viðskiptalegum skuldbindingum um stækkun hennar. Á hinn bóginn er það mikilvægur þáttur þessa máls, að það má telja víst, að alúminíumframleiðsla hafi mikla vaxtarmöguleika hér á landi, ef Íslendingar telja hagkvæmt að nota þá. Hins vegar er byrjunin alltaf langerfiðust, en eftir að 30 þús. tonna verksmiðja hefur verið byggð af Swiss Aluminium hér á landi, hlýtur samningsaðstaða Íslendinga varðandi frekari stækkun að verða miklu betri en ella.“

Ég vil fara með þessa kafla alla til þess að sýna hvað mikla áherzlu hæstv. ráðh. lagði á þetta, þegar hann var að gefa Alþ. fyrirheitin um áframhald þessara samninga. Enn segir hann svo í lokin sem ályktunarorð:

„Æskilegt er, að slíkir samningar feli í sér sem minnstar skuldbindingar varðandi stækkun alúminíumverksmiðjunnar í framtíðinni, þannig að áframhaldandi þróun þessa iðnaðar fari eingöngu eftir reynslu Íslendinga af þessum 1. áfanga og efnahagslegum hagsmunum Íslendinga í framtíðinni.“

Ég tel, að hæstv. iðnmrh. beri skýlaus skylda til þess að standa við þessi fyrirheit, sem hann gaf Alþ., og ég tel, að Alþ. beri að tryggja það, að við þessa stefnu verði staðið.

Ég vil raunar benda á enn eitt atriði í þessu sambandi, sem ég geri ráð fyrir, að allmargir hv. alþm. kannist við. Það hefur verið rætt um það, að nú fljótlega verði lögð fyrir Alþ. till. um, að Íslendingar gerist aðilar að EFTA. Það er á allra vitorði, að álfélagið hefur lagt á það mikla áherzlu, að það teldi sér það ákaflega hagkvæmt, ef Íslendingar gengju í EFTA; félagið teldi það samsvara verulegum tekjuauka fyrir sig. Og því hefur verið haldið fram, að Íslendingar yrðu látnir njóta þess, ef þeir héldu þannig á málum, að álbræðslan gæti notið þess, að fyrirtæki hér væru innan EFTA. Þetta hefði einnig verið röksemd fyrir hæstv. ráðh. að nota í samningum sínum um raforkuverð, en jafnvel þótt þessi röksemd hafi einnig verið á hendi ráðh., þá er árangurinn ekki annar en þessi, að það er talað um óbreytt raforkuverð.

Ég hef áður vikið að því hér á þingi, að mér þótti aðferð hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál mjög óeðlileg. Hann skrifaði fyrst undir samning og hafði þar fyrirvara um það, að undirskriftin tæki því aðeins gildi, að Alþ. samþykkti hana. En í þessari aðferð er það að sjálfsögðu fólgið, að hæstv. ráðh. kemur með þetta frv. hingað sem eins konar úrslitakosti. Hann kemur ekki fyrst til Alþ. til að spyrja okkur, upp á hvaða býti sé unnt að semja við álbræðsluna, heldur semur hann fyrst og kemur síðan á eftir og krefst þess að Alþ. fallist á það, sem hann hefur gert. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að ef Alþ. leyfði sér að breyta einum stafkrók á þessum samningum, þá væru þær undirskriftir, sem gerðar hafa verið, ógildar með öllu, þá yrðu að fara fram nýjar viðræður og nýjar undirskriftir. Ég hygg, að svo hljóti að vera, það liggur í hlutarins eðli, en vinnubrögð af þessu tagi eru að sjálfsögðu ótæk með öllu. Í sambandi við svona mál bar hæstv. ráðh. að kynna sér fyrst viðhorf Alþ. og reyna síðan að halda á þeim viðhorfum í samningum við hinn erlenda aðila.

Í umr. um þetta frv. verður að sjálfsögðu ekkert sagt um almenna gagnsemi þessara viðskipta milli Búrfellsvirkjunar og álbræðslunnar. Við höfum heyrt og séð almennan áróður af þessu tagi, og okkur hefur verið sagt, að Búrfellsvirkjun og þessir samningar við álbræðsluna hafi tryggt Íslendingum mun lægra raforkuverð en menn hefðu annars orðið að greiða. En hver er reynsla manna af þessari staðhæfingu? Ég vil enn ítreka spurningu, sem ég hef borið hér fram áður: Hvað er ætlunin að hækka raforkuna til Íslendinga mikið um næstu áramót? Er það satt, að ætlunin sé að hækka útsöluverð á raforku frá Landsvirkjun um allt að því 30% um næstu áramót? Í því yrði það þá fólgið, að heildsöluverð á raforku frá Landsvirkjun hefði hækkað um allt að því 50% á einu ári. Ef það gerist, þá veit almenningur af sinni eigin reynslu, hver einasti viðskiptavinur rafstöðva á Íslandi, hverjir hafa farið með rétt mál í þessum umr.