20.11.1969
Neðri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég fagna því, að hæstv. iðnmrh. hefur lýst yfir því, að hann telji ekki ástæðu til þess að afgreiða þetta frv. fyrr en búið er að gera þá grein fyrir framleiðslukostnaði á raforku frá Búrfellsvirkjun, sem þm. telja viðunandi. Ég lít á þetta sem óhjákvæmileg vinnubrögð, og það er að sjálfsögðu fagnaðarefni, að hæstv. ráðh. er á sömu skoðun um það efni. Hæstv. ráðh. kvaðst ekki vilja á þessu stigi ræða raforkuverðið, og mun ég því ekki fara frekar út í það. Mig langar aðeins að víkja örfáum orðum að nokkrum atriðum, sem hæstv. ráðh. minntist á í ræðu sinni, og vék þar aðallega að því, sem ég sagði í ræðu minni hér áðan.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að skýrsla sú, sem ég vitnaði til, hefði verið miðuð við 60 þús. tonna verksmiðju. (Gripið fram í.) Þessi ummæli, sem ég vitnaði til hér, voru öll miðuð við 30 þús. tonna verksmiðju og því var haldið fram sem röksemd, að það væru ekki rök fyrir því að semja um óbreytt raforkuverð, ef hún yrði stækkuð frá 30 þús. tonnum. Þetta kemur fram hér á bls. 24. Þar er verið að tala um 30 þús. tonna ársframleiðslu og í mörgum af þessum tilvitnunum. Eg get farið með þetta aftur fyrir hæstv. ráðh., ef hann vefengir þetta. Röksemdafærslan var öll miðuð við 30 þús. tonna verksmiðju, og þar var því haldið fram, að ef samið yrði um stækkun verksmiðjunnar, væru ekki rök fyrir því að hafa óbreytt raforkuverð, heldur gætum við farið fram á sama raforkuverð og Norðmenn fá. Þetta var málflutningur hæstv. ráðh. nokkru áður en samningurinn var gerður, og hann var miðaður við það ástand, sem hefur verið hér á Íslandi, 30 þús. tonna álbræðslu.

Hæstv. ráðh. vék að því, að það væri ekki ástæða til þess að óttast, að framtöl álbræðslunnar yrðu ekki rétt, því að í stjórn væru tveir fulltrúar ríkisstj., sem gætu fylgzt með þeim málum, eftir að hafa fengið langa reynslu af því, því að þetta kæmi ekki til fyrr en eftir alllangan tíma. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að álhringurinn ræður yfir öllum framleiðsluferlinum frá námum og upp úr, þannig að hann hefur það á valdi sínu að ákveða verðlag á hverju einstöku þrepi þessarar framleiðslu. Hann getur hagað málum þannig að taka meira fé í sambandi við námugröftinn, minna við bræðsluna o.s.frv. Þetta er algerlega á valdi hins erlenda aðila, og í þessu þarf ekki að vera fólgin nein þess háttar fölsun, sem reikningsvísir menn, fulltrúar hæstv. ríkisstj., geti vefengt. Þarna er um að ræða atriði, sem allir þekkja, sem hafa einhverja vitneskju um starfsemi hringa af þessu tagi, að þeir geta hagrætt málum á þennan hátt, eftir því sem þeim hentar. Og að sjálfsögðu vofir þessi vandi yfir okkur einnig.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að það væri í sjálfu sér réttmæt aths., að þetta væri ekki góð aðferð, að gera fyrst samning, en leggja hann síðan fyrir þing sem eins konar úrslitakosti. Ég skal á móti fallast á það við hæstv. ráðh., að stjórnarvöldum er vissulega vandi á höndum, þegar um slík verkefni er að ræða. En ég held, að það sé mjög auðvelt að tryggja nánari samvinnu Alþ. og ríkisstj., þegar þannig stendur á. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri skylda ríkisstj. að kynna sér afstöðu þm. til slíkra mála, áður en frá þeim væri gengið. Mér er ekki kunnugt um það, að hæstv. iðnmrh. hafi gert neina slíka tilraun, a.m.k. ekki að því er snertir þann flokk, sem ég er í. Ég held, að það sé víða sá háttur á hafður erlendis, þar sem ég þekki til, að ríkisstj. kveður til þn. til þess að fjalla með sér um slík mál, og geri ég þá ráð fyrir því, að nm. hafi samband við flokka sína. Þetta hefur hæstv. ríkisstj. gert í sambandi við sum mál, sem fram hafa komið seinustu árin, en hæstv. iðnmrh. sá ekki neina ástæðu til þess að hafa þennan hátt á í sambandi við þetta mál. Og ég verð að telja, að þetta sé óeðlileg aðferð og að hæstv. ráðh. hafi þarna ekki haft þá samvinnu við Alþ., sem honum ber að hafa.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um verksmiðjur í Bretlandi, — hann hefur oft minnt á það áður hér, — að brezk stjórnarvöld hafi lagt fram stofnkostnað til álbræðslu, 30–40%, vil ég minna á það, að þetta er gert til þess að fá álbræðslur til þess að fallast á raforkuverð, sem er mun hærra en almennt gerist. Raforkuverð til þessarar verksmiðju í Bretlandi er æ hærra en almennt gerist í Evrópu og langtum hærra en verðið á Íslandi. Þetta er gert til þess að fá bræðslurnar til að fallast á það óhagkvæma raforkuverð, sem þarna er um að ræða, og þetta verða menn að taka með í reikninginn, ef þeir eru að bera þetta saman.

Sú hækkun raforkuverðs, sem vitað er að von er á, er ekki afleiðing af gengislækkunum. Það er kunnugt, að ráðamenn Landsvirkjunar hafa haft miklar áhyggjur af því, að afkoma Búrfellsvirkjunar sé ekki eins góð og Alþjóðabankinn gerði að skilyrði á sínum tíma. Og Landsvirkjun hefur fengið um það vísbendingu frá Alþjóðabankanum, að hann hafi áhyggjur af því, að afkoman sé of léleg. Þetta stafar að sjálfsögðu af því, að raforkusamningurinn við álbræðsluna hefur reynzt óhagkvæmur, og þessi met er reynt að jafna með því að hækka verðið á raforku til Íslendinga í staðinn. Þessi hækkun er, eftir því sem horfur eru á núna, allt að því 50% á einu ári. Og í þessu er auðvitað ekkert annað fólgið en það, að það er verið að leggja kostnað á landsmenn til þess að rísa undir þessum óhagkvæmu viðskiptum við álbræðsluna.