20.11.1969
Neðri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Já, svona gera þeir þetta í Bretlandi. Þeir gefa upp 40% af kostnaðarverðinu vegna rafmagnsins, af því að rafmagnsverðið er svo hátt. En er þetta ekki það sama og að láta verksmiðjurnar, sem þarna eru reknar, fá allt annað rafmagnsverð heldur en aðrir neytendur í Bretlandi fá. Ég hefði haldið það. En þetta skiptir ekki miklu máli.

En út af meðferð málsins vil ég aðeins segja þetta: Hv. þm. kannast ekki við, að ég hafi leitað til hans eða hans flokks um meðferð þessa máls. Það er alveg rétt, og heldur ekki til hins stjórnarandstöðuflokksins. En ég vil minna á það, að ég lagði fram í þinginu grg. um efni málsins í maí, og þess vegna vissu stjórnarandstöðuflokkarnir fullkomlega hvað var í uppsiglingu, og þá var auðvitað tími til, ef þeir vildu óska eftir einhverri hlutdeild og samvinnu um málið af þeirra hálfu, að hafa samband við mig, eins og ég hefði frekara samband við þá heldur en að segja þeim í maímánuði, hvað til stæði, því þá var ekki neitt undirskrifað og engin binding komin í málið.