12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm.1. minni hl. (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Á þskj. 390 hef ég gert grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Frv. þetta er flutt til staðfestingar á viðaukasamningi ríkisstj. við Swiss Aluminium um stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík. Í þessum viðaukasamningi er gert ráð fyrir því, að sama raforkuverð verði til álversins og upphaflega var samið um. A sínum tíma, þegar samningarnir um byggingu álverksmiðjunnar í Straumsvík voru samþykktir, var uppi mikil deila um raforkuverðið. Í grg., sem þá var lögð fyrir Alþ., var áætlað, að framleiðslukostnaðarverð frá Búrfellsvirkjun yrði um 21.1 eyrir á kwst., en samningurinn gerði ráð fyrir 22 aura söluverði á kwst. til álversins. Hagnaður átti því að verða á sölu raforkunnar.

Það var skoðun okkar Alþýðubandalagsmanna og raunar miklu fleiri á þeim tíma, að þetta áætlunarverð væri of lágt reiknað og mundi í raun reynast of lágt. Söluverðið yrði því lægra en framleiðslukostnaðarverðið. Nú hefur það komið í ljós, að byggingarkostnaður þessa áfanga Búrfellsvirkjunar hefur orðið hærri en áætlað var, enn fremur, að lánskjör hafa einnig orðið óhagstæðari en reiknað var með, og í þriðja lagi hefur stofnkostnaður gufuaflsstöðvarinnar farið fram úr áætlunum. Ef gengið væri út frá sömu forsendum við útreikninga á framleiðslukostnaðarverði raforkunnar frá Búrfelli og gert var í upphaflegum áætlunum, þá er ekki nokkur efi á því, að kostnaðarverð raforkunnar frá Búrfelli liggur nú nokkuð yfir söluverðinu til álversins.

Þegar Alþ. tók ákvörðun um að heimila Swiss Aluminium að byggja verksmiðjuna í Straumsvík, lagði ríkisstj. ýtarlega skýrslu fyrir Alþ. varðandi það mál, í maímánuði 1965. Þar var skýrt frá og gert ráð fyrir því, að við yrðum að semja við þennan erlenda aðila um raforku á lægra verði en Norðmenn höfðu þá samið um við þennan sama aðila, um sölu á raforku til álverksmiðju í þeirra landi. Skýringarnar, sem gefnar voru fyrir þessu, voru þær helztar, að við værum hér með byrjunarframkvæmdir og ýmsir örðugleikar væru þess vegna, og eins hitt, að sú verksmiðja, sem hér stóð til að byggja, væri af minni gerð heldur en norsku verksmiðjurnar, þ.e. frekar lítil verksmiðja. En í þessu áliti eða þessari skýrslu kom það mjög greinilega fram, að gert var ráð fyrir því, að ef um stækkun á álverksmiðjunni yrði að ræða, þyrftum við ekki að sæta þeim kostum, sem við yrðum að gera í upphafi samninganna. Í þessari skýrslu ríkisstj. segir svo, með leyfi forseta, á bls. 24:

„Á hinn bóginn er engin ástæða til þess, að jafngóð kjör yrðu í boði, ef til stækkunar kæmi, enda yrðu þá viðhorfin í virkjunarmálum allt önnur en nú.“

Á bls. 28 segir enn fremur, og það snertir sérstaklega það álit, sem Alþjóðabankinn hafði á þessum málum, — það kemur raunar víða fram í skýrslunni, að Alþjóðabankinn taldi þetta verð í lægsta lagi, — og um framtíðina segir svo, á bls. 28:

„Verði alúminíumbræðslan stækkuð í framtíðinni, telur bankinn hins vegar ekki rök fyrir því að bjóða jafnhagkvæm kjör. Hann leggur því áherzlu á, að samningar við Swiss Aluminium nú innihaldi ekki óeðlilega hagstæð skilyrði fyrir stækkun bræðslunnar í framtíðinni.“

Það mætti nefna ýmislegt fleira úr þessari skýrslu, sem er á þessa lund, en eins og ég sagði, þá kom það mjög greinilega fram, að reiknað var með því, að við stækkun verksmiðjunnar yrði annað uppi á teningnum varðandi raforkuverðið.

Þessar tilvitnanir sýna það, að Íslendingar áttu að geta búizt við mun hagkvæmari samningum um raforkusölu til álversins, þegar verksmiðjan yrði stækkuð, og það var í rauninni viðurkennt þá af fulltrúum stjórnarflokkanna, sem með samningana höfðu farið, að söluverð raforkunnar til álversins væri í lægsta lagi.

Það hefur svo mikið verið rætt hér um raforkuverðið til álversins og einnig um kostnað við Búrfellsvirkjun o.s.frv., að ég ætla ekki að fara að rekja það neitt nánar núna, það kemur sjálfsagt á dagskrá bráðlega. En meginástæða þess, að ég get ekki fylgt þessu frv., er sú, að raforkuverðið er nú ákveðið hið sama í þessum viðaukasamningi og upphaflega var gert til álversins. Ég tel, að þetta verð sé óeðlilega lágt og það sé í engu samræmi við það, sem kom fram, þegar upphaflegu samningarnir voru gerðir um verðlag á raforkunni, þegar til stækkunar kæmi.

Rök sem þau, að það borgi sig fyrir okkur að selja umframorku Búrfellsvirkjunar fyrir eiginlega hvað sem er, eru engin rök. Þeir, sem hugsa þannig, hafa tapað allri samningsstöðu fyrir fram. Slík samningsstaða er algerlega vonlaus frá upphafi. En væri nú talið hagkvæmt að selja umframorkuna fyrir miklu lægra verð en kostnaðarverð, þá er heldur enginn efi á því, að það mundu finnast margir íslenzkir aðilar, sem gjarnan vildu nota sér þau kjör. Það ber einnig að hafa í huga, að það er ekki bara hagur okkar að selja raforkuna. Það er ekki í gustukaskyni við Íslendinga, að álverksmiðjan kaupir raforkuna. Hún gerir það í hagnaðarskyni, og Swiss Aluminium stækkar ekki heldur verksmiðjuna í góðgerðaskyni við Íslendinga. Auðhringurinn gerir það af eigin hagsmunum. Ég held, að á þennan veg verði að hugsa, þegar slíkir samningar eru gerðir.

Ég hef engan áhuga á því að stela þessum glæp frá ríkisstj. og stjórnarflokkunum, eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það, og ég legg því til, að þetta frv. verði fellt.