12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil þakka n. fyrir afgreiðslu þessa máls, þó að afgreiðsla þess hafi nokkuð dregizt, en það er ekki að því að finna, því um það var samkomulag á milli þm. og einnig samkomulag við mig sem iðnmrh. Mér þykir vænt um og ég fagna þeirri samstöðu um frv., sem náðst hefur í n. Þó að það sé ekki einróma samstaða, þá tel ég það hins vegar mikils virði, að mikill meiri hl. n. mælir með samþykkt frv.

Frsm. 2. minni hl., hv. 4. þm. Reykv., sem nú lauk máli sínu, ræddi þetta mál efnislega og ádeilulaust, þó það sé hins vegar ekki svo, að ég geti fallizt á allar hans niðurstöður í efnisumr. hans um málið. Hins vegar fjallaði hann um þá þætti málsins, sem eðlilegt er að menn þurfi að meta og leggja til grundvallar því, hvort þeir vilji vera með þessu frv. eða ekki, og niðurstöðurnar eru aðalatriðið, þar sem 2. minni hl. lýsir fylgi sínu við frv. og telur, að ég hygg réttilega, að það bæti mjög mikið greiðslustöðu og tekjuafgang Landsvirkjunar á næstu árum og einnig, eins og þeir benda á í sínu nál., að við þá stækkun, sem hér er um að ræða, og líka við aukinn hraða framkvæmda, þá aukist verulega tekjur af framleiðslugjaldinu.

Hvaða ástæður liggi hins vegar til þess, að greiðslustaða Landsvirkjunar sé svo slæm á næstunni, það yrði auðvitað meiri ágreiningur um það, og ég skal aðeins að litlu leyti víkja að því. Hv. frsm. 2. minni hl. lagði það til grundvallar, hversu stórkostlega allar áætlanir hefðu brugðizt. Nú hafa áætlanir brugðizt, það er rétt, en að við getum talað um að allar áætlanir hafi brugðizt stórkostlega, það er allt of djúpt í árinni tekið. Stofnkostnaðaráætlunin er næstum því hin sama og upphaflega var gert ráð fyrir, því að samkvæmt þeim upplýsingum, sem liggja hér fyrir í öðru þskj., sem ég skal ekki fara út í að þessu sinni, upplýsingum ameríska ráðgjafarfyrirtækisins Harza, sem fram hafa verið lagðar, ásamt tölum úr bókum Landsvirkjunar, er áætlaður stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar nú talinn 43 millj. dollara, en var árið 1966 áætlaður 42,8 millj. dollara. Það er svo hins vegar rétt, að síðan ýmsar grg. voru samdar 1964 og áætlanir gerðar 1966 hefur margt skeð hér á landi og í umheiminum, sem hefur raskað áætlunum. Hv. frsm. minni hl. nefndi þar m.a. gengisfellingarnar hjá okkur, sem eru afleiðingar af þeim stóru áföllum, sem við Íslendingar urðum fyrir á árunum 1966 og 1967, og vissulega stæðum við öðruvísi að vígi, ef þau áföll hefðu ekki dunið yfir okkur. Og m.a. af gengisfellingunum leiðir annað atriði, sem hefur þau áhrif, að áætlanir standast ekki fullkomlega, og það er orkuspáin. Orkuspáin stenzt ekki, því neyzlan á raforku minnkaði eflaust einmitt vegna þeirra efnahagserfiðleika, sem þjóðin lenti í á árunum 1967 og 1968. Menn spara meira við sig raforku og þess vegna reynist sú orkuspá, sem grundvölluð var fyrir þann tíma, ekki rétt, þegar til á að taka, og veldur erfiðleikum. Og þar sem við erum nú svo vanir því, að sjá svona furðulegar áætlunargerðir bornar saman við veruleikann hér á landi, held ég að okkur megi í stórum dráttum þykja furðulegt, hversu vel þær áætlanir, sem gerðar hafa verið og lagðar fram í sambandi við Landsvirkjun og álbræðslu, hafa staðizt. Það er rétt, að það komi fram, að áætlanir erlenda fyrirtækisins um byggingu álbræðslunnar hér á landi stóðust í verulegum atriðum. Og með svo stórt fyrirtæki getur það talizt einsdæmi hjá okkur.

En ef ég má aðeins minnast á nokkur atriði úr framsöguræðum og nál., þá er hjá báðum minni hl. n. og í framsöguræðum bent á, að fyrr hafi verið lagðar fram skýrslur, sem ekki hafi staðizt, og svo eru dregnar af því ályktanir, eins og t.d. þegar hv. 4. þm. Reykv. vitnar í skýrslu stóriðjunefndar frá 1964, þar sem lögð er áherzla á að fá hagstæð lán til langs tíma. Þetta hafi svo alls ekki staðizt, og þar af leiðandi, af því að menn hafi ekki haft nóga fyrirhyggju til að áætla rétt þarna, þá þurfum við nú að horfast í augu við erfiðleika. En það er ekki nema nokkrum línum neðar en hv. 4. þm. hætti að lesa, sem nál. hans sjálfs segir eftirfarandi:

„Líklegt er, áð vaxtakjör Alþjóðabankans yrðu nokkru betri en þetta,“ þá er verið að tala um 6% vexti, „en hins vegar eru ekki líkur til, að Ísland eigi kost á jafnhagstæðum lánum á hinum almenna lánamarkaði eins og gert var ráð fyrir í raun og veru að við þyrftum á að halda.“

Það er sem sagt beinlínis gert ráð fyrir því, að það séu ekki líkur fyrir því, að við eigum kost á þeim hagstæðu lánum, sem svo mikils virði yrðu fyrir þessa virkjun, enda varð sú raunin á, og það var m.a. vegna þeirra miklu sveiflna, sem þá var ekki hægt að sjá fyrir, sem á alþjóðapeningamarkaðinum hafa orðið. Vaxtakjörin hafa versnað svo gífurlega bæði á amerískum peningamarkaði og evrópskum, að þegar þessar áætlanir voru gerðar, þá býst ég við, að vaxtarkjör hafi verið kannske 4–5% í mörgum tilfellum, sem nú samsvarar 8–9% vöxtum á alþjóðlegum peningamarkaði. Það eru ótrúlegar stökkbreytingar, sem þarna hafa átt sér stað og ekki er hægt að ásaka neinn fyrir að hafa ekki séð fyrir, en það er alveg rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að auðvitað hafa svo erfið vaxtakjör og styttri lánstími það í för með sér, að það þarf að horfast í augu við aðra erfiðleika og meiri heldur en menn ella hefðu búizt við.

Frsm. 1. minni hl., hv. 2. landsk. þm., telur sig ekki geta fylgt þessu frv. En ég held, að ástæðurnar, sem hann telur fyrir því í sínu nál. og áréttaði í ræðu sinni, séu á misskilningi byggðar. Hann telur að vísu, að það hafi verið samið um óbreytt raforkuverð til álverksmiðjunnar og það sé of lágt, — og um það skulum við ekki deila núna og leiða hjá okkur, eins og aðrir ræðumenn hafa gert, — og það sé ekki í samræmi við þær yfirlýsingar stjórnvalda, sem gefnar voru um hækkandi raforkuverð, ef til stækkunar samningsins kæmi. Þetta er á misskilningi byggt. Og þetta áréttaði hv. 4. þm. Reykv. líka í sinni ræðu, því að við, sem stóðum að þessu máli, hefðum í skýrslu um stórvirkjanir og álbræðslu gert ráð fyrir því, að þegar samið yrði næst, yrði raforkuverðið hærra. En hér verður að lesa betur heldur en hv. þm. virðast hafa gert í sínum nál. og sínum framsögum. Þeir vitna til nefndarskýrslu á bls. 24, — þetta er í nál. minni hl.,— og ég efast ekki um, að það sé rétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Á hinn bóginn er engin ástæða til þess, að jafngóð kjör yrðu í boði, ef til stækkunar kæmi, enda yrðu þá viðhorfin í virkjunarmálunum allt önnur en nú.“ Ég bið menn um að taka eftir þessu. „Ef allt gengur vel í þessum efnum, svo að Íslendingar teldu sér hag að frekari stækkun alúminíumverksmiðjunnar í framtíðinni, ættu Íslendingar að geta fengið svo að segja sömu kjör og Norðmenn þá byðu.“

Þetta segir í okkar skýrslu. — Um afstöðu Alþjóðabankans í þessu efni segir svo, á bls. 28 í sömu skýrslu: „Verði alúminíumbræðslan stækkuð í framtíðinni,“ ég bið menn um að undirstrika þessi orð líka, „telur bankinn hins vegar ekki rök fyrir því að bjóða jafnhagkvæm kjör.“

Við teljum, að ef stækkun yrði á þeirri álbræðslu, sem við erum að tala um, þá verðum við að fá hærra rafmagnsverð, enda verði þá viðhorfin í virkjunarmálunum allt önnur. En það rafmagnsverð, sem í þessum viðbótarsamningi er verið að semja um, er miðað við þau viðhorf í virkjunarmálunum, sem eru í dag. Þetta er ekki stækkun á álbræðslunni í framtíðinni, heldur er þetta innskot í byggingu álbræðslunnar gerð á einu ári, 1969–1970, en álbræðslunni átti eftir upphaflega samningnum að vera lokið 1975. Og þegar þetta með stækkun í framtíðinni, eftir að álbræðslunni er lokið, er ritað, þá erum við í raun og veru að tala um, hvað gæti skeð eftir árið 1975, og þá eru viðhorfin í virkjunarmálunum önnur, það er rétt. Við byrjuðum á hagstæðustu virkjuninni, þ.e. við Búrfell. Og það vill svo til, að orkuneyzla okkar sjálfra er minni en ráðgert var, og m.a. þess vegna er hægt að skjóta þessari stækkun og neyzlu þessarar stækkunar inn í okkar virkjunarframkvæmdir nú, enda þótt það þurfi svo að vísu síðar að hafa meiri hraða á virkjunum en ella hefði orðið, því að hér er verið að selja um 20 MW. En það, sem ég sagði áðan, að það væri á misskilningi byggt, að þetta raforkuverð í þessum samningi væri ekki í samræmi við yfirlýsingar stjórnvalda, sem gefnar höfðu verið um hækkandi raforkuverð, fær því miður ekki staðizt, þ.e. þær staðhæfingar minni hl., og það er meginástæðan, sem hann telur vera fyrir því, að hann geti ekki fylgt frv.

Til þess að skýra þetta betur, vil ég segja frá því, að þegar við vorum að ræða um aukinn framkvæmdahraða við Swiss Aluminium, þ.e.a.s. flýta því að verksmiðjunni yrði lokið, 1972 í stað 1975, þá kom upp sú hugmynd hjá þeim að byrja að stækka verksmiðjuna meira, ekki um 10–11 þús. tonna ársafköst, heldur 20 þús. eða 40 MW. Og þeir vildu framkvæma þessa stækkun, og þeir vildu þá borga fyrir rafmagnið 2.5 mill, þ.e. sama raforkuverð og verið hefur. Við sögðum: Við getum ekki samið við ykkur um svona mikla stækkun, 40 MW, með þessu sama raforkuverði, en við teljum að athuguðu máli, að við getum skotið 20 MW sölu inn í viðbótarsamninga við ykkur með sama raforkuverði, því að það er okkur hagstætt. Fyrir því eru færð rök í skýrslu Landsvirkjunar, sem lögð var fram hér í maí í fyrra og er prentuð sem fskj. með frv., og minni hl. iðnn. hefur alveg fallizt á, að með því að selja 20 MW. á sama verði, gerum við bæði stöðu Landsvirkjunar miklu betri og einnig fáum við meira gjald af verksmiðjunni, en sem ég skal ekki blanda inn í þetta núna. En við treystum okkur ekki til að selja 40 MW fyrir sama verð, því að það hefði ekki getað bætt aðstöðuna, vegna þess að þá hefði það rekið svo mikið á eftir nýjum virkjunum í Þjórsá og svo örum stækkunum, að það var skoðun fróðustu manna, að við það yrði ekki ráðið. Þá yrði að koma til hærra verð. Það eru einmitt þessi breyttu viðhorf í virkjunarmálum, að virkjun aflsins og orkunnar verður dýrari, þegar fram í sækir, og það leiðir til þess, að í framtíðinni þarf hærra raforkuverð. Við getum ekki komizt hjá því, þegar komið er fram yfir þetta mark, sem nú er náð, að fá hærra raforkuverð heldur en samið var um í fyrsta samningnum.

Þetta eru nú aðallega skýringar á málinu, en ég vil segja það í sambandi við það, sem Alþjóðabankinn sagði og vitnað var til, að í framtíðinni ættum við að geta fengið hærra raforkuverð. Að sjálfsögðu féllst Alþjóðabankinn á þetta raforkuverð í viðbótarsamningnum, sem hér liggur fyrir, og taldi, að það væri rétt að semja um það eins og það lá fyrir og hagkvæmt fyrir okkur, og hafði engar aths. fram að færa við það. Það staðfestir það, sem ég hef verið að segja, að í raun og veru þarf að lesa þessar tilvitnanir með svolítið meiri kunnugleika aftur í tímann, til þess að hægt sé að draga af þeim alveg réttar ályktanir.

Ég skal svo ekki gera þessa hluti meira að deiluefni, og ég vil heldur ekki blanda mér inn í deilurnar um raforkuverðið, hvort það er kostnaðarverð eða ekki kostnaðarverð, og ég fellst alveg á að stofna ekki til neinna umr. hér, sem gætu skyggt á gleði manna í kvöld. En mig langar til á þessum vettvangi að láta hv. þm. í té upplýsingar, sem ég hef getað aflað mér, sem skipta nokkru máli. Þær eru algerlega ádeilulausar, en ég þykist vita það, að ýmsir þm. telji vera í þeim nokkurn fróðleik.

Það hefur oft verið sagt, að við hefðum gert miklu lélegri samninga heldur en Norðmenn, bæði samið um lægra raforkuverð og gert að öllu leyti okkur óhagstæðari samninga, svo að á s.l. hausti óskaði ég eftir því við sendiráð okkar í Osló, að það aflaði upplýsinga um álsamninga Norðmanna. Nú væri búið að reka Husnesverksmiðjuna í tvö ár, og hvað hafa nú Norðmenn haft upp úr þessari verksmiðju og hvaða samanburð er hægt að gera á þessu? Það bárust svo á sínum tíma upplýsingar um þetta, og ég bað Hjört Torfason, sem er annar fulltrúi ríkisstj. í ÍSAL, að gera samanburð, sem fram kemur í grg. frá honum, á því með ýmsu móti. hvort ætla megi, að hagstæðari séu samningar okkar Íslendinga við ÍSAL og Alusuisse eða samningar þeir, sem Norðmenn gerðu við Alusuisse. Álbræðslan SURAL í Husnes framleiddi um 56 þús. lestir hvort árið, 1967 og 1968, og nú liggja reikningar þeirra ára fyrir. Athugað hefur verið, hvað þeir hafa greitt mikið í skatta á þessum árum. Hvað hafa þeir greitt mikið fyrir raforku? Og hvað er þetta svo í samanburði við, að álbræðslan hér framleiddi 56 þús. tonn á ári, og hvað er þetta samanlagt mikið á hverja kwst. og á lest?

Ef við tökum skattinn fyrst, þá greiddi bræðslan í Husnesi samtals 37 237 750 kr. í skatta 1967 og 38 899 600 kr. árið 1968. Ef þetta er borið saman við skattgjaldið hjá okkur af 56 þús. tonna ársframleiðslu af áli, þá mundu þeir hafa greitt hérna eftir mismunandi töxtum, því að fyrst var greitt 12.50 dollara gjald á lestina og síðan, þegar álið hækkaði í verði, 16 dollarar eftir samningnum. Svo a að greiða 20 dollara og síðan 23.50, það fer eftir því, þegar rafmagnsverðið lækkar. En til þess að gera dæmið minna flókið, þá getum við miðað við það eins og það stendur í dag, þ.e. 16 dollara á lest, og þá mundi ÍSAL greiða af sömu framleiðslu og verksmiðjan í Noregi 78 millj. 848 þús. kr. eða 41 millj. 610 þús. kr. meira árið 1967 og 39 millj. 948 þús. kr. meira 1968. Þetta eru ekki svo smáar upphæðir. Það eru um það bil 40 millj. kr. hvort árið, sem ÍSAL mundi greiða meira í skattgjald heldur en verksmiðjan í Husnes, sem Alusuisse rekur og á að mestu leyti, hefur greitt í skatta. Þegar fram í sækir, verður mismunurinn enn þá meiri, þegar rafmagnsgjaldið lækkar, því þá hækkar skattgjaldið hjá okkur. En það skiptir kannske ekki öllu máli, vegna þess að ég kem síðar að samanburði á þessu samanlagt.

Eins og sjá má af greiðslum ÍSALs, þá eru greiðslur þess á þessu ári miklum mun hærri en SURALs á þessu stigi málsins. Ef miðað er við árið 1968 hjá SURAL, þá verður munurinn gagnvart 1. taxta ÍSALs, áður en alúminíumið hækkaði, 62.6% og gagnvart 2. taxta, sem núna gildir, þ.e.a.s. 16 dollarar á tonnið, þá er munurinn 102.8%. Þannig er gjald ÍSALs meira en tvöfalt hærra. Á síðari töxtum verður hann þaðan af meiri, gagnvart 3. taxta rúmlega 150% og gagnvart 4. taxta sem næst 200%. Ef rafmagnsverð verksmiðjanna er tekið með í dæminu, er samanburðurinn hagstæðari Íslandi eftir sem áður. Rafmagnsverð Norðmanna til SURALs er miðað við kwst. og nemur 1.8 norskum aurum á kwst. plús 17%. Það eru sem næst 25.92 ísl. aurar á kwst. eða 2.94 mill á núverandi gengi. Og þetta verð mun gilda óbreytt hjá Norðmönnum a.m.k. til 1972, en rafmagnsverð ÍSALs er nú 26.4 aurar eða 3 mill á kwst., eins og kunnugt er. Það er m. ö. o. hærra en í Noregi. Það lækkar hjá okkur í 22 aura eða 2.5 mill árið 1975, en samtímis því mun framleiðslugjald ÍSALs hækka sjálfkrafa úr 1. og 2. taxta í 3. og 4. taxta, sem ég vék að áðan, þannig að heildargreiðsla félagsins breytist ekki. Má því segja, að hvort tveggja sé hærra hér en í Noregi um þessar mundir, skattgreiðslur félaganna og rafmagnsverð.

Það er dálítið fróðlegt að gera samanburð á heildargreiðslum SURALs og ÍSALs miðað við 15 þús. kwst. orkuneyzlu pr. lest af áli, sem gilda mun hjá báðum félögunum. Ef þetta er í aurum talið á kwst., þá greiðir SURAL 25.92 aura í rafmagn, í skatta 4.63 aura, eða samtals í skatta og rafmagn 30.55 aura. En ÍSAL greiðir í dag 26.40 aura í rafmagn og í skatta 9.39 aura, eða 35.79 aura á kwst. M.ö.o., SURAL-verksmiðjan í Noregi greiðir 30.55 aura, en íslenzka verksmiðjan, ÍSAL, 35.79 aura á kwst., samanlagt í rafmagn og skatta. Ef þetta er reiknað í kr. á lest af áli, þá greiðir SURAL 1968 3888 kr. í rafmagn á hverja lest og í skatta 695 kr., eða í hvort tveggja 4583 kr. á lest, en ÍSAL mundi greiða 3960 kr. í rafmagn á lest og í skatta 1408 kr., eða 5368 kr. á lest, í staðinn fyrir að SURAL greiðir 4583 kr. Þetta breytist svo nokkuð með breyttum töxtum, sem er ástæðulaust að fara út í, held ég. Ef miðað er við ársafköst og orkuneyzlu SURALs, 56 þús. lestir og 840 millj. kwst., þá lítur dæmið þannig út, að SURAL greiðir árið 1968 í rafmagn 217.7 millj. kr. og í skatta 38.9 millj., eða samtals 256.6 millj. kr., en ÍSAL greiðir, eins og nú standa sakir, 221.8 millj. í rafmagn og 78.8 millj. í skatta, eða 300.6 millj. kr. samanlagt á móti 256.6 millj., sem norska verksmiðjan greiðir. Í hundraðstölum nemur munurinn rúmlega 17% okkur í hag.

Nú var það kannað dálítið eftir að við fengum þessar upplýsingar um gjöldin, hvort það væru einhver gjöld, sem þeir greiddu, eins og söluskattur og annað, sem ekki væri reiknað með í þessu, og Hjörtur Torfason, sem vann að þessu, skrifaði þess vegna álbræðslunni í Husnes eftirfarandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég sendi hér með til upplýsinga og athugunar meðfylgjandi samanburð, sem ég hef gert á greiðslum SURALs og ÍSALs á sköttum og rafmagni á grundvelli upplýsinga í bréfi Alusuisse til sendiráðs Íslands í Osló, dags. 24. nóv. s.l. Þætti mér vænt um, ef þér vilduð kanna, hvort útreikningar mínir fái staðizt. Þar sem ég er ekki viss um, að bréf Alusuisse gefi nægilega skýra heildarmynd af aðstöðu SURALs, þætti mér vænt um, ef kannað yrði, hvort hægt er að fá upplýsingar hjá Alusuisse um eftirfarandi gegnum telex eða með öðrum fljótlegum hætti:

1. Hvað SURAL greiðir mikinn söluskatt og hvort hann nái til svokallaðrar innri þjónustu, þ.e. þjónustu einnar starfsdeildar við aðra, sbr. mgr. 3102 b-i í aðalsamningnum frá 1966, þ.e. samningnum okkar, og

2. Hvort Alusuisse sé skattskylt í Noregi af greiðslum til þess frá SURAL, þ.e. á arði, verkfræðiþóknun, þóknun fyrir tækniaðstoð, söluumboðslaun o.s.frv.“

Þessum fsp. var svo svarað þannig:.Í Noregi er allur útflutningsiðnaður sem slíkur undanþeginn virðisaukaskatti, — sem er einna líkastur söluskattinum hjá okkur. Hins vegar greiða fyrirtæki virðisaukaskatt af aðkeyptum vörum og þjónustu, en eiga rétt á fullri endurgreiðslu, ef framleiðsluvörur fyrirtækisins eru síðan fluttar út. SURAL flytur alla framleiðslu sína út og fær því endurgreiddan þann virðisaukaskatt, sem þeir kunna að hafa greitt. Varðandi skattskyldu Alusuisse er það að segja, að Alusuisse er ekki skattlagt í Noregi af þeim greiðslum, sem minnzt er á, af arði og öðru, en hins vegar að sjálfsögðu í Sviss. En það a.m.k. kemur ekki fram í Noregi.

Mér þótti rétt að láta þessar upplýsingar koma fram, því að þær hafa eiginlega ekki fyrr verið dregnar fram í dagsljósið. Við höfum oft rætt um þetta áður og hefðum kannske getað aflað þeirra fyrr, þegar við vorum að gera samningana á sínum tíma, en þá lá það ekki fyrir, hverjar skattgreiðslurnar yrðu, og var erfitt að áætla það hjá Norðmönnum, en nú eru þeir sem sagt búnir að greiða. Ég hef því miður ekki tölur fyrir s.l. ár. Það væri að sjálfsögðu rétt að kanna það, hvernig þetta hefur komið út hjá SURAL 1969, því í þessu er töluverður fróðleikur. Ég vildi láta þessar upplýsingar koma fram undir þessari meðferð málsins hér, um viðbótarsamninginn við álbræðsluna, án þess að blanda því inn í þær deilur um raforkuverðið, hvort það í sjálfu sér sé nógu hátt eða ekki, sem út af fyrir sig skiptir ekki máli í þessu sambandi, heldur eru þetta eingöngu upplýsingar um það, hvort við höfum samið þannig, að það standist samanburð við það, sem hliðstætt hefur verið gert í Noregi og oft hefur verið vitnað til.

Mér þykir vænt um, að ekki hefur orðið verulegur ágreiningur um þetta mál nú, og deilurnar um sjálft raforkuverðið bíða að sjálfsögðu síns tíma, eins og fram hefur verið tekið.