12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. Í sambandi við lokaorð hv. 4. þm. Austf. um, að þessi viðbótarsamningur hafi ekki verið gerður fyrir okkur Íslendinga, þá hef ég aldrei dregið neina dul á það frá upphafi vega, að þeir samningar, sem gerðir hafa verið, hafa hvorki verið gerðir fyrir okkur eingöngu né fyrir Svisslendingana eingöngu. Þetta er bara með þeim eðlilega hætti, þegar menn semja, að menn ná ekki samningum, nema báðir telji sér hag af samningnum. Og það hefur aldrei hvarflað að mér, að Svisslendingar mundu gera nokkurn skapaðan hlut fyrir okkur. Þeir gera þennan samning við okkur, af því að þeir sjá sér hag í samningnum. Við gerum þessa samninga heldur ekki fyrir Svisslendingana. Við gerum þá, af því að við teljum okkur hag í samningunum. Þetta liggur í hlutarins eðli.

Svo ég víki aðeins að þessum samanburði, sem ég gerði hér áðan á SURAL og ÍSAL, þá finnst hv. 4. þm. Austf., að það sé borið saman eitthvað ósambærilegt. Þetta get ég ekki fallizt á. Ég stend í þeirri trú, að hér sé samanburður á algerlega sambærilegum hlutum. Ég er reiðubúinn til þess að halda þessum samanburði áfram í samráði við hv. þm. og aðra þm., sem óska þess, og að við reynum sameiginlega án allrar tortryggni að finna út úr því, hvort hér er borið saman eitthvað sambærilegt eða ekki sambærilegt. Á þessu stigi málsins veit ég ekki betur en bornir séu saman alveg fullkomlega sambærilegir hlutir, og því gerði ég grein fyrir þessu. En ég skal ekki hafa um það fleiri orð og ekkert vera að karpa um það, en ég er reiðubúinn fyrir mitt leyti og vil mjög gjarnan halda áfram að athuga þennan samanburð, og þá einkum frá árinu 1969, og sjá, hvernig hann kemur út, og fá hlutlausa umsögn um það, hvort hér vantar eitthvað upp á, því að það er mikils virði fyrir okkur og fyrir þá, sem í framtíðinni fjalla um þessi mál, að vita það rétta í því sambandi. (EðS: Kaupgreiðslurnar líka.) Kaupgreiðslur eru nú dálítið annað mál. Ég verð nú að segja það, að það var óþarfi að skjóta þessu inn. Ég veit ekki, hvernig við eigum að komast í samanburð í því sambandi. Við erum hér að tala um raforkuverð annars vegar og skattgreiðslur hins vegar, og það er bara vegna þess, að því er haldið fram, að skattgreiðslurnar, opinberu gjöldin, séu sambærileg. (EðS: Vísaðu þessu þá til n. og legðu áherzlu á þetta atriði.) Það vill verða svo, að þegar á að fara að bera það saman, sem deilt hefur verið um, þá er erfitt að fá menn til að sættast á það, en því býð ég þessum hv. þm. upp á sameiginlega skoðun á þessum samanburði.

En varðandi raforkuverðið, sem ég gerði grein fyrir, að er lægra í Noregi heldur en við fáum greitt núna og til 1975 hjá ÍSAL, þá var rétt hjá hv. 4. þm. Austf., að við gáfum þær upplýsingar á sínum tíma, að raforkuverðið væri nokkru hærra. Ég þori ekki að fullyrða það, en það er eins og mig minni, að við höfum talað um 3.17 mill á móti 2.5 mill, og svo 3.3 mill, sem gilda nú og fram til 1975, meðan skattgjaldið er annað. En það er rétt, verðið er innan við 3 mill hjá Norðmönnum og þannig svolítið lægra heldur en hjá okkur. En þessi breyting, sem orðin er á, stafar af því, að það hefur orðið gengisfall hjá Norðmönnum á norsku krónunni og þeir sömdu í norskum kr., en við sömdum í dollurum. Það er í því, sem þessi mismunur liggur núna, þegar þetta er borið saman við hlutdeild úr dollara.

Ég skal svo ekki elta ólar við gamlar skýrslur eða tilvitnanir í þær, en ég vil aðeins segja það, að menn verða að hafa það í huga, að við sömdum aldrei um 30 þús. tonna verksmiðju. Það var aldrei búið að gera samning um það, svo að það er ekki um það að ræða, að eftir að við vorum búnir að semja um 2.5 mill til 30 þús. tonna verksmiðju, þá höfum við samið aftur um 2.5 mill til 30 þús. tonna verksmiðju í viðbót, í stað þess að semja um hærra verð, eins og við vorum að tala um. Það voru aldrei neinir samningar 1964, og það var ekkert vitað um það 1964 yfir höfuð, hvort það næðust nokkrir samningar um álbræðslu á Íslandi.

Við erum töluvert búnir að reyna að grennslast fyrir um það, hvort nokkrir möguleikar séu á hagstæðum samningum fyrir Ísland um aðrar álbræðslur hér á landi, síðan þessi samningur var gerður. Það hefur ekki mikið rekið á fjörur okkar, en hins vegar hefur orðið gífurleg aukning á álframleiðslu í heiminum, ekki sízt í Evrópu, og það meira að segja ráðagerðir um stórkostlega aukningu álframleiðslu í Evrópu. Út frá því sjónarmiði gætum við kannske hugsað okkur, að það væru möguleikar fyrir okkur á að geta gert nýja samninga og hagstæðari um aðra álbræðslu hér á landi, en um það er allt of snemmt að fullyrða nú. Ég sá t.d. fyrir nokkrum dögum úrklippu úr blaði, sem kunningi minn sendi mér, þar sem sagði að tvö stórfyrirtæki, franskt og amerískt, væru að tala um að hafa samvinnu um byggingu á einnar millj. tonna álbræðslum í Evrópu, en það væri ekki ákveðið enn, hvar þær ættu að vera staðsettar. En þar hefur orkuverðið verið mjög dýrt og ég held því, að það hljóti að byggjast á allt öðru orkuverði og væntanlega þá ódýrri kjarnorku, sem menn gera ráð fyrir, en ég er hins vegar alveg ókunnugur því.

Varðandi þau atriði, sem snertu það, hvort raforkuverðið til ÍSALs væri neðan framleiðsluverðs eða ofan, sem hv. síðasti ræðumaður vék að, ætla ég ekki frekar en aðrir, sem hér hafa talað í dag, að víkja frekar að, heldur geyma það til þess tíma, þegar það mál kemur til umr.