16.03.1970
Efri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu við Straumsvík, hefur hlotið meðferð og afgreiðslu í hv. Nd. Það er nokkuð langt um liðið síðan þingið fékk það til meðferðar, en það varð samkomulag um það á milli þm. í Nd., að afgreiðsla málsins biði nokkuð, og ég vil vona, að hv. Ed.-þm. telji það ekki koma að sök, þó að frv. komi seint til meðferðar á þingtímanum hér í Ed., kannske fyrst og fremst vegna þess, að þm. hafði þegar verið gert aðvart um flutning þessa máls og gerð grein fyrir meginefni þess í skýrslu, sem lögð var fyrir þm., áður en þingi lauk í maímánuði í fyrra.

Það var 28. okt. s.l., sem iðnmrh. undirritaði þennan viðaukasamning við fulltrúa Alusuisse með fyrirvara um staðfestingu af hálfu Alþ., en aðdragandinn var sá, að enda þótt nokkuð hafi verið í tvísýnu og mikið rætt um skort á vinnuafli, þegar álsamningurinn var gerður 1966 í tengslum við stórvirkjun í Þjórsá, þá hafa orðið þær breytingar í þjóðfélaginu, vegna mikilla áfalla, sem hv. þm. er kunnugt um, að í staðinn fyrir vinnuaflsskort höfum við um tíma þurft að búa við nokkurt atvinnuleysi. Og þegar sjá mátti nokkuð fram á hvað verða vildi, þá kom upp sú hugmynd, hvort ekki væri hægt að semja við Alusuisse eða Swiss Aluminium um aukinn framkvæmdahraða við byggingu álbræðslunnar. Samkv. samningnum frá 28. marz 1966, var gert ráð fyrir, að ljúka álbræðslunni í þremur áföngum, fyrst álbræðslu með 30 þús. tonna árlegum afköstum og síðan í tveimur áföngum með þriggja ára bili, viðbót um 15 þús. tonn og aftur I5. þús. tonn, þannig að lokið væri byggingu 60–66 þús. tonna álbræðslu árið 1975. Þegar ég átti um haustið 1968 viðræður við fyrirsvarsmenn Alusuisse, voru þeir efnislega samþykkir því, að þeir gætu hugsað sér að gera slíka samninga við okkur um aukinn framkvæmdahraða, þó að það væri þá ekki hægt að ganga formlega frá þeim samningum. Það var svo á s.l. vori í sambandi við aðalfund ÍSALs í lok apríl, að gert var samkomulag milli beggja aðila um aukinn framkvæmdahraða, eins og ég var að lýsa áðan, og einnig stækkun á upphaflega ráðgerðri hámarksstærð álbræðslunnar. Þessu var þm. gerð grein fyrir í skýrslunni, sem lögð var fram í maí á s.l. ári, og þá gerð grein fyrir því, að samkv. þessu mundi þurfa að leggja fyrir Alþ. viðbótarsamning, sem ætti eftir að „formúlera“. Lá hann svo fyrir í lok október og var þá undirritaður í því formi, sem hann fylgir nú þessu frv., og með, eins og ég sagði áðan, fyrirvara um samþykki Alþingis.

Þessi viðbótarsamningur felur í sér tvennt eða kannske þrennt, en þó aðallega tvennt. Annars vegar er slegið fastri hraðari uppbyggingu áður ráðgerðrar stærðar, þannig að henni verði lokið í september 1972 í staðinn fyrir í september 1975, og hins vegar er svo skotið inn stækkun á álbræðslunni, þ.e. að mannvirki álbræðslunnar verði stækkuð um 1/6 hluta umfram það mark, sem gildandi samningar náðu til, þ.e.a.s. úr 120 í 140 MW málraun. Það þýðir, að samið var um aukna raforkusölu um 20 MW, sem mun þýða 10–11 þús. lesta aukningu á árlegri afkastagetu.

Jafnframt var svo gerð nokkur breyting á samningi, sem fylgdi upphaflega aðalsamningnum, um stofnkostnað hafnarmannvirkja í Straumsvík, sem ekki skiptir verulegu máli, en má þó segja, að sé okkur í hag. Efni málsins var það, að álbræðslan átti að greiða kostnaðinn, sem af þessari mannvirkjagerð mundi leiða, á 25 árum. En mannvirkin eru í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar, og þessar greiðslur skyldu koma í staðinn fyrir hafnargjöld á þessu tímabili. Á þessu hefur svo orðið sú breyting, að nú er ráðgert, að félagið greiði kostnaðinn með afborgunum, sem lokið verði á 15 árum, og greiðsluskilmálunum er komið þannig fyrir, að þeir geti fallið saman við greiðslur af láni, sem ríkissjóður hyggst taka til þess að standa straum af hafnarframkvæmdunum. Þá verður reyndin sú, að ÍSAL eða Alusuisse verður í raun og veru beinn greiðandi að láninu. Og þá má segja, að í þessu sé sá hagur, að ríkissjóður og Hafnarfjarðarkaupstaður séu þar með firrtir þeirri áhættu, sem gat verið fyrir hendi, að þurfa að greiða niður hafnarkostnaðinn á skemmri tíma en þeim, sem félaginu var ætlaður til endanlegrar greiðslu á honum.

Þeirri stækkun, sem hér er ráðgerð, um 1/6 af upphaflegri stærð, er skotið inn með þeim hætti, að henni á að vera lokið í júlímánuði í sumar, og þegar á allt er litið, annars vegar aukningu framkvæmdahraðans og hins vegar stækkunina, þá voru niðurstöður okkar í ríkisstj. og í Landsvirkjun þær, að þetta væri til aukinnar hagkvæmni fyrir Landsvirkjun og einnig mundi það leiða af sér hagkvæmni í hærri framleiðslugjöldum heldur en ella væri. Og loks skapaðist með þessu móti, eins og ég vék að í öndverðu, meira samhengi í framkvæmdirnar, sem væri okkur til hagræðis. Þannig hefur verið haldið áfram að vinna við álbræðsluna, lengja keraskálann, sem upphaflega átti að vera miðaður við 30 þús. tonna árleg afköst, og síðan er gert ráð fyrir, að þegar undirbúningi við stækkun eftir það er lokið 1970, byrji strax undirbúningur að stækkun og framhaldi verksins og framkvæmdir við síðari keraskálann geti síðan hafizt upp úr áramótunum 1970 eða 1971 og verði lokið í sept. 1972.

Í grg. og útreikningunum, sem hér fylgja með og ég veit að þm. hafa kynnt sér, er borið saman, hvaða greiðslur við þyrftum að inna af hendi, annars vegar án aukins framkvæmdahraða og stækkunar, og hins vegar með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun. Þar kemur í ljós, að brúttótekjur Landsvirkjunar fyrir tímabilið frá 1. okt. 1969, þegar framleiðsla hófst, og til 1. okt. 1984 eru með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun samtals 3734.4 millj. kr., en að óbreyttum samningum 2838 millj. kr. Mismunurinn er því sá, að brúttótekjur Landsvirkjunar af orkusölunni verða 896.4 millj. kr. meiri á þessu tímabili. Einnig er gerð grein fyrir því, að mjög verulegur hluti af þessum brúttótekjum mun einnig koma fram sem hreinar tekjur eða nettótekjur, þar sem framleiðslugeta Búrfellsvirkjunar nýtist miklu fyrr en ella. Og þannig telur Landsvirkjun í grg. sinni, sem dags. er 5. maí s.I. og fylgir skýrslu iðnmrn., sem ég hef áður vikið að og er hér sem fskj., að nettótekjur fyrirtækisins árin 19691985 muni verða um 465 millj. kr. hærri með viðbótarstækkun álbræðslunnar en án hennar. Og þá vil ég leggja áherzlu á, að það er tekið fullt tillit til þeirrar fjárfestingar í nýjum mannvirkjum, sem stækkunin kallar á, þegar frá líður, því að þörf er á og reiknað er með í skýrslu Landsvirkjunar, að hefja nýja mannvirkjagerð til þess að selja til viðbótar þessi 20 MW. Kostnaðurinn af þeim framkvæmdum er því tekinn inn í þessa útreikninga.

Á bls. 20 og 21 í fskj. frv. er af hálfu Landsvirkjunar gerð grein fyrir þeirri hagkvæmni, sem af stækkun bræðslunnar leiði, og hún er talin í 4 liðum, sem ég vildi mega leyfa mér að leggja áherzlu á, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Nettótekjur Landsvirkjunar 1969–1985 áætlast 465.1 millj. kr. hærri miðað við stækkun bræðslunnar en án hennar.

2. Sjóðseign Landsvirkjunar í árslok 1985 áætlast 148.7 millj. kr. hærri með stækkun bræðslunnar en án stækkunar, enda þótt afborganir með stækkuninni séu 110 millj. kr. hærri til ársloka 1985.

3. Á erfiðustu rekstrarárunum, þ.e. 1970–1972, er arðgjöfin af nettófasteign hærri með stækkuninni, eða 5.7% í stað 5%. Og á árunum 1973–1985 er arðgjöfin hins vegar svipuð í báðum tilfellum, eða að meðaltali rúm 10%.

4. Þrátt fyrir 362.5 millj. kr. hærri fjárfestingu með stækkuninni, eru lántökur 1969–1985 aðeins 136.2 millj. kr. hærri en án stækkunarinnar.“

Það varð þess vegna niðurstaða stjórnar Landsvirkjunar, að það væri til mikils hagræðis og rétt að gera þessa samninga, bæði um aukinn framkvæmdahraða og viðbótarstækkun.

Nú hef ég gert nokkra grein fyrir áhrifunum í sambandi við raforkusöluna, en einnig er á það að líta, að með auknum framkvæmdahraða og stækkun, verður framleiðslugjaldið verulega hærra. Það er gerð grein fyrir því í aths., að þegar miðað er við 1. október 1975, þá munar 120.9 millj. kr., sem gjaldið verður hærra með nýju samningunum heldur en með óbreyttum eldri samningum. Og þegar miðað er við árið 1978, verður hækkunin 179.1 millj. kr., til 1. okt. 1984 er hækkunin 295.2 millj. kr. og til 1. okt. 1994 692.1 millj. kr. Um þetta munar okkur að verulegu leyti, en eins og kunnugt er, rennur þetta framleiðslugjald til atvinnujöfnunarsjóðs, iðnlánasjóðs og Hafnarfjarðarkaupstaðar. Hér er um verulegar upphæðir að ræða. Það sjáum við á því, að heildargjald með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun er áætlað til 1. okt. 1975 503.3 millj., en að óbreyttum samningum 348.5 millj., mismunurinn er 154.8 millj. kr. Miðað við 1. okt. 1978 er heildargjaldið með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun 981.1 millj., en að óbreyttum samningum 757.9 millj., svo að þarna er um hækkun að ræða, sem nemur 223.2 millj. kr. Til 1. okt. 1984 er heildargjald með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun 1 936.5 millj., en að óbreyttum samningum 1 576.9 millj., eða hækkunin 359.6 millj. kr. Og til 1. okt. 1994 er heildargjaldið með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun 4 407.3 millj., en að óbreyttum samningum 3.617, eða alls á þessu tímabili 790.3 millj. kr. hærra.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fylgja þessu frv. úr hlaði með frekari ræðuhöldum við þessa umr., og leyfi mér að vænta þess, að menn geti fallizt á það, að frv. fylgi það ýtarlegar upplýsingar og grg. um eðli málsins, að þm. eða þn. eigi þess vegna auðvelt að átta sig á því, hvað hér er um að ræða, en að sjálfsögðu mun rn. láta í té frekari upplýsingar, ef þess er óskað eða hlutast til um það í sambandi við störf nefndarinnar.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. iðnn.