23.03.1970
Efri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm.1. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 452 hef ég, ásamt hv. 4. þm. Sunnl., lagt fram nál. um maí það, sem hér er til umr., þ.e. um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstj. og Swiss Aluminium um álbræðslu í Straumsvík. Eins og kemur fram í því nál., mælum við þar með því, að frv. verði samþykkt. Ég skil nú ekki ummæli hv. síðasta ræðumanns nema þannig, að hann hafi ekki verið búinn að lesa skjalið.

Það, sem hér er um að ræða, eins og hv. 7. landsk. þm. hefur raunar rakið, er það efni þessa samnings, að það er gert ráð fyrir því, að síðari áfanga álbræðslunnar í Straumsvík verði lokið allmiklu fyrr en ráðgert var áður, eða 1. sept. 1972. Jafnframt er heimilað að stækka fyrri áfangann um 10–11 þús. lestir, en til þess að hægt sé að nota þá viðbót, þarf aukna raforkusölu frá Búrfellsvirkjun, sem nemur 20 MW. Og í viðaukasamningi, sem fylgir þessu skjali, er farið fram á heimild Alþ. til þess að selja þá raforku, sem þar um getur, á sama verði og áður hefur verið samið um og nú er selt á.

Eins og við öll vitum, sem hér eigum sæti, hafa núna og í allan vetur staðið yfir allharðskeyttar deilur um raforkuverðið frá Búrfelli, hversu nálægt það sé kostnaðarverði eða langt yfir, eftir því til hvors málflutningsins er vitnað. Við, sem stöndum að nál. á þskj. 452, ætlum að leiða þær deilur hjá okkur, enda sýnist okkur, að þær hafi lítið gildi í sambandi við þetta mál. Við bendum þess í stað á það, að eins og sakir standa er talsverð raforka framleidd við Búrfell, sem enginn kaupandi er að, og það er því álit okkar, að það sé hagkvæmara að selja þessa orku við því verði, sem um hefur verið samið, hvernig sem það svo kann að vera gagnvart framleiðsluverðinu, heldur en að nýta hana ekki. Þetta eru þau rök, sem mæla með því að okkar dómi, að þessi samningur sé gerður.

Það mætti vafalaust fara mörgum orðum um það, hvort ekki væri unnt að finna önnur verkefni fyrir þessa raforku, sem betur mundu borga sig, heldur en að selja hana við þessu verði, sem hér er talað um. Í því sambandi hefur t.d. verið bent á það hér á Alþingi, að slík umframorka mundi geta verið hagkvæm til upphitunar. Já, ég man það raunar, að það var flutt fyrirspurn um það hér á Alþingi, hvort sú væri ekki raunin. Og ef ég man svar hæstv. raforkumálaráðh. rétt, þá voru þau mál öll á undirbúningsstigi og ekkert í raun og veru hægt að segja um það, hvort slík nýting væri hagkvæm eða ekki. Ég álít, að þetta sé mjög þýðingarmikið mál og að það sé raunar vanræksla að hafa ekki kynnt sér þetta til hlítar, þannig að við gætum nú metið það hreinlega, hvort væri heppilegra að selja raforkuna til Straumsvíkur fyrir þessa — ég man nú ekki nákvæmlega hvað margir aurar það eru, 2,5 mill. hygg ég, — eða að selja hana til upphitunar víðs vegar um landið, eða hér á svæði Búrfellsvirkjunar, og að hún gæti þá orðið ódýrari en sú orka, sem tiltæk er til upphitunar á svæðinu. En um þetta er sjálfsagt tómt mál að tala að svo stöddu, því málið hefur ekki verið kannað og þar af leiðandi ekkert hægt um það að fullyrða.

Ég skal ekki vera að lengja þessar umr. með frekara tali um þetta, en ég hygg, og því hefur raunar ekki verið mótmælt með rökum, að það verð á orkunni, sem nú er seld til Straumsvíkur er, eins og sakir standa að minnsta kosti, alls ekki nægilega hátt til þess að standa undir framleiðslukostnaðinum. Og ég tek það fram fyrir mína hönd og hv. 4. þm. Sunnl., að stuðningur við þetta frv. þýðir ekki það, að við höfum fallið frá gagnrýni á það raforkuverð, sem nú er í gildi, heldur helgast afstaðan einungis af því, sem ég áðan sagði, að við teljum það þó skárra að selja orkuna á umsömdu verði heldur en að láta hana ónotaða.