20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

166. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. meiri hl. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Mál þetta, sem hér liggur fyrir, mun vera fyrsta málið, sem var lagt fyrir Alþ. eftir þinghlé í febrúar, og heilbr.- og félmn. hefur haft það til umr. á tveimur fundum, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Leggur meiri hl. n. til í svofelldu nál., að frv. verði afgreitt óbreytt:

Allshn. hefur fjallað um frv. þetta, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Leggja undirritaðir nm. til, að frv. verði samþykkt óbreytt, í trausti þess, að almannatryggingalögin verði tekin til gagngerrar endurskoðunar fyrir næsta Alþ.“

Frv. þetta má segja að sé tvíþætt. Það fjallar annars vegar um hækkun á bótum elli-, örorku-, barna- og ekkjulífeyris og á mæðralaunum, en hins vegar um hækkun á fæðingarstyrk og fjölskyldubótum og ber þar ekki saman um hækkanirnar, því lagt er til, að þær bætur, sem ég nefndi fyrst, hækki um 5.2%, en hinar nokkru meira.

Mér þykir rétt að skýra frá því, hvað liggur til grundvallar þeirri hækkun, sem hér er lögð til. Í vetur var látin fara fram athugun á því, hvað þessar bætur þyrftu að hækka, svo að lífeyrisþegar fengju sömu hækkun á bætur sínar og launþegar fengu mesta hækkun á laun sín s.l. ár. Í byrjun ársins sem leið voru þessar bætur hækkaðar allnokkuð, að mig minnir um 15%, og átti sú hækkun að nægja, að haldið var, til þess að vega upp á móti þeirri skerðingu, sem kom fram vegna gengisbreytingarinnar. Þetta varð þó eigi, og til að bæta það upp, sem á vantar, er hér lagt til, að elli- og örorkulífeyrir, ekkjubætur, mæðralaun og barnalífeyrir hækki sem næst um 5.2%, og á það að nægja til þess að vega upp þessa hækkun, sem ég nefndi áðan. Félmrn. lét fara fram athugun á því í vetur, - ég má segja í nóv. eða des., — hvað bæturnar þyrftu að hækka mikið, til þess að kaupmáttur þeirra væri eins og hann hefði mestur verið, og þessi rannsókn var miðuð við s.l. 10 ár. Kom þá í ljós, að kaupmáttur þessara bóta var hæstur 1967, og til þess að slíkum kaupmætti yrði nú náð, þá hefði þurft að hækka bæturnar um 12.8%, ef miðað var við vísitölu framfærslukostnaðar, en um 16.2%, ef miðað væri við neyzluvöruvísitölu. Hins vegar varð það niðurstaðan við afgreiðslu fjárl., að ekki þótti fært að hækka bæturnar þetta mikið. Í raun og veru var því með afgreiðslu fjárl. loku fyrir það skotið, að bótaþegar fengju þær bættar upp til jafns við þá, sem fengu mestar bætur á laun sín s.l. ár, og munar þá þarna, eftir því við hvora vísitöluna er miðað, 7 eða 11%.

Enginn þarf að láta sér það dyljast, að vafalaust erum við allir óánægðir með, að þessar bætur skuli ekki vera hækkaðar meira. En þeir, sem hafa staðið að því að afgreiða fjárl., eins og þau voru afgr. fyrir s.l. áramót, telja sig ekki geta annað en framfylgt því, sem þá var samþ., og standa því að samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir. Aftur eru fjölskyldubætur hækkaðar talsvert meira en ég var að nefna áðan, enda hafa fjölskyldubætur dregizt verulega aftur úr, og einnig er fæðingarstyrkur hækkaður til samræmis við það, að kona, sem elur barn og dvelur þess vegna 7 daga á sjúkrahúsi, fái kostnaðinn af því borinn uppi af greiðslu fæðingarstyrks. En ég má segja, að svo til alltaf síðan almannatryggingalögin tóku gildi, þá hafi fæðingarstyrkur einmitt verið við þetta miðaður. Hins vegar hefur kostnaður við sjúkrahúsdvöl breytzt miklu meira en margt annað, þess vegna er fæðingarstyrkurinn nú orðinn hlutfallslega miklu hærri en hann var í upphafi.

Ég held ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, en leyfi mér þó að bæta því hér við, að það mun nú ákveðið, að skipuð verði nefnd til þess að endurskoða almannatryggingalögin og henni er ætlað að skila áliti sínu, frv. að breytingunni, fyrir næsta þing. Þetta kemur líka fram í nál. meiri hl., þar sem segir svo, að nm. leggi til, „að frv. verði samþ. óbreytt í trausti þess, að almannatryggingalögin verði tekin til gagngerrar endurskoðunar fyrir næsta Alþ.“